Guðrún Eva Mínervudóttir: Í skugga trjánna.
Bjartur, 2024.
Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2025:
„Mér fannst ég svo mikil klisja; 47 ára, nýskilin, með Google Maps, björgunarhring og öryggishnapp að leita uppi „villt“ ævintýri“ (9). Á þennan hátt lýsir Eva, aðalpersóna bókarinnar Í skugga trjánna, sjálfri sér framarlega í bókinni þar sem hún er gestur í sýrupartíi. Hún er ekki eingöngu nýskilin við seinni eiginmanninn heldur hefur sá fyrri nýlega látist úr krabbameini, eða eins og segir í sögunni: „Ég kvaddi þá báða í einu. Skildi við annan og fylgdi hinum til grafar. Það var svolítið intens“ (21). Verkið er nýjasta bók Guðrúnar Evu Mínervudóttur; áhrifamikil og vel skrifuð skáldævisaga sem byggir á reynslu hennar. Í sögunni fjallar hún listilega um lífið og tilveruna, fegurðina og háskann í mennskunni og ekki síst ástina sem getur allt í senn verið katastrófa og klikkaður sjúkdómur eins og einkunnarorð bókarinnar bera með sér og hjónabönd Evu eru til vitnis um.
Dans á mörkum skáldskapar og veruleika
Þú veist að þegar hávaxna konan er búin að fá sínu framgengt ertu að fara að skrifa skáldævisögu. Framhald af bókinni um Ljúbu. Þú ert meðal annars að fara að skrifa um okkur, mig og þig, og akkúrat þessa stund hérna. (229)
Þessi orð lætur miðillinn Vilhjálmur, vinur Evu, falla í samtali þeirra á milli þegar hún hefur tekið ákvörðun um að skilja við seinni eiginmanninn. Ummælin eru gott dæmi um eitt af mörgum sjálfsögulegum einkennum bókarinnar þar sem verkið vísar til sjálfs sín og getur þannig ýft upp vangaveltur lesenda um tengsl skáldskapar og veruleika. Eins og til að undirstrika þetta flókna samband sem kristallast í verkinu hefur sagan undirtitilinn „skáldsaga“ þótt á baksíðu bókarinnar sé vísað til verksins með hugtakinu „skáldævisaga“. Ólíkir merkimiðar sýna best hve flókið er að beisla frásögnina sem hefur augljóslega tengsl við veruleikann um leið og skáldskapurinn fær þar að leika lausum hala.
Í skugga trjánna er ekki fyrsta verk Guðrúnar Evu þar sem hún tekur fyrir tímabil úr ævi sinni og umbreytir því í texta á skáldlegan máta. Árið 2016 sendi hún frá sér bókina Skegg Raspútíns og þótt sú bók hafi verið flokkuð sem skáldsaga hefur höfundurinn aldrei farið leynt með að verkið byggi á ævi hennar. Það er einmitt bókin sem Vilhjálmur vísar til en í henni segir frá vináttu rithöfundarins Evu og lettneska garðyrkjubóndans Ljúbu. Báðar búa þær í smábæ úti á landi, eiga lítil börn og kljást við ýmis vandræði í persónulega lífinu. Þá má segja að Guðrún Eva hafi daðrað við skáldævisögulega formið í einni af sínum fyrstu bókum, Albúm (2002). Það verk geymir 99 myndir – stutta texta – um líf stúlku frá bernsku fram á fullorðinsár en í viðtali við Pétur Blöndal, í bókinni Sköpunarsögur, viðurkennir skáldkonan að bókin sé að „talsverðu en ekki öllu leyti“ byggð á bernskuminningum og að sér hefði fundist „gaman að fólk kannaðist við nöfnin en að um leið héti þetta skáldsaga“.[i]
