Veðurfregnir og jarðarfarirMaó Alheimsdóttur: Veðurfregnir og jarðarfarir.

Ós Pressan 2024.

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2025.

Eins og alltaf þegar ég þarf að koma reglu á heiminn stóð ég mig að því að skrifa lista á meðan ég las Veðurfregnir og jarðarfarir, fyrstu skáldsögu Maó Alheimsdóttur. Listinn bar yfirskriftina „Skrítin orð til að tékka seinna“ og innihélt orð og frasa eins og óbláir litir vatnsins, kynlífsfræddir og ókynlífsfræddir, þungt og hljóðþétt myrkur, karlmannskjólar, platanviður, brokflói og meðvitund um aðdráttaraflslög. Ég tíndi þessi orð saman annars hugar á meðan ég las bókina, óviss hvort þau væru mér ókunn, sum kannski fengin úr þeim veður- og náttúrufræðum sem mynda bakgrunn frásagnarinnar í bók Maó, eða hvort þau væru búin til af höfundi út frá hennar persónulegu nálgun við íslenska tungu – sem er að mörgu leyti svo ólík minni.

Maó er fædd í Póllandi en hefur alið manninn í ýmsum löndum og tamið sér nokkur tungumál. Maó er ekki skírnarnafn hennar heldur stytting sem henni hlotnaðist einhvern tímann eftir komuna til Íslands. Alheimsdóttir bættist síðar við þegar hún stofnaði Instagram-síðu og þurfti að aðgreina sig frá öðrum Maóum alnetsins. Þannig hefur hún, meðvitað eða ómeðvitað, tekið upp íslenskt nafn og íslenskt sjálf, með broddstaf í fornafni og eftirnafn sem endar á dóttir – ekki ósvipað og ljóðskáldið Elías Knörr gerði á sínum tíma, en í viðtali sem ég tók við hann árið 2018 talar hann um skáldanafnið Knörr sem Trójuhest sem hafi veitt honum aðgang að hinu læsta kerfi íslenskra bókmennta.[1]

Ég vona að lyklarnir að íslensku bókmenntalífi séu orðnir aðgengilegri í dag, eða allavega sýnilegri. Það ber ekki síst að þakka ötulu starfi Ós pressunnar, sem gefur Veðurfregnir og jarðarfarir út. Í ár eru einmitt tíu ár frá því að Ós pressan var stofnuð í þeim tilgangi að búa til snertiflöt fyrir aðflutta og innfædda höfunda í bókmenntasenu landsins og skapa rými í íslenskum útgáfuheimi fyrir raddir sem eiga ekki íslensku að móðurmáli. Ós pressan byrjaði sem vettvangur fyrir upplestra og samskrif en árið 2016 kom út fyrsta eintakið af bókmenntatímaritinu ÓS – The Journal sem hafði þá stefnu að gefa út á hvaða tungumáli sem höfundar kusu – frá íslensku til úrdú – svo lengi sem að skrifin hefðu tengingu við Ísland. Á síðum tímaritsins stigu fyrst fram ýmsir höfundar sem hafa í seinni tíð skapað sér gott nafn á meðal íslenskra lesenda, t.a.m. Ewa Marcinek, Helen Cova og Joachim B. Schmidt, samhliða útgefnum íslenskum höfundum á borð við Eirík Örn Norðdahl, Sverri Norland og Pedro Gunnlaug Garcia. Síðan 2016 hefur Ós pressan, sem er að mestu rekin með sjálfboðavinnu stjórnar útgáfunnar sem skiptir reglulega um meðlimi, gefið út fimm eintök af ÓS – The Journal og þrjár ljóðabækur, en Veðurfregnir og jarðarfarir er fyrsta skáldsaga útgáfunnar. Maó sjálf er hluti af þeim fámenna hópi nemenda sem hafa útskrifast með meistaragráðu úr ritlistardeild Háskóla Íslands en hafa ekki íslensku að móðurmáli. Þá hefur bókinni verið hampað sem fyrstu skáldsögunni sem skrifuð er á íslensku af höfundi sem hefur lært íslensku á fullorðinsárum. Hér er því um ákveðið tímamótaverk að ræða og mig grunar að margir fagni því að sjá nýjan skáldsagnahöfund stíga inn í tungumálið af dirfsku og gefa íslenskum bókmenntum nýja vídd.

