Það er fjör í leikhúsunum þessar vikurnar, metkortasala í báðum stóru húsunum í Reykjavík og uppselt á sýningar langt fram í tímann. Og í Þjóðleikhúskjallaranum var stappfullt í gærkvöldi á kabarettsýninguna Uppnám, enda hefur hún fengið dúndurviðtökur gagnrýnenda. Það er reyndar sérstakt fagnaðarefni, ekki síst fyrir roskna borgarbúa, að Leikhúskjallarinn skuli verða reglulegur vettvangur fyrir léttar leiksýningar, svo vel hafa þeir skemmt sér í þessum kjallara í áratugi.

UppnámUppnám er sett saman úr tveim gerólíkum leikþáttum sem eiga sameiginlegt að flytjendur eru flestir nýgræðingar á íslensku leiksviði. Duglegt ungt fólk sem skapar sér tækifæri til að sýna hvað það getur. Og það getur heilan helling, ekki fór það framhjá glöðum leikhúsgestum í gærkvöldi.

Fyrri þátturinn er þriggja manna uppistand, Homo erectus – Pörupiltar standa upp, þar sem þeir Dóri Maack (Sólveig Guðmundsdóttir), Nonni Bö (Alexía Björg Jóhannesdóttir) og Hermann Gunnarsson (María Pálsdóttir) taka fyrir helstu alvörumál þjóðfélagsins, konur og dýr í útrýmingarhættu sem einkum eru karlmenn og kettlingar. Tabú eru hrunið og Harpa sem kannski er frekar stúlka en umdeild húsbygging! Þeir leyna því ekki að þeir séu atvinnulausir, menn í virkri atvinnuleit, eins og þeir orða það, en meðan þeir bíða eftir almennilegu starfi messa þeir yfir gestum Kjallarans um hugðarefni sín. Þeir fara með texta hver um sig sem margir voru drepfyndnir, ekki síst ljóðin sem Dóri Maack flutti okkur úr væntanlegri ljóðabók sinni, Pólitísk ástarljóð hins upprétta manns, en inn á milli þessara atriða áttu þeir í innbyrðis átökum sem ekki voru síður fyndin. Ég nefni bara klútaatriðið sem ætlaði mig lifandi að drepa úr hlátri. Þeir piltar áttu ýmis heilræði uppi í erminni sem gott var að hafa heim með sér. Aldrei kasta grjóti í fólk sem býr í gróðurhúsi var eitt minnisstætt. Annað var sú góða ábending að það er ekkert myrkur til – aðeins fjarvera ljóss!

Eftir hlé kom parið Viggó (Bjarni Snæbjörnsson) og Víóletta (Sigríður Eyrún Friðriksdóttir) með Sjálfshjálparsöngleikinn sinn þar sem þau segja ævisögu sína og hug sinn, ýmist í tali eða tónum. Lögin sem þau syngja eru héðan og þaðan úr söngleikjum, bæði gamalkunnum eins og Galdrakarlinum í Oz, Rocky Horror, Litlu hryllingsbúðinni, Lion King og Annie, og ókunnuglegum (í mínum eyrum) eins og Avenue Q, en textar voru allir nýir og samdir inn í þá sögu sem parið var að segja. Eitt lag var íslenskt, aðallagið sem sungið var bæði í upphafi og lok söngleiksins, „Aðdáendaher“ eftir Hall Ingólfsson og Agnar Jón Egilsson. Frábært lag og fínn texti.

Víóletta er úr Breiðholtinu og Viggó frá Bíldudal og það mátti vel skilja hve þung örlög það eru fyrir glimmerfólk að fæðast á svona glötuðum stöðum. Sýniþörfin kom Viólettu snemma í Stundina okkar þar sem Viggó sá hana og varð „starstruck“ (ekki ástfanginn, gáið að því!). Hann skrifaði stjörnunni sinni bréf og eftir það varð ekki snúið við. Nú mætti ætla að framhaldið hafi orðið sælan einber en svoleiðis gengur lífið ekki, jafnvel ekki hjá fólki sem hefur látið drauma sína rætast og trúir þar að auki á að sópa öllum vandamálum undir teppið. En þar sem þau koma nú fram fyrir alþjóð hafa þau lært af reynslunni og boða nýtt fagnaðarerindi undir skammstöfuninni G(leði)L(itir)Á(st)F(águn) – GLÁF – sem mun gera okkur öll frjáls og hamingjusöm.

Það vantaði ekkert upp á fagmennsku Bjarna og Sigríðar Eyrúnar í þessari dýrlegu sýningu. Þau eru fallegt par og föngulegt, hafa góðan textaframburð og fallegar og hreint magnaðar raddir. Að vísu voru raddirnar magnaðar upp aukalega sem kannski er ástæðulaust í þessum litla sal sem ætti að vera auðvelt að fylla þegar gestir sitja þar að auki hljóðir. Þó skal ekki kvartað undan því en bara látið vel af þessari dillandi skemmtun.

 

Silja Aðalsteinsdóttir