Bíómynd Akis Kaurismäki I hired a contract killer (Ég réð mér leigumorðingja, 1990) var minnilega skemmtileg þó stutt væri (tæpar 80 mínútur). Agli Heiðari Antoni Pálssyni og áhöfn hans hjá Leikfélagi Akureyrar, sem völdu þetta verk, er því tvöfaldur vandi á höndum: að búa til frumlega og skemmtilega leiksýningu sem ekki gerir bíómyndinni skömm til og láta hana endast heilt kvöld. Hvort tveggja tekst þeim alveg ágætlega þó að sennilega sé leiksýningin ekkert miklu lengri en kvikmyndin þegar langt og fjörugt hlé er dregið frá.

Egill Heiðar gerir sjálfur leikgerðina af bíómyndinni eftir þýðingu Jórunnar Sigurðardóttur á texta Kaurismäkis og gerir hvort tveggja í senn að byggja upp leiksýningu og brjóta hana niður. Enginn er tilbúinn til að fara að leika á sviðinu þegar klukkan er orðin átta og prúðbúnir leikhúsgestir sestir, bros á öllum andlitum og spenna í lofti. Ekki laust við að brosið breyttist í skeifu á sumum við að fylgjast með langdregnum vandræðum leikaranna við að koma leikmyndinni í rétt horf. Þegar þau eru loksins tilbúin og ætla að koma sér fyrir til að hefja leikinn tekur það líka svo langan tíma að aðalleikarinn, Hannes Óli Ágústsson, er sestur út í horn með góða bók (Útlendinginn eftir Camus) og nennir ekki að vera með. Þetta minnir dálítið á spunasýningu í framhaldsskóla og það gerir raunar sýningin öll – en veldur hver á heldur. Hér er góður agi á spunanum þó að hann geti virkað afar kaótískur á köflum og hér er valinn fagmaður í hverju rúmi.

Leigumorðinginn

Frakkinn Henri Boulanger (Hannes Óli) er starfsmaður í lítilfjörlegri stofnun í London, lítið óþarft tannhjól í stórri vél, og honum er sagt upp um leið og þrengir að undir lok valdaskeiðs Margrétar Thatcher. Yfirmaðurinn afsakar sig með því að Henri sé útlendingur, þeir hljóti að fara fyrstir. Henri á enga fjölskyldu í gamla landinu og engan vin, hvað þá kærustu, í nýja landinu. Þegar vinnan er farin horfist hann bara í augu við tómið. Hann reynir að kála sér en til þess þarf kjark sem hann hefur ekki, þess vegna ræður hann sér leigumorðingja. Henri er sagt að verkið verði unnið innan tveggja vikna og allt í einu, þegar tíminn er takmarkaður, fer hann að nota hann til einhvers. Fara út á lífið, tala við fólk. Þegar hann kynnist blómasölustúlkunni Margréti (Aðalbjörg Árnadóttir) fer hann að sjá beisklega eftir samningnum við leigumorðingjann (Einar Aðalsteinsson) – en það er annað en auðvelt að finna hann. Og þó að hann finnist er ekki þar með sagt að næði gefist til að ræða málin áður en skotið hleypur úr byssunni …

Þetta er ung sýning. Auk þeirra sem þegar hafa verið nefnd leikur Anna Gunndís Guðmundsdóttir mörg hlutverk. Það gera þau öll nema Hannes Óli og nokkur í viðbót í pínulitlum hlutverkum. Öll eru þau tiltölulega ný í starfi. Það var reglulega gaman að horfa á þau (enda þótti þeim sjálfum rosalega gaman) en betur þótti mér stelpurnar standa sig en strákarnir. Sem mótvægi við unglingana setur leikstjórinn upp á sviðið hljóðfæraleikara úr Harmonikufélagi Eyjafjarðar sem leika margan góðan gamlan slagarann og líka stemningstónlist þegar mikið liggur við undir stjórn Georgs Kára Hilmarssonar. Þar að auki skemmtu þeir okkur prýðilega í hléinu.

Tæknihlið sýningarinnar er kapítuli út af fyrir sig og ekki sá ómerkasti. Samkvæmt leikskrá er Egill Ingibergsson ábyrgur fyrir „hreyfimyndum“ (auk lýsingar og leikmyndar) en Kristján Kristjánsson og Elvar Guðmundsson sáu um „gerð myndbands“. Ég átta mig ekki á verkaskiptingunni en fullyrði bara að myndbandið er frábært og flottasta atriði sýningarinnar þegar það leikur með/móti leikurunum í einu síðasta atriðinu. Gargandi snilld!

Silja Aðalsteinsdóttir