Skáldævisögur, á borð við verkin sem Guðrún Eva hefur sent frá sér, hafa notið mikilla vinsælda í íslenskum bókmenntum síðustu áratugi. Meðal annarra höfunda sem dansað hafa á mörkum skáldskapar og veruleika í umfjöllun um eigið líf má nefna Guðberg Bergsson, Auði Jónsdóttur, Elísabetu Jökulsdóttur og Vigdísi Grímsdóttur. Bækurnar eru þó eins ólíkar og þær eru margar, enda hafa höfundarnir verið óhræddir við að nýta ímyndunaraflið óspart sem eldsneyti og leika sér með formið á ótal vegu. Í skáldævisögum er nefnilega ekki gerð eins skýr krafa um að höfundar segi satt og rétt frá lífi sínu eins og lengi var kallað eftir í hefðbundnum sjálfsævisögum. Merkimiðinn, skáldævisaga, veitir höfundum meira frelsi til að skálda og umbreyta eigin reynslu, hagræða sannleikanum og jafnvel skapa persónur og atvik frá grunni. Að sjálfsögðu er það þó ekki þannig að sjálfsævisögur segi allan sannleikann og séu gjörsneyddar skáldskap því „það er aldrei hægt að fjarlægja alveg skáldskap úr sjálfsævisögum“[ii] eins og Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafræði, bendir á í greininni „Skáldað um líf“. Þar gerir Gunnþórunn góða grein fyrir því hvernig skáldskapurinn getur sett mark sitt á sjálfsævisöguna og segir meðal annars:
Skáldskap í sjálfsævisögum má finna í byggingu þeirra, í því hvernig er farið með minni, í sjálfssköpun, þegar skrifað er um aðra í sjálfsævisögum og í meðferð á heimildum, en öll þessi atriði eru einnig notuð sem tæki til þekkingar og sjálfssköpunar. Höfundar nota þessa þætti í eigin þágu: til að skoða fortíðina eða til að mynda sjálf í sjálfsævisögu.[iii]
Svipaða aðferðafræði má einnig finna í skáldævisögunum – enda mörkin á milli bókmenntagreinanna gjarnan óskýr – en þar er líf höfundar og sjálf einatt í brennidepli eins og kemur glögglega fram í nýjustu bók Guðrúnar Evu. Í henni nýtir höfundur aðferðir skáldskaparins til að henda reiður á veruleikanum með því að skrásetja valin tímabil í lífi sínu og skoða hvernig hún upplifir og túlkar fortíðina, sjálfa sig og samskipti við aðra.
Í skugga trjánna hefst á því að Eva er stödd í veislu í einbýlishúsi á Arnarnesinu, á heimili milljónamærings. Þangað hefur hópur fólks safnast saman í þeim tilgangi að taka ofskynjunarlyfið LSD undir skipulagðri stjórn gestgjafans. Eva ætlar ekki að taka þátt í athöfninni því hún þarf að vera mætt á Gljúfrastein síðar um daginn til að taka á móti hópi amerískra rithöfunda á vegum Iceland Writers Retreat. Eftir giggið mætir hún þó aftur í gleðskapinn og dvelur til morguns. Veislan myndar rammasögu utan um frásögnina sem flakkar fram og aftur í tíma með upprifjunum Evu sem virðast koma fram í nokkurn veginn réttri tímaröð miðað við ævi persónunnar. Einna helst beinir hún sjónum að fyrri hjónaböndum sínum, aðdraganda þeirra og slitum, þannig að verkið er einkum skilnaðarbók. Frásagnaraðferðin er einkar velheppnuð en með henni tekst bæði að draga fram hvernig Eva upplifir vissar aðstæður á ákveðnum tímapunkti og hvernig fjarlægðin við atburðina og tiltekin samskipti gefa henni rými til að túlka og meta fortíðina og um leið öðlast betri skilning á sjálfri sér og öðrum.
