EgolandFyrir leikhúsrottu eins og mig var einna mestur spenningur fyrir því á Reykjavík Fringe Festival að sjá pólitíska einleikinn Egoland. Þetta er verðlaunaverk þýsk-sænsk-kýpverska leikhópsins SRSLYyours, samið af hópnum og leikstjóranum Achim Wieland sem fylgdi sýningunni hingað. Þau sýndu í Tjarnarbíó.

Sviðið er einfalt: stór kassi teiknaður á gólfið með breiðu, hvítu striki sem varð sjálflýsandi í ákveðinni lýsingu. Leikarinn Martin Nick (fullu nafni Karl Martin Nick Alexandersson – hann gerði mikið úr því hvernig við gætum leikið okkur að nafninu hans) er í íþróttabúningi, sterklegur ungur maður með stutt, aflitað hár og vangasvip eins og grísk höggmynd. En það er ekki auðvelt að átta sig á því í hvaða grunnaðstæðum hann er nákvæmlega. Með óreglulegu millibili líður hann út af og liggur eins og dauður á gólfinu en rödd berst úr tóminu og spyr hann spurninga, stundum ágengra, og Martin svarar eins og annars hugar. Er þetta Guð? Nei, Guð veit þessa hluti. Er hann í yfirheyrslu? Nei varla, röddin er mild þótt hún sé ópersónuleg. Líklega er hann hjá dávaldi sem er að kalla fram bernskuminningar hans til að gefa okkur hugmynd um undirstöðuna.

Þessir millikaflar voru blálýstir og kaldir en inn á milli spratt Martin á fætur og var þá allt annar maður, stæltur, öruggur með sig, og sýndi okkur hverja persónuna af annarri. Þá varð birtan líka skær. Við hittum þarna hvern sjálfsdýrkandi „egóistann“ af öðrum í okkar einstaklingsmiðaða heimi, frekjukarlinn sem stjórnar af hörku, áhrifavaldinn og íþróttafríkið með fræga þjálfarann, kvennamanninn blíðmælta (hann sýndi listir sínar á einni meðal áhorfenda), lýðskrumarann með þjóðernisfasísku hneigðirnar (hann gekk meira að segja svo langt að láta henda einum út úr salnum sem var ekki „einn af okkur“). Um leið fengum við skyndimyndir af helstu öflum sem eru að verki í samfélögum Vesturlanda og þau eru ekki beinlínis geðsleg öll. Martin Nick fór verulega vel með allar þessar ólíku persónur. Hann er líka geysilega fimur og fínn dansari. Enskan hans var skýr og hreimurinn þægilegur.

Sýningin var þétt og nærgöngul. Sviðið er eiginlega búið til með lýsingu þannig að hún skipti miklu máli. Fyrir hönnun hennar eru þeir skrifaðir leikstjórinn og Dimitris Chimonas.

 

Silja Aðalsteinsdóttir