Tveir ungir leikarar fengu að láta ljós sitt skína á litlum sviðum stóru leikhúsanna í vikunni sem leið. Þóra Karítas Árnadóttir túlkaði bandaríska píslarvottinn Rachel Corrie í lífi og dauða á litla sviði Borgarleikhússins undir stjórn Maríu Ellingsen, en á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins lék Þórir Sæmundsson – ja, einna helst lausum hala og laut engri utanaðkomandi stjórn, að því er séð verður.

Rachel CorrieÞað var greinilega mikill áhugi á Rachel Corrie, ef marka má mannfjöldann á frumsýningu. Ég hef ekki verið í eins þéttskipuðum sal litla sviðsins síðan útskriftarárgangurinn þeirra Stefáns Halls og Dóru lék Hugleik Dagsson og Tsjekhov þar um árið. Þetta er líka draumaverkefni fyrir unga leikkonu: örlagasaga stúlku sem fórnaði lífi sínu fyrir fólk sem hún þekkti lítið sem ekkert með því að ganga fram fyrir skjöldu þegar átti að ryðja húsi þess burtu og varð sjálf undir ýtunni. Samt var þetta alveg eðlileg stelpa – ósköp venjuleg meira að segja, að því er virtist. Ég hefði samt viljað fá að vita aðeins meira um hana en var látið uppi í texta Alans Rickmans sem byggður er á bréfum og dagbókum Rachel (og Gísli Rúnar Jónsson þýddi). Hvers vegna fékk hún tækifæri (eins og segir í texta) til að fara til Rússlands? Ekki getur verið algengt í Bandaríkjunum að venjulegum unglingi bjóðist slíkt. Og hvað kveikti áhuga hennar á örlögum Palestínumanna? Hvernig vini átti hún? Í hvers konar hópum var hún á skólaárum sínum?

Það gerði líka erfitt að komast nálægt Rachel í sýningunni að textinn var ansi stirður og bóklegur, á köflum eins og lítt innblásnar orðabókarþýðingar (þýðanda er ekki getið í leikskrá). Maður heyrði sjaldan unga rödd í þeim texta, þótt rödd Þóru Karítasar sé vissulega bæði ung og innblásin. Hljóðmynd Margrétar Kristínar Blöndal (Möggu Stínu) var hins vegar áhrifarík og varð æ innblásnari og svakalegri eftir því sem leið á. Það var hún sem ásamt líkamstjáningu leikkonunnar hreyfðu við manni og komu jafnvel tárunum fram í augu manns undir lokin.

Þórir Sæmundsson er mun sjálfmiðaðri í sínum einleik sem hann kallar Eterinn. Hann segir sögur sem margar eru skemmtilegar, sögur af sjálfum sér, af ömmu sinni og alls konar öðru fólki, skyldu og óskyldu, og fremur frumsamda hljóðgjörninga inn á milli sem líka eru sniðugir. En heildartilgangur sýningarinnar varð mér ekki ljós – nema þá viðamikil sjálfskynning. Stundum minnti textinn á Punkt punkt komma strik eftir Pétur Gunnarsson, og þá heyrðist að með markvissri sjálfsíroníu hefði hann orðið mun fyndnari. Þórir tekur sjálfan sig aðeins of hátíðlega til að sýningin verði verulega snjöll.

Það er gaman að minna á að einmitt þessi tvö, Þóra Karítas og Þórir, leika ungu manneskjurnar í sýningu Þjóðleikhússins á Hart í bak. Þau eru hæfileikum búin, eins og sjá má bæði í þeirri sýningu og einleikjunum þeirra, og ástæða til að vænta margs af þeim í framtíðinni.

 

Silja Aðalsteinsdóttir