Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi í gærkvöldi á stóra sviði Borgarleikhússins leikgerð Bjarna Jónssonar og Grétu Kristínar Ómarsdóttur á skáldverkinu Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Gréta Kristín leikstýrir einnig. Viðamikla stálgrindarleikmyndina sem er á fleygiferð um sviðið alla sýninguna hannaði Kristinn Arnar Sigurðsson en Brynja Björnsdóttir er meðhöfundur hennar. Lýsingin var hönnuð af Pálma Jónssyni, búningar eru úthugsaðir af Filippíu Elísdóttur, Unnsteinn Manuel Stefánsson sér um tónlistarstjórn og undurfalleg hljóðmyndin er verk Unnsteins og Jóns Arnar Eiríkssonar. Leikararnir gegna flestir nokkrum hlutverkum og voru leikgervi Elínar S. Gísladóttur virkilega markviss. Myndbönd Pálma og Brynju voru líka afar skemmtilega valin og unnin.
Við fyrstu sýn virðist Ungfrú Ísland fjalla um unga konu með skáldadrauma á tímum þegar konur áttu erfitt uppdráttar á bókmenntasviðinu. En þegar nánar er að gáð ganga allar persónur verksins með meðvitaða eða ómeðvitaða drauma sem ekki rætast. Hekla (Íris Tanja Flygenring) skrifar „öðruvísi“ bækur en útgefandinn (Jörundur Ragnarsson) hefur áður gefið út og honum líst ekki á það sem hún sendir honum. Þó fær hún birt eftir sig undir karlmannsnafni. Gottskálk faðir Heklu (Valur Freyr Einarsson) er vissulega bóndi að atvinnu en í huga sínum og hjarta er hann eldfjallafræðingur. Móðir hennar Steinþóra (Sólveig Arnarsdóttir) fær ekki einu sinni að ráða nafni dóttur sinnar. Besti vinur Heklu og sætasti strákurinn í sveitinni, Jón John (Fannar Arnarsson) fer á sjóinn þó að hann sé fæddur hönnuður og þrái að skapa föt – helst starfa á saumastofu Þjóðleikhússins. Ísey vinkona Heklu (Birna Pétursdóttir) notar hverja lausa stund til að skrifa í stílabók sem hún felur í þvottabalanum fyrir manni sínum (Haraldur Ari Stefánsson) … Á hverju strái er ófullnægð manneskja og þjóðfélag verksins er staðnað og steingelt. Meira að segja Starkaður skáld (Hjörtur Jóhann Jónsson), hjásvæfill Heklu, er óglaður. Vissulega má hann skrifa og fær einstaka sinnum birt (undir eigin nafni) en hann veit í hjarta sínu að hann er ekki nógu góður og í rauninni ætti hann að frekar að gangast upp í starfi sínu sem bókavörður. Eina ánægða persónan er Örn, litli bróðir Heklu (Vilhelm Neto), en hann er líka einföld sál.
Við fáum að fylgjast með því þessar vikurnar í sjónvarpsþáttunum um Vigdísi Finnbogadóttur hvernig komið var fram við konur fyrr á tímum ef þær höfðu metnað til annars en heimilisstarfa. Þegar Hekla kemur í bæinn úr Dölunum tvítug stúlka árið 1963 með sína rithöfundardrauma ræður hún sig sem gengilbeinu á Hótel Borg. Röggsöm og raunsæ starfssystir hennar, Sirrý (Esther Talía Casey), varar hana við fínu köllunum með vindlana, segir henni að þeir klípi í rass, fari upp undir pils og finnist það sjálfsagður réttur þeirra. Sirrý segir að þetta láti stúlkur yfir sig ganga en Hekla gerir það ekki. Og Sirrý verður hissa þegar Heklu hefnist ekki fyrir ósvífnina. En málið er að Hekla er falleg. Fésýslumaðurinn (Jörundur Ragnarsson) býður henni síða kjóla og far með sér til Long Island ef hún samþykki að keppa um titilinn Fegurðardrottning Íslands. Hekla hafnar því en Sirrý sendir hana til öryggis til Rannveigar (Þórunn Arna Kristjánsdóttir) sem tók þeim gylliboðum á sínum tíma og fór illa á því.
Það er ekki alveg nógu sannfærandi að Heklu gangi ekki að fá verk sín útgefin undir eigin nafni þó að þau séu nýstárleg. Vissulega voru karlarnir meira áberandi í rithöfundastétt en Ásta Sigurðardóttir var komin fram, Jóhanna Kristjónsdóttir, Jakobína Sigurðardóttir, svo að fáeinar séu nefndar, og Svava Jakobsdóttir er alveg á næstu grösum. Kannski hefði verið betra að setja söguna niður tíu árum fyrr – en þegar maður sér búningana hennar Filippíu verður alveg skiljanlegt að velja einmitt árið 1963. Fötin sem Jón John saumar eða kaupir í útlendum höfnum á Heklu eru alveg æðisleg, og það rifjast upp fyrir mér, jafnöldru Heklu, hvað maður var ótrúlega smart á þessum tíma! Íris Tanja minnir jafnvel á sjálfa Twiggy þegar hún pósar fyrir Jón John í skrúðanum.
Ungfrú Ísland er ekki beinlínis leikrit; það er miklu fremur glitrandi myndasafn upp úr skáldsögunni. Leikgerðin fylgir skáldsögunni vel en hressandi var á einstaka stað þegar raunsæi sögunnar vék fyrir hugsunum eða hugarórum Heklu, eins og í heimsókn þeirra Starkaðar til móður hans (Sólveig Arnarsdóttir) í Hveragerði eða þegar Gottskálk kallar fram þær fegurðardrottningar sem honum finnst mest koma til. Þar sem víðar naut Valur Freyr sín alveg sérstaklega vel í hlutverki gamla bóndans. Fyrir utan Írisi Tönju fær hver leikari stutt atriði, mörg eða fá, til að skapa persónurnar sínar, og lifna auðvitað ekki allar. Þó fá nokkrar persónur að skína, einkum bernskuvinirnir tveir, Jón John og Ísey. Birna gerir Íseyju fyndna og fulla af þversögnum – hún gæti átt fyrirmynd sína í Ingibjörgu Jónsdóttur rithöfundi. En eftir á að hyggja held ég að Jón John muni verða aðalpersóna sýningarinnar í huga mínum. Bæði leikur Fannar hann afar vel og svo verður barátta Jóns sem homma svo skýr og sár.
Sjálf verður Hekla dálítið véfréttarleg, bæði í bók og sýningu, það er hún sem miðlar sögunni og lætur ekki mikið uppi sjálf. Íris Tanja fer vel með hlutverkið og ber líka vel titilinn.
Þetta er skemmtileg sýning, margt að sjá og velta vöngum yfir. Ég ímynda mér að hún verði ennþá meira nýnæmi fyrir þau sem ekki hafa lesið bókina og hvet þau alveg sérstaklega til að fara og sjá.
Silja Aðalsteinsdóttir