Það var mikil hátíð í Íslensku óperunni í gærkvöldi þegar Benjamin Levy hljómsveitarstjóri og Kolbrún Halldórsdóttir leikstjóri frumsýndu uppsetningu sína á Don Giovanni eftir W. A. Mozart og textahöfundinn Lorenzo da Ponte. Snorri Freyr Hilmarsson gerði smekklega leikmyndina og tókst furðuvel að stækka sviðið með háum baktjöldum og hallandi gólfi. Á hvort tveggja var listilega leikið með ljósum og myndum undir stjórn Björns Bergsteins Guðmundssonar. Þó verð ég að benda á að sviðið var líka erfitt, leikararnir áttu til að ganga hálfbognir, einkum þegar þeir klifu brattann, og ekki fór vel um veisluföngin á gólfinu í lokahófinu. Búningar Maríu Th. Ólafsdóttur voru verulega klæðilegir, fallegir og skemmtilegir þannig að umgjörðin utan um þetta einstaka listaverk var vel heppnuð. En hvað þá með innihaldið?
Söguna má vel kalla svarta kómedíu og er ástæða til að hæla leikstjóra fyrir hve mikið varð úr gamansemi verksins, sem þýðandi skjátexta, María gerði líka góð skil. Nefna verður þó á móti að ekki varð eins mikið úr hrikaleik endalokanna. Hér segir frá auðuga aðalsmanninum don Giovanni (Oddur A. Jónsson) sem í leiða sínum á innihaldslausu lífi hefur að æviviðfangsefni að fleka konur. Hann er hreinlega kynlífsfíkill og gerir þar engan kvennamun, ræðst jafnt á ungar saklausar alþýðustúlkur eins og Zerlinu (Þóra Einarsdóttir) – á sjálfum brúðkaupsdegi hennar – og höfuðsmannsdótturina donnu Önnu (Hallveig Rúnarsdóttir) og girnist jafnt aðalsmeyna donnu Elviru (Hanna Dóra Sturludóttir) og þernuna hennar. Ekki þarf að taka fram að hjarta hans er aldrei snortið þótt hann leiki ásthrifni af innlifun. Sök sér má telja beina tælingu eins og í fyrstu senu þeirra Zerlinu með sinni dýrlegu aríu, „La ci darem la mano“, einni þeirri þekktustu úr óperunni (ógleymanleg úr dönsku kvikmyndinni Babettes gæstebud). En það er erfitt að fyrirgefa honum að laumast óboðinn inn í svefnherbergi donnu Önnu og þykjast vera heitmaður hennar. Anna hrópar á hjálp þegar hún uppgötvar bellibrögðin og faðir hennar (Jóhann Smári Sævarsson) kemur á vettvang. Þeir Giovanni heyja einvígi og faðirinn fellur. Anna veit ekki hver óboðni gesturinn var en fer á stúfana að leita að honum ásamt unnusta sínum, don Ottavio (Elmar Gilbertsson). Donna Elvira er líka að leita að honum og þegar eiginmannsefni Zerlinu, Masetto (Ágúst Ólafsson) bætist í hópinn fer hringurinn að þrengjast utan um Giovanni og hans trúa en uppgefna þjón, Leporello (Tomislav Lavoi). En það er hinn fallni faðir sem að lokum geldur Giovanni makleg málagjöld.
Það sem kemur fyrst í hugann er hve jafn og góður flutningurinn var, bæði af hendi söngvara og hljómsveitar. Þar bar engan skugga á. Og leikurinn var líka góður þó að ekki gefist rúm fyrir mikil tilþrif í þessu takmarkaða rými. Donna Elvira var eins og virkt eldfjall, einkum framan af, í túlkun Hönnu Dóru, þar hjálpaði líka til hárauði kjóllinn hennar. Jóhann Smári var virðulegur og ábúðarfullur höfuðsmaður, bæði lifandi og dauður. Hallveig túlkaði sorg Önnu eftir föður sinn átakanlega vel og söng aríur hennar af einstakri innlifun og fegurð, efstu tónarnir tærir og nístandi, þeir neðstu þrungnir sterkum tilfinningum sem hún reynir að byrgja inni. Elmar var frábær í hlutverki hins trygga en svolítið sviplitla Ottavios og aríurnar hans, einkum þegar hann sver að hefna höfuðsmannsins, voru fantavel fluttar. Senur þeirra hjónaefna voru meðal hápunkta frumsýningarinnar. Leporello var í traustum höndum Lavoies sem náði vel bæði ergelsinu og kómíkinni. Arían þegar hann telur upp hvað Giovanni hefur tælt margar konur í hverju landi (alls eru þær yfir tvö þúsund) var afar skemmtilega flutt. Ágústi varð heilmikið úr hinum kokkálaða brúðguma og senan þegar Zerlina sýnir hvað hún hefur lært í tælingu af don Giovanni og huggar mann sinn fannst mér annað besta atriði sýningarinnar, næst á eftir áðurnefndum dúett Giovannis og Zerlinu.
Þau voru, að mínu mati, fremst meðal jafningja, þau Oddur og Þóra (einkum í túlkun – í söng voru Hallveig og Elmar algerir jafningjar þeirra). Hann óforbetranlegur skálkur sem gefur dauða og djöful í allt, en um leið gæddi Oddur hann sönnum kynþokka. Hún saklaus og hrein en þó margslungin og sveigjanleg, ævintýragjörn og ástríðufull. Ef við segjum að sýningin öll sé glæsileg terta þar sem hljómsveitin og kórinn eru botninn, matarmikill og bragðgóður, og aðrir söngvarar kremið milli laga, sætt og þykkt, þá voru þau Oddur og Þóra rjóminn og skrautið efst, fagurt og lystugt. Namm namm.