Það var hressandi að horfa á Háaloftskonur á litla sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi. Þær léku þar, sungu og dönsuðu nýtt leikverk eftir Auði Övu Ólafsdóttur, Ekki hætta að anda. Stefán Jónsson leikstýrði þeim og Melkorka Sigríður Magnúsdóttir samdi dansana sem brutu upp framvinduna á afar þokkafullan hátt. Þessi sýning er eins ólík öðrum uppsetningum leikhúsanna í vetur, að innihaldi og stíl, og hugsast getur – enda brakandi ný og fersk.
Ekki hætta að anda kemur í eðlilegu framhaldi af sýningu Háaloftsins á Útundan sl. vor í Tjarnarbíói. Það verk fjallaði um barnleysi og afleiðingar þess á líf þriggja para. Í nýja verkinu hittum við fjórar konur sem hafa aldrei hist fyrr en eiga það sameiginlegt að hafa eignast barn með sama manninum, Hákoni. Hann er nú látinn og konurnar fjórar eru komnar saman að boði Agnesar, síðustu konunnar í lífi Hákonar, til að ræða framlag sitt til útfararinnar. Þar eiga þær að syngja erlent lag sem Hákon hefur sjálfur valið en við íslenskan texta sem þær eiga að semja um hann.
Agnes mætir aldrei, konunum fjórum til undrunar, en hún hefur væntanlega valið fundarstaðinn, sal í eins konar félagsheimili. Úr öðru lokuðu rými heyrist kórsöngur og vísar Brynja Björnsdóttir leikmyndar- og búningahönnuður þar nett í Kóræfingu, einkar minnisstætt verk eftir Þorvald Þorsteinsson. Það verk fær líka óvænt framhald í þessari sýningu sem ekki má skýra nánar. Það er raunar margt sem ekki má skýra nánar í sambandi við þessa sýningu svo engu sé spillt en ég get þó sagt að titillinn á þessum pistli mínum er ekki út í hött.
Konurnar fjórar eru ólíkar manngerðir og greinilegt að Hákon hefur haft fjölbreytilegan (nú, eða engan sérstakan) smekk á kvenfólk. Fyrsta kona á svið, Védís (María Heba Þorkelsdóttir), er svolítið konuleg og siðleg og klædd í samræmi við það í kjól sem sýnir engar líkamslínur. Þuríður (Elma Lísa Gunnarsdóttir) er barbídúkkan í níðþröngu bleikrauðu leðurpilsi og barnalega smámælt. Veðurfréttakonan Dagný (Tinna Hrafnsdóttir) er sportleg og hress en má ekki vamm sitt vita. Versta upplifun ævi hennar er þegar hvítu strigaskórnir hennar sáust í sjónvarpinu en henni hafði verið lofað að þeir yrðu alls ekki í mynd. Síðust á staðinn er Ástríður (Katla Margrét Þorgeirsdóttir) og sýnir með öllu sínu látæði að hún er tilbúin til að taka stjórnina. Persónusköpunin í búningum og fasi allra var skýr og rosalega gaman að sjá þessar færu leikkonur blása lífi í margræðu orðin hennar Auðar Övu.
Þær stöllur eru ekki bitrar út í Hákon, hann hefur fært birtu og líf inn í líf þeirra, jafnvel í bókstaflegri merkingu. En hvernig maður var hann? Jú, þær vita hvað hann hét (eða hvað?) og hann var áreiðanlega með ljóst krullað hár og meðalmaður á hæð, en hvað fleira geta þær unnið með í minningarsöngnum? Samtöl þeirra um þennan mikilvæga mann eru leitandi en finna sjaldan nokkuð og þau verða smám saman drepfyndin á sinn fáránlega hátt og þó í aðra röndina svolítið sársaukafull.
Árni Rúnar Hlöðversson á tónlistina í verkinu og Baldvin Magnússon sér um hljóð í sýningunni og þeir gegna ekki minna hlutverki en Brynja búningahönnuður. Það er rosalega freistandi að ræða nánar um það en ég veit að ég má það ekki og bið fólk bara um að fara sjálft að sjá og heyra.