Sviðslistahópurinn Óður frumsýndi í gærkvöldi í Sjálfstæðissalnum við Austurvöll vinsælu gamanóperuna Rakarann í Sevilla sem Gioachino Rossini samdi upp úr gamanleik eftir Frakkann Pierre Beaumarchais og frumsýndi 1816 í Róm. Sópraninn og tenórinn, Sólveig Sigurðardóttir og Þórhallur Auður Helgason, þýða textann á einstaklega lipurt, fallegt og fyndið málfar sem nýtur sín vel með tónlistinni og ýtir undir kómíkina í henni. Leikstjóri er sem fyrr Tómas Helgi Baldursson og tónlistarstjóri og „hljómsveit“ er Sævar Helgi Jóhannsson sem lék listilega á píanóið.

Eins og fastagestir og áhangendur Óðs bjuggust eindregið við leikur hópurinn sér að verkinu á ýmsan hátt þótt borin sé full virðing fyrir verki tónskáldsins. Frumleg útfærsla þeirra sexmenninga kemur í ljós strax í upphafi þegar Rakarakvartett flytur forleikinn á sérstæðan hátt sem vakti mikla kátínu. Kvartettinn skipa Philip Barkhudarov, Þorkell Helgi Sigfússon, Karl Friðrik Hjaltason og Gunnar Thor Örnólfsson og þeir voru bæði prýðilegir söngvarar og skínandi skemmtilegir leikarar. Upphafsatriðið var þeirra stærsta stund en þeir komu að góðu gagni oftar, til dæmis voru þeir í hlutverki „óveðursins“ þegar Almaviva greifi (Þórhallur Auður) og Figaro rakari (Áslákur Ingvarsson) brjótast inn í hús Bartolos (Ragnar Pétur Jóhannsson) til að bjarga hinni fögur Rosinu (Sólveig Sigurðardóttir) sem Almaviva elskar.

Þetta er auðvitað ástarsaga og eins og oftar er það gamall gráðugur karl, Bartolo í þessu tilviki, sem heldur skjólstæðingi sínum, milljónaerfingjanum Rosinu, fanginni á heimili sínu svo að hún falli ekki fyrir flagaranum sem syngur á kvöldin undir svölunum hennar heldur giftist honum sjálfum – hann munar í aurana hennar. Rosina er bálskotin í söngvaranum sem hún heldur að sé fátækur stúdent, Lindoro, en er í rauninni Almaviva greifi. Hún kemst ekki út til hans en þau lauma bréfum hvort til annars með hjálp hins þjónustuglaða Figaros. Figaro aðstoðar Almaviva líka við að komast í dulargervi inn til Bartolos og nær hinni fögru mey en þar verður stundum unaðslegur misskilningur sem vekur hlátrasköll, einkum þegar Almaviva heldur að hann eigi að kenna ungmeynni sund og býr sig samkvæmt því, en á í rauninni að kenna henni söng! Eftir nokkra árekstra og meiri misskilning fellur allt í ljúfa löð og ungu elskendurnir dansa inn í brúðkaupsnóttina, því „ódauðleg er ástin og eilíf hamingjan“.

Sjálfstæðissalurinn (gamla Nasa) er að mörgu leyti skemmtilegt leikhús og Tómas leikstjóri nýtir það af hugkvæmni, svið, svalir og tröppur. Stundum sjá ekki allir í salnum allt en heyra þó sönginn og þess er gætt að hafa þessi atriði stutt enda mikill hraði í sýningunni. Sviðsmyndin er einföld og búningarnir skemmtilega hugsaðir, hópurinn sá sjálfur um hvort tveggja. Rakarinn og sveinar hans í kvartettinum voru klæddir í rautt og svart, Rosina í huggulegan kjól í stíl við látlausan búning Lindoros. En þegar Almaviva sviptir af sér dulargervinu er augljóst að þar er ríkismaður á ferð – og stoltur af því!

Tónlistin í Rakaranum er fjörug og blæbrigðarík, mikið um söngles enda er þetta viðburðaríkt stykki þar sem margt þarf að segja og ekki alltaf tími til að sökkva sér ofan í langar aríur. Þær eru þó margar og sumar kunnuglegar, ekki síst aría Figaros þegar hann lýsir störfum sínum sem rakari og er svo eftirsóttur að allir æpa sífellt á hann með nafni. Aría Bartolos um róginn sem byrjar sem andvari en endar sem stormur er flott og snilldarlega þýdd með nettri vísun í samtíma okkar. Aría Rosinu þegar hún syngur um söngvarann sinn með fallegu röddina („Una voce poco fa“) er líka alþekkt og þýðingin á henni yndisleg. Eins og þið hafið tekið eftir hafa hér á undan verið taldir upp átta karlsöngvarar í óperunni og á móti þeim bara ein kvenrödd – en hvílík kvenrödd! Sólveig hefur bjarta sópranrödd með geysivítt tónsvið og hún leikur sér að öllum kólóratúr-trillunum og hlaupunum hans Rossinis upp á háa C, D og kannski F? Sólveig er líka prýðileg leikkona og á auðvelt með að sýna bæði ástleitna stúlku og ákveðna – því að Rosina er með bein í nefinu og ætlar ekki að þola kúgun og innilokun til eilífðarnóns. Hlutverkið passar Sólveigu fullkomlega.

Það sama má segja um aðra hlutverkaskipan í sýningunni. Þórhallur Auður skapar hinn einlæga flagara af miklum sjarma. Ragnar Pétur gerir sitt besta til að túlka þann kvennakúgara sem hann er ábyggilega ekki. Og Áslákur verður fullkomlega frekjulaust sú stjarna sýningarinnar sem Rossini ætlaði sér með hlutverki hins klóka, sjálfumglaða og glaðhlakkalega rakara. Hann er gamanleikari af guðs náð og nýtur sín til fulls í þessu frábæra hlutverki. Rakarakvartettinn er mjög góður, raddirnar vel samhæfðar og sviðsframkoman heillandi. Einn úr hópnum, Philip Barkhudarov, leikur líka hlutverk Vasilievskys, (ekta) söngkennara Rosinu, og hreinlega glansar.

Það einstaka er hvað þau vanda sig vel og skila tónlist Rossinis af mikilli prýði um leið og fyndinn textinn fær líka að njóta sín. Fyndnin og vandaður söngurinn haldast hönd í hönd svo að útkoman er algerlega fullnægjandi, eins og Almaviva myndi segja. Lifi Óður og óperan!

Silja Aðalsteinsdóttir