Það verður ekki frýnilegt lífið eftir hrun siðmenningarinnar ef marka má verk Kolfinnu Nikulásdóttur, The last kvöldmáltíð. Það var frumsýnt í Tjarnarbíó í gærkvöldi á vegum leikhópsins Hamfara undir stjórn Önnu Maríu Tómasdóttur. Þar hittum við síðustu eftirlifendurna í óræðri framtíð, eins konar fjölskyldu, pabba, mömmu, stúlku og tvo drengi (skyldleikinn er óljós), sem hafa búið um sig í botninum á Sundhöll Reykjavíkur. Þó að kynningarmyndir úr sýningunni gefi annað til kynna er ekkert vatn í lauginni.
Svið Brynju Björnsdóttur er sláandi flott: fyrir miðju sviði er langborð með hvítum dúk eins og von sé á veislu; til hægri er hvítur legubekkur en uppbúið rúm til vinstri. Í baksýn er búr fyrir stórt dýr. Yfir öllu saman gnæfir glæsileg, margföld ljósakróna með gljáandi slæðum út frá sér í báðar áttir eins og vængi. En ekki er allt sem sýnist í þessari klassísku leikmynd. Í rúminu liggur maður (Ragnar Ísleifur Bragason), hreyfingarlaus, bregst aldrei við hvað sem við hann er gert. Í búrinu er ekki dýr heldur ungur karlmaður og þegar rýnt er í dýrðina fyrir ofan reynist hún öll úr plasti. Fjölbreyttir búningar Brynju Skjaldardóttur smellpassa bæði við persónur og svið svo að heildin verður sterk með ljósum Ólafs Ágústs Stefánssonar og ísmeygilega tónlist Sölku Valsdóttur yfir og allt um kring.
Það er hátíðisdagur í Höllinni þegar okkur ber að, sautjándi júní. Fjölskyldan veit ekki hvers vegna hann er haldinn hátíðlegur, það hefur bara alltaf verið gert, segir mamma (Helga Braga Jónsdóttir). Hún geymir slitur af fornum barnalærdómi sem hún stráir um sig við gefin tækifæri, til dæmis fer hún með kjarna Hávamála fyrir krakkana, „Deyr fé, deyja frændr, en orðspor never dies“! Mamma og krakkarnir Ló og Beikon (Ásthildur Úa Sigurðardóttir, Ólafur Ásgeirsson) tala nokkuð jafna blöndu ensku og íslensku; þó hefur enskan líklega undirtökin hjá Ló. Hins vegar talar Hreinn (Albert Halldórsson) ágæta íslensku enda kemur fram að hann les bækur. Íslenska og enska eru ekki alveg orðnar jafngildar í hausnum á mér þannig að framan af hikstaði ég við að skipta á sekúndubroti úr einu máli í annað en það komst upp í vana. Hjá leikurunum virtist þetta koma alveg eðlilega; Helga Braga beitti meira að segja stundum fyrir sig íslenskum framburði á enskunni, svona til gamans.
Eins og Hreinn geymir tungumálið og mamma leifar af barnalærdómi geymir Beikon leifar af fornum siðalærdómi. Hann vill gera mun á réttu og röngu þó að ekki sé honum fullkomlega ljóst hvað gerir þann mun. Hann vill líka endilega að fjölskyldan leiti fleiri eftirlifenda til að fjölga sér með og „bjarga heiminum“. Þau hin eru ekki með á því og hafa aðra leið í huga. Ló er fullgerð „ný manneskja“ og sæl í sínu skinni; ekkert sem hendir hana virðist hafa áhrif á það. Pabbi er í kóma og mamma stjórnar. Feðraveldið er hrunið eins og samfélagið. Partýið sem við fylgjumst með er lifandi mynd af afleiðingunum.
Þetta er djörf sýning, bæði að efni og uppsetningu. Gróf – in yer face, jafnvel – en stundum verulega fyndin. „Gamla þjóðsagan“ um Kentucky Fried Chicken var til dæmis alveg frábær. Leikurinn var blátt áfram og út í ruddaskap en á einhvern óhugnanlega eðlilegan hátt. Við hverju öðru var að búast af þessu fólki? Ragnari Ísleifi tókst með prýði að vera í kóma út allan tímann. Helga Braga sýndi ótvíræða hæfileika sem valdsmaður í nýju kerfi í hlutverki mömmu. Albert og Ólafur drógu upp sannfærandi gauð en Ásthildur Úa naut sín best sem vonarstjarna fjölskyldunnar alveg frá því að hún klæðir pabba sinn í sokkana í upphafi sýningar og þangað til hún strýkur á sér kviðinni í lokin og ætlar að skýra börnin sín Ken og Tucky ef þetta verði tvíburar! Ég minnist Ásthildar með ánægju úr Mutter Courage sem útskriftarnemendur LHÍ sýndu í hittifyrra, hún leggur sviðið undir sig af áreynslulausum léttleika.
Að þessu sögðu verður að nefna að sýningin er of löng! Ég skil að höfundur og leikstjóri vilji gefa glögga mynd af því hvernig tíminn líður hjá þessu fólki í sjálfskipaðri innilokun en við vitum heilmikið um innilokun núna og þetta má gefa í skyn með öðru en að láta tímann bara líða eins og þarna gerist of oft. Ég hef líka trú á að verkið muni batna til muna við að þjappast saman.