Leikhópurinn Common Nonsense frumsýndi heimildarleikinn Tengdó á Litla sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi undir stjórn Jóns Páls Eyjólfssonar, og ég verð að segja að langt er síðan leiksýning kom mér jafnmikið á óvart. Í fyrsta lagi er ekki algengt að verk fjalli opinskátt um eina raunverulega manneskju, ennþá óalgengara er að sú manneskja sé lifandi og meira að segja í húsinu á frumsýningu eins og í gær. Kynuslinn kom ekki eins mikið á óvart, segja má að hann sé tímanna tákn; þó er auðvitað eftirtektarvert að höfundur verksins, Valur Freyr Einarsson, skuli hafa ákveðið að leika sjálfur viðfangið, tengdamóður sína.
Var það á einhvern hátt æskilegt eða aðkallandi að aðalpersónan, Magnea Reinaldsdóttir, væri leikin af karlmanni? Nei, ekki beinlínis. Magnea er afar kvenleg og falleg kona og ekkert gefið í skyn um annað með þessu vali. Hún gat allt eins og jafnvel miklu fremur verið leikin af konu. En vissulega gefur það sýningunni óvæntan svip, gerir hana tvíræðari og fyndnari að láta karl leika hana. Eins og allir vita er ekkert fyndnara en að klæða hreppsnefndina í kjóla og láta hana tromma upp á svið. En Valur Freyr er ekki bara lúmskt fyndinn í kjól, hann er glæsilegur kvenmaður. Einkum fannst mér hann flottur sem móðir Magneu, Guðbjörg, sú sem féll marflöt fyrir hörundsdökkum hermanni á stríðsárunum. Mjúkir axlasíðir lokkarnir og sígarettan fóru honum einkar vel. Ég held að aðalkosturinn við þessa hlutverkaskipun hafi þó verið sá að hún dró úr tilfinningasemi verksins – og var hún þó nógu mikil.
Sagan sem sögð er í Tengdó er í sjálfri sér einföld. Guðbjörg eignast barn með súkkulaðibrúna hermanninum sínum sem hverfur úr landi áður en hann veit af barnsvoninni og er talinn af. Litli „kolamolinn“ hennar Guðbjargar, sem Kristín Þóra Haraldsdóttir leikur af slíkri list að unun er að njóta, fær engar upplýsingar um faðerni sitt frá móðurinni en getur samt alls ekki um annað hugsað alla sína bernsku, æsku og fullorðinsár en hvers vegna hún sé eins og hún er – allt öðruvísi en allir aðrir. Hugleiðingar stúlkunnar og frásagnir af árekstrum við skólafélaga á Suðurnesjum og aðra aðila í nærumhverfi sínu voru vel skrifaðar og bæði sjokkerandi og hjartaskerandi fyndnar.
Þegar Magnea er komin til vits og ára fer hún að leita uppruna síns markvisst með fyrirspurnum til þjónustuaðila Bandaríkjahers – auðvitað fyrst og fremst að upplýsingum um föður sinn en síðan föðurfólkið ef hann finnst ekki. En hún rekur sig á hvern vegginn af öðrum og í þeim þáttum verksins langaði mann líka bæði til að hneykslast og harma um leið og maður hló að klaufalegum viðbrögðum hins opinbera.
Í verkinu er sagan ekki sögð beint frá a til b heldur fléttast öll tímaskeið saman til að skemmta áhorfendum og halda þeim við efnið. Þetta tókst mjög vel en óneitanlega er sýningin of löng og ætti að gera gangskör að því að þétta hana og stytta. Mér finnst að takmarkið eigi að vera að sleppa hléinu og hafa þetta svona sirka 70-80 mínútna sýningu.
Sviðið hennar Ilmar Stefánsdóttur (sem er dóttir Magneu) var rosalega skemmtilegt, sömuleiðis búningar, og allt samband leikenda við salinn var áreynslulaust og við hæfi þessa efnis. Hreyfimyndband leikstjóra og leikmyndahönnuðar var bæði markvisst og sniðugt. Lýsing Aðalsteins Stefánssonar og hljóðmynd Davíðs Þórs Jónssonar voru vel hugsaðar og hjálpuðu til að gera frásögnina djúpa og eftirminnilega.
Magnea var sjálf á frumsýningunni, eins og áður gat, ásamt börnum sínum og barnabörnum. Það var fallegur hópur og sýndi hvað blöndun af þessu tagi getur orðið til mikilla útlitsbóta.