Ég hef aldrei verið mikið fyrir teiknimyndasögur. Myndskreyttar sögur, fínt, en ekki sögur sagðar í myndum. Þess vegna varð ég svolítið hissa þegar Fréttatíminn lagði upp laupana í fyrravetur að finna að ég saknaði teikninganna hennar Lóu Hjálmtýsdóttur. Það tók mig tíma að læra að lesa þær en eftir að það tókst þurfti ég ekki annað en hugsa um þær til að fara að glotta. Stíll hennar er óþægilega nærgöngull konum en um leið andstyggilega fyndinn þannig að það var auðvelt að ánetjast.
Og nú hefur Sokkabandið frumsýnt næsta stig í þróuninni: Konurnar hennar Lóu fóru upp á Litla svið Borgarleikhússins í gærkvöldi í verkinu Lóaboratoríum undir stjórn Kolfinnu Nikulásdóttur. Sigríður Sunna Reynisdóttir sér um leikmynd og búninga sem eru furðumargir og fjölbreyttir miðað við að sýningin er ekki nema rúmlega klukkutímalöng.
Leikritið er af þeirri skemmtilegu tegund sem gerist í tveim húsum samtímis. Alan gamli Ayckbourne kunni þá aðferð svo ansi vel. Hér höfum við tvær íbúðir eða tvö hús hlið við hlið og eina konu búsetta í hvorri um það leyti sem verkið hefst en þær verða báðar fyrir innrás strax í blábyrjuninni. Bókaútgefandinn Stella (Arndís Hrönn Egilsdóttir) verður fyrir því að Anna dóttir hennar (Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir) kemur óvænt heim frá námi í útlöndum og sest upp, þó að mamma sé búin að taka herbergið hennar undir bókalager. Og you-tube-stjarnan Inga (Elma Lísa Gunnarsdóttir) fær ekki að vera í friði í þunglyndiskastinu sínu fyrir Brynju systur (María Heba Þorkelsdóttir) sem hefur ákveðið að flytja til hennar og „hjálpa henni“. Brynja er skilin við Tryggva en Tryggvi og pítsusendillinn eru svo til einu karlkyns persónurnar sem vikið er að í verkinu.
Það verður ljóst undir eins að þessi sambúð skyldra á ekki eftir að ganga hnökralaust. Stella þolir ekki grænmetisætuna dóttur sína og á líka alveg nóg með sig. Bókaforlög eru eins og langveik börn, segir hún til skýringar á því að hún geti engu sinnt öðru en vinnunni – geti til dæmis ekki verið að elda mat frá grunni. Hvílík tilætlunarsemi! Anna hefur komið sér upp lífstíl eins langt frá hátterni móðurinnar og hægt er og má ímynda sér að þetta sambýli endi með ósköpum eftir að verkinu lýkur. Eins er með systurnar í næsta húsi, þær þola í rauninni ekki hvor aðra en fara örlítið betur með það. Kannski þola persónurnar hennar Lóu ekki neinn yfir höfuð!
Kynningin á persónum og aðstæðum er drepfyndin en ég tímdi eiginlega ekki að hlæja til að missa ekki af neinu sem sagt var. Leikkonurnar þurfa að vera snöggar að læra að missa ekki gullvægar athugasemdir ofan í hlátur leikhúsgesta. Þegar kynningin er frá er kannski ekki laust við svolítið daufan kafla en hann endar líka með stæl þegar Inga rís upp úr þunglyndinu í snilldarlegu atriði. Eftir það tekur verkið nýja stefnu þar sem aktífur djöfulskapur tekur við af passífum djöfulskap en allt endar í sól og blíðu!
Þær eru alveg dásamlegar í hlutverkunum, allar fjórar, og engin leið að gera upp á milli af því að allar holdgerðu þær hugmyndir Lóu um persónurnar. Stella Arndísar Hrannar er það sem heitir á alþjóðamálinu „nasty piece of work“, þó var ekki laust við að ég vorkenndi henni þegar systurnar nýttu sér áfengisdauða hennar á gólfinu. Anna Jóhönnu Friðriku bar með sér að vera langkúguð af móður sinni og þess vegna óþolandi leiðinleg. Brynja Maríu Hebu var afskiptasami ættinginn lifandi kominn sem þykist bera annarra hag fyrir brjósti en er alltaf að hugsa um sig. Og Elma Lísa bjó til sína bípólar Ingu með stórkostlegum tilþrifum!
Sýningunni var tekið með kostum og kynjum í gær og ég þykist viss um að aðdáendur Lóu munu flykkjast á hana og taka alla vini sína og ættingja með sér.
Silja Aðalsteinsdóttir