Þótt fyrrverandi eiginmenn Evu séu ólíkar týpur eiga hjónaböndin það sameiginlegt að ástin er funheit í upphafi en að lokum verður skilnaður óhjákvæmilegur út af fíknivanda makanna. Í fyrra hjónabandinu er Eva gift Hrafni í fjögur ár. Með seinni eiginmanninum, Helga, eignast hún dótturina Margréti og saman búa þau í Hveragerði þar sem þau reka gistiheimili í bakgarðinum og, eftir að kórónuveiran skellur á, ritbúðir undir stjórn Evu.
Það er algengt að fólk sem sækir ritbúðirnar vilji koma eigin reynslu á blað; ekki síst þau sem upplifað hafa erfið áföll. Það reynist þó mörgum þeirra þrautin þyngri og í stað þess að minna á skáldskap orka textar þeirra eins og skýrslur. Til að liðka fyrir skáldskapnum ráðleggur Eva skjólstæðingum sínum að hugsa frásögnina eins og kvikmynd: „Búðu til bíó í huga lesandans, heimtaði ég, með misjöfnum árangri. Búðu til senur. Hjálpaðu lesandanum að lifa sig inn í það sem þú vilt miðla“ (116). Aðferðina sem hún kallar eftir má sannarlega heimfæra á bók Guðrúnar Evu því skiptingin á milli atvika nútíðar og fortíðar minnir ekki aðeins á kvikmyndatæknina heldur tekst henni á einstakan hátt að glæða frásögnina svo sprúðlandi lífi að auðvelt er að sjá fyrir sér bæði persónur og atburði.
Þótt raunveruleikinn marki bók Guðrúnar Evu leikur skáldskapurinn þar greinilega stórt hlutverk. Hann kemur ekki eingöngu fram í byggingunni á verkinu heldur einnig í endursköpun á samræðum og atvikum, lýsingum á persónum og í sumum tilvikum tilbúnum nöfnum; til dæmis fær seinni eiginmaðurinn nýtt nafn í sögunni. Þá má vera að einhverjir atburðir og persónur séu uppspuni frá rótum; sköpuð til að styrkja frásögnina í heild sinni. Í raun hefur lesandi enga hugmynd um hvað eigi sér stoð í veruleikanum og hvað ekki, enda er það ekki lykilatriði heldur miklu fremur reynslan sem miðlað er í verkinu og lesendur geta speglað sig við; einkum sársaukinn sem kviknar af sárri umbreytingu þegar ástarsamböndum lýkur og einstaklingurinn þarf að byggja upp sjálfsmyndina að nýju og takast á við annan og breyttan veruleika.
Hrafn
Fyrra hjónabandið varði í fjögur ár. Öll brennivínslaus. Tvö þeirra voru edrú vímuefnalega séð en ekki í taugaboðefnalegum skilningi. Rómantíska ástin réð ríkjum, takmörkuð og óviðeigandi eins og hirðfífl á stríðsfáki. Svo fór að halla undan fæti. Ein og ein jóna varð að dagreykingum með tilheyrandi óróleika þegar vímunni sleppti. (53)
Hrafni og sambandi þeirra lýsir Eva á galsafenginn og ævintýralegan hátt. Hann er eldri en hún, „marg-giftur kvennaljómi“ (46), heillandi, einstaklega mælskur og minnir á Únglinginn í skóginum úr samnefndu ljóði Halldórs Laxness. Þeirra fyrstu kynni hefjast þegar hún mætir honum úti á götu og hann segir við hana að hún verði að koma með í jarðarför. Hann reynir síðan við vinkonu hennar með sms-skilaboðum en þegar honum verður ekkert ágengt í þeim efnum sendir hann Evu nákvæmlega sömu skilaboð og heimsækir hana endurtekið í annarlegu ástandi. Þótt hún segist ekkert vilja með hann hafa, vitandi að hann er drykkfelldur og á von á barni með annarri konu, hrífst hún af honum og þegar hann sannar að hann er einhleypur og býðst til að segja skilið við Bakkus er hún tilbúin að byrja með honum. Áður hafa þau að vísu trúlofað sig í skrautlegri veislu á veitingastað þar sem humar og kampavín er í boði hússins. Lýsingar á gleðskapnum eru kostulegar, kómískar og afar myndrænar; þar er Hrafn of drukkinn til að skelfletta humarinn þannig að hann bryður skelina með jöxlunum, stendur síðan upp, heldur ræðu og biður Evu um að giftast sér. Til að koma í veg fyrir pínlegar aðstæður játast hún honum, þótt hún hafi „ekki einu sinni kysst hann, hvað þá meir“ (78). Uppákoman er síðan vandlega skrásett því ritstjóri Séð og heyrt og ljósmyndari mæta á svæðið og taka myndir af veislugestum, en á þeim sést að „unnustinn er blind-haugafullur“ og Eva „hálfskjokkeruð á svip, eins og bambi í bílljósum“ (79). Lýsingin á upphafi sambandsins dregur þannig vel fram ójöfnuðinn á milli parsins og um leið hvernig Eva lætur eitt og annað yfir sig ganga gagngert til að koma í veg fyrir óþægindi.