Veðurfregnir og jarðafarir hverfist um veðurfræðinginn Lenu, sem er í ástarsorg, en sjónarhorn bókarinnar er margþætt og fylgir ýmsum persónum í lífi hennar fram og aftur í tíma. Ástarsorg Lenu í byrjun bókar er á vissan hátt tvíþætt. Amma hennar heima í Póllandi er fallin frá og elskhugi hennar, Fannar, hefur yfirgefið hana. Hún upplifir sig í einskonar limbó-ástandi, búin að tapa tengingunni við fortíðina í Póllandi, sem og þeirri öruggu framtíð sem hún sá fyrir sér í örmum Fannars. Bókin á þó meira skylt við fjölskyldusögu en ástarsögu. Textinn segir reglulega skilið við fyrstu persónu frásögn Lenu og skiptir í þriðju persónu frásögn sem kynnir til sögunnar móður hennar og systur, sem eru staðsettar langt í burtu frá Lenu í bæði tíma og rúmi. Á svipaðan máta kynnumst við vinum Lenu, tengsla- og stuðningsnetinu sem hún hefur komið sér upp í stað fjölskyldu á Íslandi og þar áður í París þar sem hún sótti háskólanám. Flest eru þau innflytjendur eins og hún og pólsk og frönsk orð flæða náttúrulega inn í textann í samtölum þeirra. Í raun tala persónur sögunnar bara íslensku sín á milli í nokkrum senum og á köflum virðist íslenskan jafnvel vera hálfgerð kvöð fyrir Lenu, samanber atriði snemma í bókinni þegar hún er í sundi og samferðafólk hennar í heita pottinum reynir að draga hana inn í spjall. Í fyrsta samtali Lenu við Fannar hælir hann henni fyrir íslenskukunnáttu hennar; öráreitni sem margir sem tala íslensku með hreim kannast efalaust við:

Í stað þess að þakka fyrir hrósið endurtek ég upphátt eftir rödd púkans sem blístrar í eyra mitt, ég hef nú ekki sagt mikið, svo rétti ég Fannari kaffibolla og sest með minn hinum megin við borðið, gjörðu svo vel. (72)

Það má ef til vill greina speglun í því hvernig erlend orð flæða óhindrað inn í textann og markaleysisins sem einkennir frásögn Lenu. Hún virðist oft hafa litla stjórn á aðstæðum í kringum sig; hvernig veröldin hefur áhrif á hana og hverju hún hleypir að sér. Samband hennar við Fannar fer reglulega á hliðina vegna óöryggis hans. Í hvert sinn sem Lena minnist á sín fyrri sambönd sakar hann hana um að ofdeila, og hann á það til að láta sig hverfa á langa drykkjutúra og þá getur hún átt von á óþægilegum símtölum frá honum. Það er helst úti í náttúrunni sem Lena upplifir sátt og ró og þar er einnig griðland hennar og Fannars, en þau kynnast fyrst við vinnu sem jöklaleiðsögumenn á hálendinu. Bókin hefst á angurværri senu í íslenskri náttúru þar sem þau ganga tvö saman yfir mosa sem er „þykkur og mjúkur, vatnsfylltur með sérkennilegum sporum sem minna helst á hárbursta eða greiðuför“ og fylgjast með „vatnsdropum sem falla niður úr grýlukertum og klingja í berginu undir“ (7). Í næsta kafla er friðurinn úti og Lena er „[k]omin í bæinn, beint í áróðurskvíða upplýsinga“:

Ég sendi fésbókarvinum rafræna þumla og hjörtu svo þeir geti bætt ummælum fyrir neðan netfærsluna mína, þjáningu, þar sem ég finn fyrir öllu og engu, aðskilin frá veruleikanum í gegnum skjáinn. (13)

Til viðbótar við klið samfélagsmiðla er Lena berskjölduð fyrir minningum sem sækja sífellt á hana. Oft snúast þær um Fannar, en inn á milli er að finna minningar sem eru ekki hennar eigin heldur fengnar að láni frá móður hennar og systrum. Þessar minningar birtast Lenu þegar síst skyldi. Fyrstu persónu rammafrásögnin af hennar hversdagslega amstri er rofin og Lena er skyndilega stödd við hlið móður sinnar og fylgist með úr fjarlægð, aðgerðarlaus eins og vofa, þegar henni eru færðar fréttir af fráfalli Rozaliu, ömmu sinnar:

vatn safnaðist í lungun og olli andarteppu, segir deildarlæknir á meðan hann horfir í augu dóttur sjúklingsins, móður minnar. […] Móðir mín stendur í litlu sjúkrahúsi sem reglusystur heilagrar Katrínar stofnuðu sama ár og hún fæddist þegar berklasótt tók yfir héraðið. Hún stendur þögul og horfir á sendiboða feigðar með augu sem fyllast af vatni. (24–25)

Eftir því sem líður á söguna verða þessi augnablik sífellt fjarlægari veruleika Lenu á Íslandi. Þannig kynnumst við Wöndu, móður hennar, sem ungri konu á umbrotatímum í Póllandi á sjöunda áratugnum; og Elísu, eldri systur hennar, sem er læknir og gegnir hlutverki sáttasemjara á milli Lenu og Mílu, yngri systur hennar, sem er að vinna að sinni fyrstu kvikmynd. Rozalia er þó öllu fjarlægari og birtist okkur aðallega í endurminningum systranna og dagbókarskrifum sem hún skilur eftir sig. Sjónarhornið staðnæmist um stund hjá öllum þessum konum og sýnir þær á ólíkum tímabilum ævi þeirra, og í hvert sinn fáum við nýja og óvænta sýn á þær sjálfar sem og hinar konurnar í fjölskyldunni.

