Það er ekki langt síðan ævisögur og viðtalsbækur vermdu ævinlega efstu sæti bóksölulistanna, ár eftir ár, en síðan fóru vinsældir þeirra að dala. Það þýðir þó ekki að við höfum ekki áhuga á sorgum og sigrum fræga fólksins – við viljum bara sjá þær í viðhafnarmeiri búningi. Á fjölum Borgarleikhússins rekur nú hver ævisagan aðra – Laddi tekur við af Ellý, sem tók við af Bubba. Þetta eru ólíkar sýningar en gefa allar innsýn í áhugaverða ævi, leitast við að bregða nýju ljósi á hina þjóðþekktu persónu, og bjóða auk þess upp á söng og dans, drama og grín. Af því síðastnefnda er eðlilega mest í nýjustu sýningunni, Þetta er Laddi, sem frumsýnd var á stóra sviðinu í gærkvöldi.

Höfundar verksins eru Ólafur Egill Egilsson, sem jafnframt leikstýrir sýningunni, og Vala Kristín Eiríksdóttir, sem heldur henni saman á sviðinu, leikur þáttastjórnandann sem segir sögu Ladda og rekur úr honum garnirnar á milli þess sem persónurnar hans birtast þar, ýmist í meðförum Ladda sjálfs eða annarra. Persónurnar segja líka sögu skapara síns með alþekktum textum eftir hann sem sumir hafa verið aðlagaðir að þessari sýningu, auk þess sem Laddi og fólkið í kringum hann er túlkað af ýmsum ólíkum leikurum. Þetta kann að virðast flókið en allt gengur þetta upp, raðast saman í heildstæða frásögn sem er bæði skemmtileg og áhrifarík.

Ólíkt ævisögunum sem sagðar hafa verið á stóra sviði Borgarleikhússins á undanförnum misserum er viðfangið sjálft hér á sviðinu. Eftir ærslafengið upphafsatriði, sem setur áhorfendur í rétta gírinn fyrir sýninguna, sest Laddi sjálfur í vandlega valinn sófa og byrjar að svara ágengum spurningum Völu Kristínar. Laddi hefur oft sagt frá því í viðtölum að hann sé feiminn að eðlisfari og gerólíkur þeim sprellara sem hann virðist vera þegar hann er kominn í leikgervi. Þetta blasti við á sviðinu, jafnvel þannig að atriði án gerva virkuðu stundum aðeins of tíðindalítil. En umbreytingin sem verður þegar hann bregður sér í hlutverk, setur á sig hár og gleraugu Eiríks Fjalars fyrir allra augum og gerbreytir allri líkamstjáningu sinni, er virkilega sterk  – nánast eins og kennslustund í leiklist.

Og fleiri fá að spreyta sig á Eiríki Fjalari, Elsu Lund, Saxa lækni og öllum hinum en Laddi sjálfur. Vilhelm Neto er næstum því jafnsannfærandi Dengsi og Laddi sjálfur og sama gildir um Björgvin Franz sem tálkvendið Elsu. Hákon Jóhannesson er sinn eigin Eiríkur Fjalar og frábær Laddi, bæði þegar hann slær óvænt í gegn eftir beina sjónvarpsútsendingu og þar sem hann stendur við barinn ásamt fyrirmyndinni að kryfja erfiðu árin. Og hann er ekki sá eini sem fær að túlka Ladda. Birna Pétursdóttir leikur ungan Ladda sem þráir heimsfrægð á tónlistarsviðinu; Ásthildur Úa Sigurðardóttir er heillandi, síðhærður hippa-Laddi; Halldór Gylfason sýnir okkur útbrunninn sólstrandar-Ladda (á sandölum og ermalausum bol) sem aldrei tekur sér frí, svo eitthvað sé nefnt. Hann á raunar stórleik líka sem Halli í Roy Rogers og stóra bróðurinn túlkar Katla Margrét Þorgeirsdóttir líka vel eftir að þeir bræðurnir hittast á fullorðinsárum og reyna við heimsfrægðina. Þá á Margrét Maack stórkostlega innkomu í nærgöngulli krufningu á úreltum húmor og Jón Ólafsson stýrir fjögurra manna hljómsveit sem hringsnýst á sviðinu alla sýninguna og heldur uppi stuðinu.  Miðað við persónugalleríið er leikarahópurinn ekki stór en stóð sig frábærlega í að túlka ný og ný hlutverk – í nýjum og nýjum gervum. Tempóið er hratt alla sýninguna og á frumsýningu gekk allt upp þó að sum atriði mætti að ósekju stytta.

Það gefur auga leið að í svona sýningu mæðir mikið á búningum, sviði og allri umgjörð, og þar er ekkert til sparað. Eva Signý Berger hannar íburðarmikla leikmynd sem endurskapar vel áratugina sem sýningin spannar, og sama gildir um búninga Guðnýjar Hrundar Sigurðardóttur og leikgervi Elínar S. Gísladóttur. Ótalmargir koma að þessum þáttum sýningarinnar sem endurspeglast á óvenjulöngum kreditlista í leikskrá. Borgarleikhúsið setur allan sinn kraft í þessa sýningu.

Þetta er Laddi er hálfgert nostalgíutripp fyrir okkur sem ólumst upp við lögin og karakterana hans Ladda á tímum þegar aðeins var ein útvarpsstöð og ein sjónvarpsstöð – og einn Laddi! Enda var gríðarmikið hlegið á frumsýningunni og áhorfendur tóku undir lögin, bæði þegar boðið var upp á það og ekki. Vala Kristín lék sér að salnum að vild og ég hef trú á því að þátttakan verði ekki minni á almennum sýningum. Fyrir yngri áhorfendur er sýningin aðeins fjarlægari. Bæði hefur húmorinn breyst, og ekki bara sá sem við erum öll sammála um að sé óímunnberanlegur nú á dögum, og síðan eru óhjákvæmilega ótal vísanir í dægurmenningu og þjóðfélagsmál sem auðveldara er að skilja og njóta muni maður þessa tíma. En sagan hans Ladda er vel sögð og opnar á áhrifamikinn hátt inn í kviku viðfangsins, sem snertir djúpt og skilur sýninguna með afgerandi hætti frá Ladda-showunum sem margir þekkja. Samt er hún alger gleðisprengja og maður gengur brosandi út í nóttina með hljóðrás æskuáranna á heilanum.

Sigþrúður Gunnarsdóttir