Þótt rauðu flöggin séu áberandi í samskiptunum strax frá upphafi eru Eva og Hrafn gift nokkrum mánuðum eftir fyrstu trúlofun. Við tekur borgaralegt líf þar sem hjónin klæða sig á svipaðan hátt í hvítar skyrtur, borða hollt, fara snemma að sofa og eru svo ástfangin að í anda John Lennon og Yoko Ono finnst þeim sjálfsagt að pósa nakin í rúminu fyrir blaðaviðtal í DV. Með ástinni skapa þau sinn eigin veruleika og undirstrika að þau séu gjörólík öðru fólki með því að grafa orðin Contra Mundum – Gegn heiminum – inn í giftingahringana. Ákvörðun sem þeim finnst fráleit þegar þau rifja upp hjónabandið mörgum árum síðar.
Þegar líður á sambandið víkur kærleikurinn á milli hjónanna fyrir fíkn Hrafns og örvæntingu Evu. Sársaukinn skín af lýsingum Evu á einsemd sinni og vanlíðan; vinirnir eru horfnir og eiginmaðurinn ýmist að heiman eða andlega fjarverandi, enda „genginn í björg manískrar skákiðkunar og hassreykinga“ (54). Þótt sjálfsblekkingin reynist henni ágætis varnarháttur kemur að því að hún ákveður að skilja við Hrafn. Við tekur haltu-mér-slepptu-mér-tímabil þar til Eva verður ástfangin af Helga og nýr kafli hefst í lífi hennar. Þótt ekki sé úr því dregið að hegðun Hrafns hafi neikvæð áhrif á líðan Evu og eigi stóran þátt í að hjónabandið liðast í sundur eru lýsingarnar á honum litaðar væntumþykju og næmum skilningi á að bæði gerðu þau sitt besta en fyrri áföll hafi hindrað þau í að viðhalda ástinni, eða eins og segir í sögunni: „Arfur forfeðranna, trámað í æðum okkar og fíknibölið gerði okkur ókleift að höndla borgaralega hamingju á borð við þá að finna ástina snemma á ævinni og eldast saman. Tangóinn var búinn. Endalokin skrifuð í stjörnurnar“ (56).
Helgi
Í annað sinn sem við hittumst hafði hann verið edrú í fjóra mánuði og þá sá ég hann. Fegurðina. Mikilfengleikann. Gáfurnar. Hann talaði af ástríðu um bækur og kvikmyndir, og bar sig eins og hann væri ekki hræddur við neitt. Þetta sama kvöld datt hann í það og hvarf inn í þokuna, en það var of seint, ég var búin að sjá hvaða mann hann hafði að geyma og fól þá mynd í demantskreyttu skríni í huganum. Þetta var maðurinn sem ég ætlaði að eiga. (108)
Skegg Raspútíns fjallar meðal annars um hjónaband Evu og Helga en þar segir frá upphafi sambandsins og fjölskyldulífinu í Hveragerði eftir að þau eru nýflutt þangað. Þá fá lesendur einnig upplýsingar um fortíð Helga, áföll og þunglyndi. Í skugga trjánna kemur út átta árum síðar og er því einum þræði framhaldsbók um líf hjónanna en þar er lögð meiri áhersla á seinni hluta hjónabandsins og skilnaðinn. Þótt hrifning Evu á Helga sé augljós í upphafi sambandsins eru lýsingar á skiptum þeirra jarðbundnari og harmrænni en á sambandi hennar og Hrafns. Ekki er útilokað að það sé vegna þess að Eva er orðin eldri og þroskaðri þegar hún tekur saman við Helga, hjónabandið varir lengur og styttra er síðan því lauk þannig að fjarlægðin við sambandið er minni.
