Benjamín dúfaNýlega fékk ég það verkefni að lesa yfir próförk að skáldsögunni Benjamín dúfu eftir Friðrik Erlingsson sem er verið að endurútgefa. Þá rifjaðist upp fyrir mér – þó að ég hefði í rauninni aldrei gleymt því – hvað þetta er ótrúlega góð bók, vel samin, spennandi og makalaust áhrifamikil. Hún var svo fersk í huga mínum að þegar ég frétti að eitt einstaklingsverkið á sviðshöfundabraut í ár væri söngleikur byggður á henni varð ég hreinlega að sjá það.  Auðvitað var allt koluppselt en ég svindlaði mér inn og sá ekki eftir því.

Það er Karla Aníta Kristjánsdóttir sem eimar þessa sögu í klukkutímalanga leiksýningu með söngvum en tónlistin er eftir Margréti Kristínu Sigurðardóttur, hæfilega einföld lög sem passa prýðilega við efni og flytjendur, og textarnir eru fléttaðir inn í söguna.

Benjamín (Hlynur Atli Harðarson), Andrés (Gunnar Erik Snorrason) og Baldur (Stormur Björnsson) eru úti að leika þegar þeir sjá að það er nýr strákur að flytja í stóra húsið í götunni. Hann reynist heita Róland (Óttar Kjerulf Þorvarðarson) og kemur með algerlega ný viðmið og nýja hugmyndafræði í leiki þremenninganna, beint úr riddarasögum miðalda, enda kominn af skoskum konungum. Þegar Guðlaug, verndari barnanna í hverfinu, verður fyrir ljótum hrekk hefna þeir fyrir af hugkvæmni, og þegar húsið hennar brennur safna þeir fyrir nýju húsi. Ekki sleppa strákarnir þó alveg við harðneskju örlaganna en líklega var það meðvituð ákvörðun hjá Körlu að tóna niður hinn hádramatíska endi.

Það er aðdáunarvert hvað Karla nær miklu af efninu inn í frásögnina – ég var til dæmis viss um að hún myndi sleppa hrekknum sem strákarnir (riddarar Reglu rauða drekans) beita Helga svarta en nei, hann er þarna, prýðilega túlkaður þannig að allt skilar sér: Helgi að kyssa stelpuna, brjáluð bunan úr vatnsslöngunni, fátið á Helga og fögnuður strákanna! Það sem eðlilega skilar sér ekki í svo stuttri sýningu eru til dæmis baksögurnar, erfitt samband Andrésar við föður sinn, ævisaga Guðlaugar gömlu og ömurlegar heimilisaðstæður Helga hrekkjusvíns.

Strákarnir fjórir eru allir talsvert reyndir á sviði og þeir gerðu hlutverkin algerlega að sínum. Skapgerð þeirra hvers um sig var skýr, framsögnin góð og söngurinn ágætur, einkum í samsöng. Þeir víluðu ekki fyrir sér að radda lögin ef svo bar undir – vanir menn! Sérstaklega reyndi á Gunnar Erik í hlutverki Andrésar, keppnismannsins sem fellur í ónáð hjá félögum sínum, en hann stóðst raunina með láði.

Mér finnst eindregið að þetta verk eigi að eignast framhaldslíf og ég er viss um að hinn hugmyndaríki höfundur og hennar fólk muni finna leið til þess.

 

Silja Aðalsteinsdóttir