Möguleikhúsið frumsýndi í dag í menningarmiðstöðinni Gerðubergi leikgerð Péturs Eggerz af hinni ástsælu sögu Guðrúnar Helgadóttur, Ástarsögu úr fjöllunum. Leikgerð er kannski dálítið stórt orð því í rauninni er þetta fremur sögustund en leiksýning. Alda Arnardóttir segir söguna með fjörugum sönglögum eftir Guðna Franzson sem hún flytur ásamt Kristjáni Guðjónssyni tónlistarmanni. Þá munar mikið um litríkan og bráðsnjallan búning Flumbru sem Alda klæðir sig í á sviðinu og rúmar þegar fram í sækir alla strákana hennar átta í ýmsum spennandi vösum á óvæntum stöðum. Messíana Tómasdóttir hannaði þann kjól eins og sviðið.
Allir þekkja söguna sem segir frá ástum Flumbru og tröllkarlsins hennar sem er bæði ljótur og latur. Hann nennir ekki að leggja neitt á sig fyrir samband þeirra Flumbru og veit ekki einu sinni af því þegar hún eignast áttbura með honum. Flumbra er ekki ánægð með þetta og afræður að heimsækja karl með alla krakkana en hún er svo hömluð af krakkarófunum að hún nær ekki alla leið fyrir sólarupprás og öll hersingin verður að steinum.
Guðrún er ekki bara að semja sögu, hún er að semja goðsögu, því atburði sögunnar notar hún til að skýra náttúrufyrirbæri fyrir ungum lesendum og hlustendum. Þegar Flumbra eldar mat þá verður eldgos (eins gott að hún er metnaðarlítill kokkur), þegar hún tekur til hjá sér verður mikið skriðufall, þegar tröllin elskast verður jarðskjálfti og þegar mjólkin rennur úr brjóstum Flumbru myndast lækirnir sem við köllum fjallamjólk. Þessar skýringar á náttúrufyrirbærum hafa nú komið uppalendum að góðu gagni í meira en þrjátíu ár en þau urðu ekki nógu myndræn á sviðinu. Það voru bara jarðskjálftarnir sem tókust verulega vel meðan Flumbra var inni í hellinum að knúsa karl sinn.
Sagan sjálf naut sín heldur ekki eins vel og skyldi, Hún er knöpp og hnitmiðuð og þoldi kannski illa að vera teygð upp í 45 mínútur. Áhorfendur misstu þolinmæðina við og við en sperrtu þó lengi vel eyrun aftur. Bestu kaflarnir voru þegar músíkin tók virkan þátt í leiknum, eins og þegar Flumbra arkaði yfir fjöll og firnindi í heimsóknir til tröllkarlsins, þegar hún sýndi okkur strákana sína og þegar hún lagði af stað með þá í hina örlagaríku lokaheimsókn. Kristján lék ýmist á harmoniku, gítar eða hljómborð og söng líka með Öldu og gerði mikið fyrir sýninguna.