Mér er enn í furðu fersku minni uppsetning Stefans Metz á Krítarhringnum í Kákasus eftir Brecht í Þjóðleikhúsinu fyrir fimmtán árum og hlakkaði mikið til að sjá Eldraunina hans á sama sviði í ár. En Eldraunin er að sjálfsögðu allt öðruvísi verk og þar eru brellur leiksviðsins óþarfar og jafnvel til bölvunar. Sýningin er vissulega vandlega hugsuð myndrænt en mestu máli skiptir að koma inntakinu skýrt og afdráttarlaust til skila. Ekki vantar neitt upp á það.
Arthur Miller skrifaði leikritið 1953. Þá voru liðin 260 ár frá galdraofsóknunum í Salem í Massachussets sem verkið er byggt á. Þá voru aðeins liðin átta ár frá lokum síðari heimsstyrjaldar og ofsóknir nasista á hendur Gyðingum orðnar alkunnar í takmarkalausum hryllingi sínum. Þá stóðu líka yfir í Bandaríkjunum sannkallaðar nornaveiðar til að elta uppi kommúnista og gera þá óskaðlega bandarísku samfélagi. Arthur Miller var sjálfur kallaður fyrir óamerísku nefndina, sem annaðist kommúnistaveiðarnar, og ekki laust við að maður hugsi til hans þegar bóndinn John Proctor (Hilmir Snær Guðnason) neitar að ásaka aðra um samneyti við djöfulinn þó að hann viðurkenni það fyrir sitt leyti undir lok leikritsins. Þess má geta að Miller skrifaði leikritið fyrst þannig að það er frekar að hann hafi notað orð Proctors í sínum málflutningi en að Proctor fari með texta Millers.
John Proctor er rödd skynseminnar í verkinu enda veit hann manna best hvernig æsingurinn er til kominn. Hann hefur verið svo óheppinn í karlmannlegum veikleika sínum að falla fyrir ungri og fallegri vinnukonu á bæ sínum, Abigail (Elma Stefanía Ágústsdóttir), meðan Elísabet kona hans (Margrét Vilhjálmsdóttir) lá veik, og hann veit að á bak við upphlaup unglingsstúlknanna í þorpinu er sá – meðvitaði eða ómeðvitaði – ásetningur Abigail að koma Elísabet fyrir kattarnef og eignast bónda allan. Hann hefur hafnað tilraunum hennar til að halda sambandinu áfram og hún er sársvekkt og fokreið yfir höfnuninni. Eins og alkunna er þá vekur fátt meiri djöfulskap í fólki en að ást þess sé forsmáð.
Ásakanir Abigail og vinstúlkna hennar á hendur fjölda þorpsbúa um virkt samband við djöfulinn hafa hrikalegar afleiðingar. Mér taldist til að á þriðja tug karla og kvenna hefðu látið lífið áður en ofsóknunum linnti. Þó tekst John Proctor að fá eina úr hópnum, Mary Warren vinnukonu sína (Vigdís Hrefna Pálsdóttir), til að andmæla ásökunum vinkvennanna og reyna að sannfæra Danforth fylkisstjóra (Arnar Jónsson) um að veikindin og tryllingurinn í stelpunum hafi verið tóm uppgerð en ekki merki þess að þær væru andsetnar.
Hilmir Snær er myndarleg miðja sýningarinnar og sannfærandi skynsemisrödd. Það er hjartaskerandi þegar sú rödd má sín einskis og hann skiptir um lið. Samleikur hans og Margrétar var afar áhrifamikill og sárt að sjá Elísabet, þá góðu konu, brotna hægt og hægt fyrir augum okkar. Hápunktur sýningarinnar var snilldarlega upp sett atriðið þegar fylkisstjórinn yfirheyrir hana og spyr hana út í hórdóm manns síns. Þau mynduðu ógleymanlegan ferning í salnum, hjónin, ástkonan og fylkisstjórinn, og maður hélt niðri í sér andanum á stólbrúninni meðan beðið var svara eiginkonunnar.
Óvenjulega stór hópur ungra leikara tekur þátt í sýningunni og setti sterkan svip ungdóms á hana. Elma Stefanía var öflug Abigail, árásargjörn frekar en ástleitin í samskiptum sínum við Proctor bónda enda þá þegar orðin öskureið, og djöfullega snjöll í samskiptum sínum við fylkisstjórann og Hathorne dómara (Baldur Trausti Hreinsson). Vigdís Hrefna átti stórleik í hlutverki Mary Warren. Þær Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir, Salóme Rannveig Gunnarsdóttir og Svava Sól Matthíasdóttir sögðu fátt en fylltu vel vinkvennahóp Abigail sem hvað eftir annað bjó til sérstaka mynd, hreyfingarlausa eða á villtri hreyfingu, á sviðinu. Í litlu hlutverki Ezekiels fangavarðar var Oddur Júlíusson og vann það óaðfinnanlega.
Gaman var að sjá hóp af gamalkunnum leikurum sem hafa lítið sést á sviði að undanförnu. Sigurður Skúlason var í hlutverki séra Parris. Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir og Þórhallur Sigurðsson léku Nurse-hjónin, ein raunalegustu fórnarlömb ofsóknanna. Eggert Þorleifsson og Ragnheiður Steindórsdóttir léku Putnam-hjónin sem græða mest á glæpnum. Guðrún Gísladóttir skemmti sér vel í skrýtnu hlutverki Titubu, vinnukonu frá Barbados. Stefán Hallur Stefánsson var átakanlega hlægilegur sem bóndinn Corey, sem verður það á alveg óvart að nefna að konan hans lesi bækur. Friðrik Friðriksson vann smám saman samúð manns í hlutverki séra Johns Hale sem vill taka á málinu af strangri skynsemi en áttar sig á því þegar frá líður að þarna er ekki gert ráð fyrir henni. Yfir réttarhöldunum ríkir svo fylkisstjórinn sem Arnar Jónsson gefur sterkan svip óhugnaðar.
Svið Seans Mackaoui var einfalt og búningarnir nokkuð tímalausir. Þó var augljóst að þeir áttu alls ekki að minna á 17. öld. Hljóðmynd Halldórs S. Bjarnasonar var óáreitin og lýsingin markviss hjá Ólafi Ágústi Stefánssyni. Þýðing Kristjáns Þórðar Hrafnssonar var góð. Þetta er sýning sem enginn ætti að missa af.