Eva og Helgi eru listamenn, hún rithöfundur og hann kvikmyndagerðarmaður. Verkaskiptingin á heimili þeirra er nokkuð hefðbundin, hún sér um uppeldi dótturinnar og að þrífa gistiheimilið en Helgi tekur á móti pöntunum og sinnir viðhaldi á húsnæðinu þegar þess þarf. Lunderni þeirra er ólíkt, hann skapstyggur en hún viðkvæm. Af lýsingum Evu að dæma tiplar hún gjarnan á tánum í kringum Helga og biður hann ekki um aðstoð nema hún nauðsynlega þurfi. Þannig minnir persóna hennar á hina hefðbundnu húsmóður sem sér um börn og bú og veitir eiginmanninum tíma og rými til að sinna eigin hugðarefnum. Þrátt fyrir að sagan fjalli að stórum hluta um líf Evu og Helga er hann býsna fjarlæg persóna. Lítið er um samræður á milli hjónanna, hann lokar sig gjarnan af til að stunda vinnu sína eða er erlendis. Fjarlægðina má líta á sem táknræna fyrir tengslaleysið sem skapast hefur á milli parsins. Fyrir það líður Eva en frásögnin af hjónalífinu markast ekki síst af sársauka hennar.
Í sögunni er skýrt dregið fram að Evu finnst mikilvægt að viðhalda fjölskylduímyndinni, eða eins og hún segir sjálf: „Þetta var Minn helvítis draumur um Hefðbundið Hamingjuríkt Fjölskyldulíf. Glætan að ég færi að gefa hann upp á bátinn“ (111). Hjónabandið er engu að síður búið og Eva skefur ekki af sjálfsásökunum í eigin garð fyrir að hafa reynt að telja sér og öðrum trú um annað eins og eftirfarandi ummæli vitna um:
Án þess að spyrja kóng eða prest tékkaði ég óvart út úr sambandinu. Stakk af hægt og hljóðlaust en skildi þolinmótt hismið eftir til að díla við eiginmanninn. Það var ekki fallega gert. Óheiðarlegt, má segja. Kannski var ég tæfa dulbúin sem umburðarlyndur vinnuþjarkur. (110)
Kynlíf var orðið að ánauð sem ég lagði á mig vegna þess að ég var of mikil skræfa til að snapa fæting og þorði heldur ekki að horfast í augu við ástæðuna fyrir kynkuldanum, sem var sú að ég elskaði eiginmanninn ekki lengur. (190)
Þetta voru alveg nokkur ár sem ég forðaðist að vera ein með honum og að vera nálægt honum yfir höfuð. (246)
Eva er þannig óhrædd við að berskjalda sig og horfast í augu við eigin galla sem gerir hana að vel skapaðri, marglaga og forvitnilegri persónu. Afstaða hennar til hjónabandsins og vilji til að lifa í sjálfsblekkingunni minnir á hve ímyndin um mikilvægi kjarnafjölskyldunnar lifir enn góðu lífi í samfélaginu og hve flókið og sársaukafullt það getur reynst að losa sig úr ástlausu hjónabandi og hefja nýtt líf; ekki síst þegar barn er í spilinu.
