Það er engu logið á Ást og upplýsingar, uppsetningu Þjóðleikhússins á verki Caryl Churchill í Kassanum. Þetta er ljómandi skemmtilegt verk og vel unnin sýning hjá Unu Þorleifsdóttur leikstjóra. Einfalt en spennandi svið hannar Daniel Angermayr og Eva Signý Berger sér um búningana sem urðu æ litríkari og fjörlegri því lengra sem leið á sýninguna. Allir leikararnir eru á sviðinu mestallan tímann en yfirleitt aðeins tveir að leika hverju sinni þannig að lýsingin skiptir miklu máli. Henni stýrir Jóhann Bjarni Pálmason af öryggi og aðlaðandi hljóðheimurinn er á ábyrgð Kristins Gauta Einarssonar, Markétu Irglová og Sturlu Mio Þórissonar en Auður Ava Ólafsdóttir þýðir meitlaðan textann prýðilega.
En það er ekki auðvelt að rekja þráð eða kynna efnið því verkið er samsett úr ótal svipmyndum úr lífi fjölda manns. Þeir sem muna eftir Glugganum á bakhliðinni hans Alfreds Hitchcock geta ímyndað sér L.B. Jefferies (James Stewart) hafa útsýni inn um glugga á þrem tíu hæða blokkum og beina sjónaukanum í fáeinar sekúndur að hverjum glugga. Kosturinn fyrir okkur miðað við aðstöðu hans er að við heyrum líka það sem fólkið segir á þessari örskotsstundu.
Þetta er mikið bruðl með persónur, því að Caryl Churchill er svo flink – að ekki sé talað um Unu og leikarahópinn – að þær fá næstum því allar form og innihald þó að innlitin séu svona stutt. Oft gat ég ímyndað mér aðdraganda að örsamtalinu og oftast var einfalt að halda því áfram eftir að höfundurinn klippti á það. Þetta á til dæmis við um samtal ungu stúlknanna tveggja (Ebba Katrín Finnsdóttir og Katrín Halldóra Sigurðardóttir) um heitasta átrúnaðargoðið, samtal hjónanna um hvort eiginkonan sé sú sem hún segist vera eða ókunnug manneskja (Nína Dögg Filippusdóttir og Baldur Trausti Hreinsson), samtal annarra hjóna um sitt hjónalíf þar sem einnig er leikið með minni og minningar (Ragnheiður Steindórsdóttir og Baldur Trausti Hreinsson), og manninn sem var að fá sér hund (Hilmar Guðjónsson í dýrlegu atriði), manninn sem vill að yfirmaðurinn horfi í augun á sér meðan hún segir honum upp störfum (Björn Thors og Ebba Katrín) og fólkið í geimfarabúningunum sem veltir heimspekilega fyrir sér framhjáhaldi (Almar Blær Sigurjónsson og Nína Dögg). Var leyndarmálið stórt – eða kannski lítið og ómerkilegt? (Hilmar og Almar Blær) Hvenær á að ljóstra upp um hið stærsta af öllum leyndarmálum? (Ebba Katrín og Katrín Halldóra). Og er nóg að fara upp í Borgarnes til að eiga samtal sem enginn má vita um? (Nína Dögg og Björn)
Ég gæti haldið áfram lengi því atriðin spretta fram í huganum – þrjú fyrir hvert eitt sem ég næ upp á skjáinn. Farið og sjáið þetta stykki og íhugið svo á eftir hvað þið lifið mörg „leikrit“ á hverjum einasta degi!
Silja Aðalsteinsdóttir