Íslenska óperan sýndi í gær óperuna Brothers eða Bræður eftir Daníel Bjarnason á sviði Eldborgarsalarins í Hörpu. Óperan var samin eftir samnefndri kvikmynd danska leikstjórans Susanne Bier að beiðni Musikhuset í Árósum, frumsýnd þar 2017 og í Eldborg á Listahátíð 2018. Líbrettó er eftir Kerstin Perski, leikstjóri er Kasper Holten, Magnús Ragnarsson stjórnaði Kór Íslensku óperunnar en höfundurinn sjálfur stjórnaði Hljómsveit Íslensku óperunnar.
Kvikmyndin fjallar um áhrif stríðsins í Afganistan en óperan gerist í tímalausum heimi stríðs og haturs. Ofurstinn (Hrólfur Sæmundsson) kallar vinina Michael (Oddur Arnþór Jónsson) og Peter (James Laing) til herþjónustu því óvinurinn ógnar föðurlandinu. Hermennirnir skilja ástvini sína eftir heima í angist og kvíða, Michael aldraða foreldra (Auður Gunnarsdóttir og Jakob Zethner), eiginkonuna Söru (Marie Arnet), dótturina Nadiu (Eva Jáuregui) og vandræðagripinn Jamie bróður sinn (Elmar Gilbertsson) en Peter sína Önnu (Jóna G. Kolbrúnardóttir) sem á von á barni. Hún fæðir dreng sem Peter hefur fengið fregnir af áður en þeir vinirnir lenda í haldi óvinanna. Þaðan sleppur Michael en snýr heim annar maður en sá sem fór. Heima hefur Jamie reynt að vera Söru stoð og stytta og Michael verður heiftarlega afbrýðisamur þegar hann verður var við samband þeirra. En það verður fljótlega ljóst að eitthvað ennþá alvarlegra kvelur hann. Hvað kom í raun og veru fyrir Peter?
Þetta er ekki beinlínis glaðlegt efni og yfirbragð óperunnar var dökkt og mikilúðlegt. Steffen Aarfing hannar einfalt svið með háum tröppum á þrjá vegu sem persónur ganga um eða sitja í og búningar eru dökkir. Hið eina sem sker sig úr eru blóðrauðar reifar drengsins þeirra Önnu og Peters þar sem hann hvílir í fangi móður sinnar. Mest áberandi í sviðsmyndinni er fjölmennur kórinn sem er í svargráum búningum og var allan tímann nálægur á sviðinu, gat ýmist verið her eða almannarómur, dreifði úr sér þegar það átti við en þjappaði sér saman og varð jafnvel ógnandi afl þegar þörf krafði. Kórinn var voldugur á að líta, textinn hans var stundum ljórænn, stundum upplýsandi, jafnvel heimspekilegur, og söngurinn áhrifamikill.
Tónlistin er þung og dramatísk eins og vel á við um þetta efni og náði smám saman heljartökum á manni. Við og við komu undurfagrir kaflar, einkum verður minnisstæður söngurinn við minningarathöfnina um vinina horfnu og vögguvísan sem Anna syngur yfir syni sínum við sígilt enskt barnakvæði gekk manni að hjarta. Jóna söng hana átakanlega vel.
Tónlistin var annars mest söngles og var aðdáunarvert hvað söngvararnir léku hlutverk sín á sannfærandi hátt syngjandi þetta flókna verk. Í leik mæddi mest á Oddi Arnþóri þegar samviskan kvelur hann og andstæð öfl takast á í sál hans. Eitt máttugasta atriðið var þegar hann reynir að fá dóttur sína til að vera kyrr hjá sér og hugga sig en barnið streitist á móti. Þar reyndi verulega á yngsta söngvarann, Evu Jáuregui, sem sýndi öryggi og styrk bæði í söng og leik. Elmar sýndi hörku tilþrif sem forsmáði bróðirinn og Marie Arnet var skínandi góð í hlutverki konunnar sem bræðurnir berjast um. Hrólfur kom svo verulega á óvart með því að verða mikið úr litlu hlutverki ofurstans. Söngur þeirra allra var jafn og góður.
Bræður munu berjast og að bönum verða, segir í Völuspá, og það á sorglega vel við enn í dag, meira að segja hér í Evrópu. Þessu erfiða efni eru gerð meistaraleg skil í óperunni, í hljóðfæraleik, söng og túlkun á sviðinu. Einnig áttu sinn þátt myndbönd á baksviði sem Signe Krogh hannaði og ljósahönnun Ellen Ruge. Lengst mun þó sennilega lifa í minninu djúp og myrk undiraldan í tónlistinni.
Silja Aðalsteinsdóttir