Það var brotið blað í sögu Söguloftsins á Landnámssetrinu í Borgarnesi í gærkvöldi. Þá var í fyrsta sinn flutt þar ný skáldsaga sem hvorki er um sögulegar persónur né byggð á heimildum heldur fjallar um fólk í samtímanum, meira að segja fjölskyldu á Akranesi. Hér steig Júlía Margrét Einarsdóttir á fjalirnar og sagði skáldsögu sína Guð leitar að Salóme sem kom út 2021 og vakti töluvert mikla athygli.

Guð leitar að Salóme er upprunalega bréfasaga, sögð í tuttugu og fjórum bréfum sem Salóme skrifar ástvinu sinni Helgu sem hún hrakti frá sér tíu árum fyrr. Júlía Margrét einfaldar formið í eitt bréf eða eina stílabók sem hún er með á sviðinu og skrifar í og ætlar að koma til Helgu. Hún er því í rauninni ekki höfundur að tala við áheyrendur sína á Söguloftinu þegar hún segir frá heldur er hún Salóme sjálf að tala við vinkonuna sem hún saknar svo átakanlega. Hún þarf að segja henni hvers vegna hún var svona vansæl og hvumpin þegar þær voru saman, hvers vegna hún var svona sjúklega hrædd við allt og alla utanaðkomandi, hvaða drýsildjöfla hún dragnast með úr fortíðinni og verður að kveða niður ef hún á að geta fundið hamingjuna.

Þetta er andskoti sterk saga sem kemur á óvart með óvæntum vendingum sínum og athyglisverðum persónum. En þetta er líka löng saga með mörgum persónum og vandi höfundar og sögumanns er að búa hana til flutnings á sviði þannig að hún virki jafn vel og á bók. Mér fannst þetta takast prýðilega. Júlía semur söguna eiginlega upp á nýtt, breytir stöku atriðum en alltaf í því augnamiði að gera hana hnitmiðaðri. Reynir ekki að koma öllu fyrir úr skáldsögunni heldur velur vandlega lykilatvik sem hún leyfir að taka rúm í frásögninni þannig að þau lifna fyrir hugskotssjónum áheyranda. Þetta gæti hún hafa lært af föður sínum, sagnamanninum ágæta Einari Kárasyni – sem hún hefur raunar troðið upp með á þessu sama sviði þegar þau fluttu Skálmöld Einars fyrir nokkrum árum. Er gott til þess að vita að hæfileikinn til að segja sögur í heyranda hljóði skuli erfast milli kynslóða.

Júlía Margrét er mjög aðlaðandi manneskja sem hefur þægilega nærveru og það sem mest er um vert: hún er afar vel máli farin og hefur góðan orðaforða. Það er bæði gaman og upplyftandi að hlusta á hana. Henni var tekið með kostum og kynjum eftir frumflutninginn í gærkvöldi og freistandi að segja: Hér er stjarna fædd!

 

Silja Aðalsteinsdóttir