Þótt lesendur hafi ekki aðgang að sálarlífi Helga er ljóst af frásögn Evu að hann á við ýmsa erfiðleika að stríða sem hann reynir að sefa með hugbreytandi efnum. Eva dregur ekki úr samskiptaerfiðleikum þeirra á milli og ræðir gaumgæfilega um skilnaðinn sem reynist harkalegur. Þó eru lýsingar á eiginmanninum fyrrverandi skrifaðar af sanngirni því skýrt er dregið fram að ekkert er svart og hvítt, enginn algóður eða alslæmur.
Einn af rauðu þráðum sögunnar eru óuppgerð áföll persóna. Það á jafnt við um Evu sjálfa, þá sem næst henni standa og fólk sem verður á vegi hennar. Þótt lífið sé erfitt gerir hún sitt besta til að gefa af sér og hjálpa þeim sem þurfa, svo sem eiginmönnunum, aupair-stúlkunum sem koma og fara og skjólstæðingunum í ritbúðunum. Þá taka hún og Helgi að sér sjö ára fósturbarn um tíma, stúlkuna Constanziu. Kaflinn um hana er firnasterkur og gott dæmi um djúpan mannskilning höfundar. Uppvöxtur Constanziu hefur verið flókinn, hún treystir illa fólki og beitir önnur börn ofbeldi. Þótt Eva taki á móti telpunni með ást og hlýju neyðist hún til að láta hana frá sér eftir nokkra mánuði. Auðvelt er að setja sig í spor Evu sem finnst erfitt að sleppa hendinni af barninu og vita ekki hver afdrif þess koma til með að verða.
Þótt viðfangsefni bókarinnar séu alvarleg hefur Guðrún Eva einstakt lag á að létta stemminguna með mildum húmor en reglulega koma lýsingar á farsakenndum uppákomum, skondnum samræðum og skrautlegum persónum. Þar er fremstur í flokki fyrrnefndur Vilhjálmur sem er einstaklega heillandi persóna. Með miðilshæfileikum sínum les hann Evu eins og opna bók, sér fram í tímann og veitir henni vissu um að erfiðleikarnir séu einungis tímabil sem gengur yfir.
Að lokum
Þegar kemur að skáldævisögum vakna iðulega spurningarnar hvað má skrifa og hvað ekki? Kannski ekki síst þegar einnig er fjallað um börn og aðstæður þeirra. Þessum spurningum er ekki auðsvarað en þó má segja að öllu máli skipti aðferðin sem notuð er við skrifin og að lesendur séu meðvitaðir um að frásögnin er alltaf túlkun höfundar. Þótt saga Guðrúnar Evu sé ákaflega persónuleg og einlæg, sögukonan kafi á dýptina og virðist ekki draga margt undan, nýtast aðferðir skáldskaparins mætavel til að skapa fjarlægð við veruleikann. Um leið og túlka má verkið sem ákveðna sjálfsþerapíu höfundar og þroskasögu er það einnig frábærlega heppnuð rannsókn á mennskunni og speglun á samtímanum sem ýfir vafalaust upp tilfinningar lesandans og vekur hann til umhugsunar um eigið líf. Á fallegan hátt er sagan síðan góður vitnisburður um hvernig sigur getur verið fólginn í ósigrinum. Þótt hjónabandi ljúki og framtíðarsýnin kollvarpist þarf áræðni og hugrekki til að takast á við umbreytinguna og halda lífinu áfram, eins og Eva sem ákveður í sögulok að túlka veruleikann sér í hag og líta svo á að hún hafi „barist við innri ófreskjur og haft sigur“ (328).
Guðrún Steinþórsdóttir
[i] Pétur Blöndal, Sköpunarsögur, Reykjavík: Mál og menning, 2007, bls. 22.
[ii] Gunnþórunn Guðmundsdóttir, „Skáldað um líf. Sjálfsævisögur sem bókmenntagrein á tímum
póstmódernisma“, Skírnir vor/2003, bls. 109–125, hér bls. 122–123.
[iii] Sama heimild, bls. 122.