Sagan um Karíus og Baktus var fyrsta bókin sem hinn sívinsæli norski barnabóka- og leikritahöfundur Thorbjörn Egner gaf út (á norsku 1940, á íslensku líklega 1954) og hafði gríðarleg áhrif á heilsufar Norðmanna, að sögn landa hans, með því að bæta tannhirðu fólks. Ekki þori ég að fullyrða um áhrif hennar á lýðheilsu hér heima en Íslendingar á öllum aldri geta að minnsta kosti sungið vísur bræðranna. Nú eru þessi litlu skrímsli enn komin á kreik í munni Jens – afsakið, ég meina Kúlu Þjóðleikhússins á stórskemmtilegu sviði Brians Pilkington og undir stjórn Selmu Björnsdóttur.
Bræðurnir Karíus (Friðrik Friðriksson) og Baktus (Ágústa Eva Erlendsdóttir) búa í munninum á honum Jens og lifa góðu lífi af því Jens er mikill sælgætisgrís. Uppáhaldsmaturinn þeirra er fransbrauð með sírópi sem þeir fá á hverjum degi. Þeir eru í upphafi nokkuð varir um sig í sameiginlegri holu neðarlega í tönn en þegar sældin virðist engan enda ætla að taka gerist Baktus svo djarfur að höggva sér nýja lúxúsholu með útsýni. Karíus bregst við með því að stækka sína holu til mikilla muna – og eins og hjá fleirum verður græðgin og ofdrambið þeim bræðrum að falli. Óþægindin sem Jens hafði af þessum óboðnu gestum verða nú að sársauka og síversnandi kvöl og hann fer að bursta tennurnar að boði mömmu sinnar. Það var mikil gleði meðal lítilla leikhúsgesta í gær þegar tannbursti í yfirstærð kom eins og loftfar inn yfir sviðið og fór að bursta tennur Jens með sápukúlumergð! Og ekki nóg með það, næst fer Jens til tannlæknisins sem borar í tennurnar (þar var ýlfrið í bornum látið nægja, enda alveg nógu hrikalegt fyrir þá sem þekkja) og fyllir upp í híbýli bræðranna. Úti á berangri munnsins er auðvelt fyrir bursta og vatn að krækja í krílin og þeim er skolað á haf út!
Því hefur verið haldið fram að boðskapur þessa verks missi marks vegna þess að börn samsami sig með krílunum og harmi örlög þeirra, þess vegna hefði það öfug áhrif. Ekki var það að heyra í leikhúsinu í gær enda léku þau Friðrik og Ágústa Eva hrekkjalómana af slíkri meinfýsni að öllum mátti vera ljóst að þess konar skemmdarvarga væri ekki gott að hýsa í munni sér. Það var beinlínis sadískur tónn í Friðriki þegar hann lék sér að því að höggva með litla hakanum sínum aftur og aftur í auma taugina í tönn Jens. Og þó að Baktus væri vissulega öfundsverður þar sem hann sötraði kokkteil gegnum rör í glugga lúxusíbúðar sinnar þá vill maður heldur ekki hafa slíkt uppi í sér.
Skínandi skemmtileg þýðing Huldu Valtýsdóttur er orðin meira en hálfrar aldar gömul þannig að þar – og ekki síður í vísunum sem ég held að Kristján frá Djúpalæk hafi þýtt (þótt þess sé ekki getið í leikskrá) má heyra ýmis orð og orðatiltæki sem ekki eru lengur í daglegu máli – að minnsta kosti ekki barna. Þetta er ekki síður hollt en tannburstun, auðgar mál barnanna sem drekka það í sig um leið og boðskapinn. Sögumaður heyrðist mér vera Arnar Jónsson (hans er ekki heldur getið í leikskrá); tónlistarumsjón var í höndum Pollapönksmanna sem kunna sitt fag og Ásta S. Jónsdóttir sá um gervin á krílunum sem voru alveg frábær. Í leikskránni eru teikningar af þeim bræðrum sem greinilega eru eftir Brian eins og sviðið og búningarnir, rosalega sniðugar. Stutt en frábær skemmtun – og það fannst mínum fjögurra ára fylgdarmanni líka!