Gagnrýnendur eru sem kunnugt er þekktir fyrir að fyrirlíta gamanleiki og farsa, helstu kassastykki leikhúsanna, þeir (gagnrýnendurnir) eru auðvitað svo háfleygir að það rignir upp á nasirnar á þeim og þess vegna þola þeir ekki að fólk bara skemmti sér í leikhúsinu. Nú vil ég alls ekki vera af þessari sort, enda leiðist mér yfirleitt aldrei, allra síst í leikhúsi, en svei mér ef ég braut ekki mínar eigin reglur í gærkvöldi. Ég skemmti mér grátlega lítið á Tveggja þjóni á stóra sviði Þjóðleikhússins.
Tveggja þjónn er upphaflega leikrit eftir ítalska átjándu aldar leikskáldið Carlo Goldoni en sú gerð sem hér er leikin í þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar og undir stjórn Þórhildar Þorleifsdóttur er eftir samtímamann okkar, breska leikskáldið Richard Bean. Tónlist og söngtextar sem bætt er inn í leikritið eru eftir Grant Olding en fyrir sýningu og í hléi leikur hljómsveit KK og syngur lög eftir KK sjálfan.
Söguþráðurinn er hæfilega galinn og snýst um sísvanga þjóninn Francis (Jóhannes Haukur Jóhannesson) sem ræður sig bæði hjá Roskó Crabbe (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) og Stanley Stubbers (Jóhann G. Jóhannsson). Hann veit ekki að Roskó er í rauninni dauður (drepinn af Stanley) og það er Rakel systir hans sem ræður hann til sín. Hún er staðráðin í að hefna bróður síns þó að Stanley hafi fram að dauða Roskós verið kærastinn hennar. Til að leika hlutverk sitt almennilega sem Roskó kemur Rakel í karlmannsgervi heim til Kalla Clench (Örn Árnason) til að herma upp á hann loforð um að gefa sér dótturina Pálínu (Arnbjörg Hlíf Valsdóttir). En það kemur sér ákaflega illa því Pálína er hugfangin af leikaranum Alan (Snorri Engilbertsson) og vill ekki sjá Roskó. Öll raknar þessi flækja upp í leikslok og hver fær það sem honum ber.
Gamanið á aðallega að vera fólgið í því að fylgjast með Francis reyna að þjóna bæði Roskó/Rakel og Stanley án þess að þau komist að tvöfeldni hans. Hann er svo vitlítill að þetta verður honum einkar erfitt, hann ruglar í sífellu saman eigum þeirra, erindum, bréfum og peningasendingum. Mér sýnist á skrifum um verk Goldonis að þátturinn þar sem hann þjónar báðum til borðs, hvoru í sinni borðstofunni, um leið og hann reynir að fylla eigin belg, sé rosalega fyndinn. Það fannst mér ekki í gær og velti nú fyrir mér hvort það hafi verið sviðið sem var of stórt eða illa hugsað og hannað til að ná upp almennilegum hraða eða hvort Jóhannes Haukur var ekki nógu snöggur, innlifaður, einlægur eða eitthvað til að kalla fram tilætlaðan hlátur. Það var mun auðveldara að hlæja að aldraða þjóninum Alfie sem Eggert Þorleifsson lék með sannfærandi tilburðum.
Þráðurinn sem verkið heitir eftir verður líka óttalega veikur og utan hans eru atriði sem eiga allt undir frammistöðu leikaranna, einkum lipurleika (bæði tungu og líkama) og hraða. Frammistaðan er ennþá fremur stirðbusaleg en það mun áreiðanlega batna með fleiri sýningum.
Var þá ekkert gaman? Jú, vissulega kom það fyrir. Mér fannst mjög fyndið að horfa á KK með hárkollu – ætlaði ekki að þekkja hann! Og hljómsveitin hans var skemmtileg. Mér fannst gaman að sjá Vigdísi Hrefnu með yfirskegg og er ennþá að reyna að muna nákvæmlega hvaða kvikmyndaleikara hún stælir í karlmannsgervinu. Það fór um mig þögull hláturhrollur þegar Alfie gamli hrundi niður stigann (hvað eftir annað) og afturendinn á Arnbjörgu Hlíf var óborganlegur þegar hann stóð út undan borðdúknum. Hún hélt eins og strúturinn, veslingurinn, að enginn sæi hana ef hún sæi engan.