Best að segja það strax: Sýning Þjóðleikhússins á Íslandsklukkunni eftir Halldór Laxness er vel heppnuð. Um margt ólík öllum þeim sex uppsetningum sem ég hef séð áður á verkinu, um margt hugmyndaríkari, beinskeyttari, pólitískari, efnismeiri jafnvel, bæði af því að sýningin er löng og svo er svið Finns Arnars Arnarsonar svo haglega gert að enginn tími fer í að skipta um sviðsbúnað þó við hverfum úr einum stað í annan. Aldrei hafa flóknum málum Jóns Hreggviðssonar verið gerð eins skýr skil, enda vill okkar tími rannsóknir á dómgæslu og vanrækslu hins opinbera. Aldrei hafa samtöl Arnasar Arnæus við Gullinló og von Úffelen komið manni eins mikið við og nú, enda spurning nú enn einu sinni hvort einhver hefur umboð til að selja Ísland – eða taka það upp í skuld.
Eins og vænta mátti af Benedikt Erlingssyni, sem bæði er höfundur leikgerðar og leikstjóri, nýtur gróteska Halldórs Laxness sín betur hér en í fyrri uppsetningum, en þó verður annað einkenni hugstæðara: Þetta er látlaus sýning að því leyti að hún er laus við bæði stæla og tilfinningasemi. Hér ræður alvaran ríkjum – og þó er sýningin að sjálfsögðu fyndin enda ekki annað hægt, eins fyndin og sagan er í öllum sínum djúpa alvöruþunga.
Íslandsklukkan er eins og hinar bestu Íslendingasögur, hún hefur eitthvað fyrir alla: hasar, svik og tál, ofbeldi og ástir, öfgar í allar áttir. Í sögumiðju eru þrjár sterkar persónur sem um leið eru fulltrúar ákveðinna samfélagshópa. Arnas Arnæus (Björn Hlynur Haraldsson), menntamaðurinn og fræðimaðurinn sem fórnar heimilishamingju fyrir varðveislu menningararfsins, djarfa og uppreisnargjarna yfirstéttarstúlkan Snæfríður Eydalín (Lilja Nótt Þórarinsdóttir) og Jón Hreggviðsson (Ingvar E. Sigurðsson), óþægi og kjaftfori öreiginn sem hástéttarfólk og valdsmenn kasta á milli sín eins og kartöflupoka en ævinlega kemur standandi niður og hefur níu líf eins og kötturinn. Það eru örlög þessara persóna að elska hver aðra og dá en hljóta samt að svíkja hver aðra. Íslandsklukkan er saga um svik – jafnvel við það sem manni er helgast.
Íslandsklukkan er fantavel skrifað og samsett verk. Eiginlega makalaust verk. Nánast hver setning sem sögð er á sviðinu er gullvæg. Maður bíður eftir sumum þeirra og bregst við þegar þær koma, tárast, verður hissa, glaður eða óánægður. Hvernig er hægt að segja, til dæmis: „Vinur, hví dregurðu mig inn í þetta skelfilega hús?“ Mér fannst Lilja Nótt glæsileg Snæfríður, og hún fór vel með sínar dásamlegu setningar. Björn Hlynur var nokkuð fjarlægur í samskiptum Arnæusar við Snæfríði, en þegar reyndi á hann í erfiðum samtölum við hinn léttúðuga Gullinló (Ólafur Darri Ólafsson) og ábúðarmikla von Úffelen (Kjartan Guðjónsson) var hann afar sannfærandi. Ingvar var innlifaður Jón Hreggviðsson, þrunginn frumstæðum krafti og lúmskri slægð, stjarna sýningarinnar eins og vera ber. Þó að hjarta höfundarins slái í brjósti Arnasar Arnæus þá slær það fyrir fólk eins og Jón Hreggviðsson.
Af öðrum persónum má nefna að Arnar Jónsson var agressívari Eydalín lögmaður en maður er vanur og mér fannst fara vel á því. Herdís Þorvaldsdóttir var dásamleg í hlutverki móður Jóns, konunnar sem geymdi Skáldu, bók bóka, í rúmbotni sínum. Hún tengir þessa nýju uppfærslu við þá fyrstu fyrir sextíu árum þegar hún lék sjálfa Snæfríði. Erlingur Gíslason fór með formála verksins af kímni og krafti og lék líka gamla menn af sannri kunnáttu.
Persónur Íslandsklukkunnar skiptast nokkuð hreinlega í tvennt á sviðinu, þær alvarlegu og raunsæislegu sem nú hafa verið taldar og þær hlægilegu, afkáralegu. Vonbiðill Snæfríðar, sá vonlausi Sigurður dómkirkjuprestur, var frumlega og skemmtilega túlkaður af Jóni Páli Eyjólfssyni. Guðrún Snæfríður Gísladóttir var ótrúlegt skrípi í hlutverki Mettu, danskrar eiginkonu Arnæasar. Ekki veit ég hvernig sú glæsilega leikkona var gerð slíkt afskræmi en þar eins og annars staðar sýndi búningahönnuðurinn Helga Björnsson snilli sína. Ilmur Kristjánsdóttir var svo heppin að fá hlutverk Jóns Grindvicensis – og ef ykkur skyldi detta í hug að leikur hennar sé ýktur skulið þið bara lesa lýsingu Halldórs á persónunni í bókinni. Stefán Hallur Stefánsson var ruddalegur Jón Marteinsson en komst þó við að lokum. Enn er þá ónefndur sá sem kannski verður minnisstæðastur af öllum fyrir utan Ingvar í hlutverki Jóns, nefnilega Björn Thors í hlutverki Magnúsar Sigurðssonar, júngkæra í Bræðratungu, hins ofbeldisfulla og drykkfellda eiginmanns Snæfríðar. Maður er farinn að hlakka til að sjá hvað hann gerir næst!
Tónlistin í sýningunni er í liprum höndum Eiríks Stephensen og Hjörleifs Hjartarsonar eða Hunds í óskilum og með þeim syngur fagurlega Þórunn Lárusdóttir. Kannski varð tónlistin svolítið plássfrek þegar á leið en það er óþarfi að kvarta undan því.
Þjóðleikhúsið heldur upp á sextugsafmæli sitt með glæsilegustu veislu sem við höfum lengi setið, frábærri nýrri og frumlegri túlkun á Gerplu og svipmikilli og skemmtilegri útfærslu á Íslandsklukkunni. Báðar eru þessar sýningar einlæg ástarjátning aðstandenda sinna til mesta skáldsagnahöfundar þjóðarinnar og þar með til þjóðarinnar sjálfrar. Ég veit að hún tekur vel á móti gjöfinni.