Nígeríusvindlararnir svonefndu hafa tekið upp nýja fjáröflunaraðferð. Í stað ópersónulegra (en hjartaskerandi) bænarbréfa frá mönnum sem af pólitískum ástæðum komast ekki í peningana sína eru þeir farnir að senda persónuleg bréf á ákveðið fólk. Til dæmis fékk ég á dögunum tilkynningu um að virtur aðili af Aðalsteinsdóttir-ættinni, mister Alan Aðalsteinsdóttir, hefði fallið frá í Afríku og látið eftir sig ófafé sem ég þyrfti bara að rétta út höndina eftir. Þetta er hugkvæmt fólk, þó ekki sé það alltaf nægilega vel upplýst um smáatriði eins og nafnasiði smáþjóða, og nú hafa Nígeríusvindlararnir fengið sína eigin leiksýningu í sjálfu Þjóðleikhúsi Íslendinga. Ég er viss um að það þætti þeim gaman að frétta.
Það er hópurinn 16 elskendur sem hefur skapað leiksýninguna um Nígeríusvindlið og þátttakendur ganga svo langt að hringja í svindlara sem þeir hafa komist í samband við meðan á sýningunni stendur. Maður er að minnsta kosti látinn halda það þó að vel gætu þessi samtöl verið af bandi. Inn á milli er þessum sérkennilega atvinnuvegi lýst í máli og athöfnum. Hann reynist vera mun arðbærari en ég ímyndaði mér. Sjálf get ég ekki með nokkru móti skilið fólk sem tekur mark á þessum bréfum en í fróðlegum texta verksins kom fram að á hverri sekúndu borgi ríka fólkið á Vesturlöndum að jafnaði eina milljón inn á afríska bankareikninga. Getur þetta verið satt?
Þetta reynist þó ekki vera aðalatriði verksins heldur hvað við getum verið nærri því að fara svipaðar leiðir hér á landi. Þá hugmynd hefði vel verið hægt að vinna betur í lengri texta og þá hefði ekki þurft að dansa svona mikið.
En sýningin er vissulega eldfjörug, sviðið mjög skemmtilegt og þátttakendur hver öðrum liprari og snjallari í dansi og söng. Ástæðulaust er að nefna eitt nafn frekar en annað, þetta eru jafningjar og elskendur.