Íslendingar eiga Jóhannesi úr Kötlum mikið að þakka að hann skyldi nota tíma sinn, orku og sköpunarkraft til að bræða saman gamlar sögur af Grýlu, Leppalúða og þeirra hyski, jólasveinum og jólaketti þar með töldum, og setja þær í aðgengilega, myndræna, fyndna og hæfilega grimma bragi handa fólki á öllum aldri. Sú góða bók Jólin koma er raunar áttræð þessa dagana og er í tilefni af því gefin út í veglegri útgáfu en venjulega – ef hún skyldi vera komin í tætlur á einhverju heimili.
En því er þetta rifjað upp að síðustu helgina í nóvember endurfrumsýndi leikhópurinn Á senunni leikritið um Augastein eftir Felix Bergsson þar sem bragir Jóhannesar eru notaðir í bland við nýja til að segja frá þessum vættum sem skálma til byggða um þetta leyti árs. Fyrir tíu árum lék Felix sjálfur Stein gamla í minjagripabúðinni og sagði börnunum söguna af Augasteini, nú hefur Orri Huginn Ágústsson tekið við hlutverkinu og gerir því ekki síðri skil en Felix áður.
Steinn gamli rekur búð sína í fjarlægu landi – enda var verkið upphaflega samið til flutnings í London – og hefur ákaflega gaman af að segja (ósköp fáum) viðskiptavinum sögur frá töfraeynni sinni við ysta haf. Meðal annars segir hann þeim frá jólasveinunum sem frægir eru fyrir að hrekkja fólk á aðventunni. En eins og áheyrendur hans vita þá eru jólasveinarnir ekki lengur hrekkjóttir, það myndast kunnugleg gjá milli lýsinga Jóhannesar á háttalagi sveinanna og hlutverks þeirra i samtímanum. Það er einmitt þessi gjá sem Steinn gamli brúar með sögunni af Augasteini sem er nokkuð hefðbundin skýringarsaga eða upprunasaga.
Hún er í stuttu máli sú að eitt árið þegar Stekkjarstaur er á leið til byggða á staurfótum sínum þá bjargar hann barni undan eldgosi. Í stað þess að halda áfram til byggða snýr hann við til fjalla og þeir bræður taka barnið að sér. Þeir nefna hann Augastein – enda er hann augasteinninn þeirra. Litli drengurinn á bara fötin sem hann stendur uppi í og þar á ofan hefur annar skórinn hans týnst á flóttanum undan eldinum. Ekki hafa jólasveinarnir neinn aðgang að barnafötum og þegar jólin nálgast árið eftir er Augasteinn í bráðri hættu af því að jólakötturinn étur þá sem ekki eignast nýja spjör fyrir jólin. Þessu bjargar Kertasníkir, hann prjónar sokka handa drengnum og gefur honum í skóinn eina. Augasteinn lendir ekki í gini kattarins og jólasveinarnir sjá hvað það er miklu meira gaman að gefa en hrekkja og stela. Síðan hafa þeir sem sagt gefið börnum í skóinn …
Þetta er sjarmerandi saga og þó að hún sé nokkuð flókin náði Orri prýðilegu sambandi við börnin í Tjarnarbíó í gær. Þetta voru líka vel sjóuð börn í leikhúsi því enginn fór að gráta þegar Grýla birtist og þó var hún alveg hrikaleg! Hjálparkokkur Orra var Guðmundur Felixson sem meðal annars lék Grýlu. En aðalmeðleikari Orra var brúðan Augasteinn, undurfallegt sköpunarverk Helgu Arnalds. Hún gerði einnig leikmyndina sem mér fannst heldur daufleg í byrjun en jólasveinarnir þrettán puntuðu heilmikið upp á hana þegar þeir tíndust upp úr kistu Steins gamla. Leikstjórn er sem fyrr í höndum Kolbrúnar Halldórsdóttur og Vox Academica syngur lögin hennar Ingunnar Bjarnadóttur með Orra undir stjórn Hákonar Leifssonar.
Þetta er sannkölluð jólasýning sem gleður bæði börn og fullorðna.