Á meðan virðast karlarnir í lífi þeirra vera hálfgerðir draugar sem eiga sér ekki nærri eins ríkulegt (innra) líf og konurnar. Þeir eru annaðhvort dánir eða faldir einhvers staðar í bakgrunninum, týndir í áfengi eða sjónvarpsglápi. Meira að segja Fannar virðist skorta alla dýpt og reynist hvorki verðugur ástar Lenu né þess mikilvæga hlutverks sem sagan ætlar honum. Þegar ýjað er að því undir lok frásagnarinnar að þau Lena muni ná saman að nýju kærum við okkur kollótt, því þrátt fyrir það pláss sem honum er gefið í textanum nær hann aldrei að vera mikið meira en útúrdúr eða neðanmálsgrein í sögunni um Lenu og systur hennar, móður þeirra og ömmu.

Að lokum er Lena sjálf komin í hálfgert aukahlutverk þegar Míla, yngsta systirin, tekur yfir ættarsöguna. Hún vinnur að kvikmynd sem byggir á dagbókarfærslum Rozaliu og hyggst segja sögu ömmu þeirra og samtímakvenna hennar með sinni eigin rödd – eitthvað sem Lena, sögukonan sjálf, á erfitt með að sætta sig við:

þú getur ekki tekið allt sem þú vilt án þess að spyrja aðra um hvað þeim finnst!

Reiði tekur fast utan um hálsinn á mér og ég reyni að losa mig við hana með því að öskra enn meira á litlu systur mína.

Þetta er ekki bara þín saga að segja! (150)

Reiði Lenu virðist snúa að því að hér sé um trúnaðarbrest að ræða og það er kannski ekki fjarri lagi. Saga þeirra tilheyrir þeim öllum og hver og ein þeirra á sitt framlag til hennar. Frásagnarstíll sögunnar, hvernig sjónarhornið flæðir á milli Lenu, systra hennar og móður, gerir að verkum að oft og tíðum virðast þær eins og andstæðar hliðar á sama teningi, þrátt fyrir ólíkar aðstæður og umhverfi. Að mörgu leyti er Lena til dæmis frjálsari en Wanda, móðir hennar, sem hefur takmarkaða getu til að losna undan oki hins strangtrúaða pólska samfélags sem umlykur hana, en þótt Lena hafi skipt kaþólskri trú út fyrir hagnýtan og huggulegan búddisma stendur hún alveg jafn vanmáttug frammi fyrir óörygginu og tilgangsleysinu sem stafar af hinum fjölmörgu kvíðavöldum vorra tíma. Það á ekki síst við um loftslagshamfarir, sem Lena er mjög meðvituð um vegna starfs síns sem veðurfræðingur, en eins og titill bókarinnar ýjar að mynda þær eitt af þemum skáldsögunnar.

Í sögunni speglast tilfinningar Lenu oftar en ekki í veðrinu. Hún sækir huggun í veðurdagbókina sína með því að skrá þar færslur um rigningartíðir úr árbókum Borgfirðinga og heimildir um örlagaveður í miðaldatextum, samhliða því að sinna heimaverkefnum frá sálfræðingnum sínum, eins og að taka saman lista yfir það sem hún afrekaði þann daginn eða það sem hún er þakklát fyrir í lífi sínu. Þannig finnur Lena sér hugarró í veðrinu, líkt og í náttúrunni. Angist hennar gagnvart þeim breytingum sem hafa átt sér stað í veðurfari á vorum tímum dregur fram þau persónulegu áhrif sem loftslagshamfarir hafa á hvert og eitt okkar. Því hverju getum við treyst þegar gangi árstíðanna er snúið á hvolf?

Ég kom mér aldrei í að gúgla orðin sem ég safnaði á „skrítin orð“-listann minn, hvað þá slá þau inn í BÍN eða Ritmálssafnið og reyna þannig að flokka þau á einn eða annan hátt í innflutt orð og íslensk; rétt orð og röng. Ég tíndi þau bara til líkt og fallega steina sem safnast fyrir í úlpuvasanum á göngutúr um nýjar slóðir, án þess að maður hafi neina skýra hugmynd um hvað eigi að gera við góssið þegar heim kemur. Veðurfregnir og jarðarfarir er nefnilega ein af þessum bókum sem kennir lesandanum smám saman að lesa sig. Óvenjulegt orðalagið ásamt setningargerð sem getur á köflum virst eilítið á skjön, sveipar prósann ákveðinni fjarlægð – eða kannski væri réttara að segja dýpt. Myndmálið breiðir út faðminn og teygir sig til lesandans, úr einu tungumáli til annars, allt þar til það nær tangarhaldi og togar mann með sér. Sérkennilegar orðsmíðarnar hafa lævís áhrif á orðin allt um kring í textanum svo að kunnugleg íslensk orð eins og velúrgardínur, rósablómahnappar, hvarvetna og rosabaugur verða sveipuð framandleika sem dregur fram fegurðina í tungumálinu frá alveg nýju sjónarhorni.

 

Björn Halldórsson

 

[1] https://grapevine.is/news/2018/06/21/language-is-a-weapon-elias-knorr-on-poetry-prejudice/