Leikhópurinn RaTaTam frumsýndi í gærkvöldi verk sitt HÚH! Best í heimi á litla sviði Borgarleikhússins undir stjórn Charlotte Bøving. Þar skoða þau sjálfsmynd Íslendinga í gegnum sögur úr eigin lífi og sínar eigin sjálfsmyndir og eru ekki miskunnsöm í sinn garð eða okkar hinna. Við erum kannski glæsileg á að líta, vel klædd, glaðleg í fasi, með flotta ferilskrá, dáð og öfunduð, en bak við framhliðina erum við svekkt á að vera ekki metin að verðleikum; við erum jafnvel feit og ólöguleg þótt það sjáist ekki utan á okkur; kannski erum við í raun og veru bara ljótir og klunnalegir apar ef vel væri að gáð.
Þátttakendur eru fimm að þessu sinni, öll gamalkunnir RaTaTam-leikarar: Albert Halldórsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Guðrún Bjarnadóttir, Halldóra Rut Baldursdóttir og Hildur Magnúsdóttir. Erfitt á ég með að trúa því að allt sem þau segja úr lífi sínu sé satt en það er þá eflaust satt í lífi einhverra annarra. Albert dró sjálfan sig sundur og saman í nöpru háði og seint verður grátbragurinn hans toppaður. Guðmundur Ingi kynnti sig sem „made in sveitin“ og sagði átakanlega sögu af ósigri ungs drengs við smölun. Guðrún talaði svo niðurlægjandi um eigin fallegu persónu að maður setti upp skeifu og þegar Halldóra Rut lýsti lífinu eins og það var þegar hún var lítil stúlka fékk ég hreinlega andnauð af vanlíðan! Hildur kynnti sig í fyrstu sem glimmerpíu sem væri ævinlega glöð og hress en innan í grönnum glitrandi kroppnum leyndist annar sem keppirnir héngu utan á og tróð sér í hvert bikiníið utan yfir annað … Ofbeldisfullur leikur hennar að trompetinum sínum var sjón að sjá! Charlotte kallar þetta „nútíma Íslendingasögur“ í viðtali í Morgunblaðinu og það er ágætlega orðað. Þetta eru sögurnar sem við segjum engum en læðast kannski að okkur þegar við birtum myndir úr okkar sigursæla lífi á netinu.
Þó að dramatíkin byrjaði snemma í sýningunni var góður og stöðugur stígandi í henni sem negldi mann fastan í sætið. Hreinskilnin var í senn nístandi og hræðilega fyndin. Þórunn María Jónsdóttir skapaði sýningunni skemmtilega umgjörð og búningarnir voru margvíslegir og margir óvæntir. Helgi Svavar Helgason og RaTaTam eru skrifuð fyrir tónlistinni en allir þátttakendur eru mjög músíkalskir og beinskeyttir söngtextarnir eru leikhópsins eins og leiktextinn að öðru leyti. Loks má bæta því við að lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar tók virkan þátt í afhjúpuninni.