Uppistand hlýtur að vera um það bil streitufyllsta starf sem til er. Mig hryllir við tilhugsuninni einni um að standa ein á sviði í tvo tíma og tala. Þetta hefur þó verið aðalatvinna Jakobs Birgis (að eigin sögn) síðan hann var um tvítugt eða í sex ár, og hann frumsýndi nýlega nýtt uppistand, Vaxtarverki, í Tjarnarbíó sem ég sá í gær.
Það gerir starf Jakobs auðveldara (ímynda ég mér) að persónan sem hann velur sér, sviðs-persónuleiki hans, er ekki rosalega hress, síhlæjandi grínari sem tætir af sér brandara á miklum hraða heldur fremur þungur, jafnvel þunglyndur, hálffúll vandlætari sem sér galla á flestum hlutum. En er það fyndið? gæti einhver spurt. Já, það er oft verulega fyndið og kitlandi, því að stundum rambar hann auðvitað á að hallmæla einhverju sem við hötum líka en myndum aldrei þora að viðurkenna að við hötuðum. Úttekt hans á Vesturbæingum – og þar með sjálfum sér – var meinlega fyndin. Óþol hans gagnvart jólatónleikum, þjóðlegri tónlist, Baggalút og túristum skemmti salnum mjög. Gæludýr finnst honum óþörf og einkennilegt að alltaf skuli sama fólkið í Vesturbænum týna köttunum sínum. Lýsing hans á matarboðum vinahjóna var verulega hlægileg, Tenerife varð líka fyndin, interrail-ferðalög, sælgætisát og podköst. Endursögn hans á deilum þeirra hjóna um það hvort bókin um Hitler ætti að vera til sýnis á fínu stringhillunum í stofunni eða í felum ofan í skúffu í svefnherberginu var drephlægileg en það var mun erfiðara að kyngja því að það væri ógeðslegt að kyssa fólk með gleraugu!
Svo hætti hann sér út á verulegar háskaslóðir í vangaveltum um skólagjöld, listamannalaun, ólíka forseta, snilligáfu Víkings Heiðars og óperur. En það er lítið gaman að uppistandi sem ekki er ögrandi og oft sneri hann af list upp á eigin skoðanir. Það var ekki heldur freistandi að vera sammála honum því að neikvæðnin var yfirþyrmandi, hann viðurkenndi það meira að segja sjálfur þegar hann dæsti: Ég verð bara að sætta mig við að vera til! En kaflinn um síðmiðaldra karla sem kvænast barnungum konum var dásamlegur. Hann hafði ekkert að segja við karlana, sagði hann, en vildi spyrja hvað væri eiginlega að þessum konum!
Jakob talar fallegt mál og er afar skýrmæltur, hraðinn er hæfilegur svo að vandalaust er að fylgja honum. Þetta eru ótvíræðir kostir. Þunglyndi pragmatistinn hans hefur líka sinn ódæla sjarma og stundum glitti í annan hlýlegri mann undir niðri þótt reynt væri að fela hann vandlega fyrir okkur. Það er alveg óhætt að mæla með Vaxtarverkjum, einkum fyrir þá sem njóta meinlegrar neikvæðni!
Silja Aðalsteinsdóttir