Fyrst af öllu langar mig til að segja að miðað við metnaðinn, alúðina og hæfileikana sem Leikfélag MH og MÍT leggja í sýningu sína á Söngvaseið ættu þau skilið að sýna hana á almennilegu sviði í sal þar sem alla vega meiri hluti gesta gæti notið hennar til fulls. Mikligarður í Hamrahlíðarskólanum er alveg afleitur en þar sýna þau samt og maður gerir sitt ýtrasta til að ýta ergelsinu úr huga sér yfir lélegu útsýni og njóta þess sem fram er borið. Það er heldur ekkert smávegis! Og líka má strax hæla hljóðkerfinu sem brást ekki. Notuð er þýðing Flosa Ólafssonar (þótt ekki sé þess getið í leikskrá) en hópurinn lagar hana að sínum þörfum.
Söngleikurinn Söngvaseiður eftir Richard Rodgers (tónlistin) og Oscar Hammerstein II (textinn) var frumsýndur á sviði 1959 og sígræna kvikmyndin, sem skartaði Julie Andrews í hlutverki barnfóstrunnar Maríu, er frá 1965. Hann hefur verið settur upp nokkrum sinnum hér á landi; minnisstæðasta sýningin í mínum huga er sú síðasta sem ég sá, sú sem Þórhallur Sigurðsson stýrði í Borgarleikhúsinu árið 2009 með Valgerði Guðnadóttur og Jóhannesi Hauk Jóhannessyni í aðalhlutverkum. Mér fannst Valgerður þá jafnast alveg á við Julie Andrews í hlutverkinu og það var undur að upplifa menntaskólanemann Unu Ragnarsdóttur leggja hlutverkið undir sig eins og þrautþjálfuð söng- og leikkona og gefa eldri og reyndari leikkonum lítið eftir. Gleðin og gæskan sem stafaði frá henni í hlutverkinu var beinlínis áþreifanleg.
Það er ekki úr vegi að rifja upp söguna af fjölskyldunni von Trapp á okkar tímum þegar ofbeldisfull öfl gera sig gildandi æ oftar og víðar og árásarstríð geisar í okkar heimshluta. Ég ímynda mér að börnin sem sóttu síðdegissýninguna í MH í gær hafi spurt margs þegar heim kom. Sagan er um sjö barna fjölskyldu sem þarf að flýja heimili sitt undan ofstopamönnum og kemst naumlega undan þeim, slík saga snertir börn og unglinga sérstaklega því að það liggur beint við að samsama sig þessu fólki. Barnahópurinn var afskaplega vel saman settur og furða hve vel tókst að sýna aldursmun á krökkunum þótt öll hljóti leikararnir að vera á svipuðum aldri. Dýrleif Kristín Flókadóttir var greinilega „elst“ í hlutverki Liesl, elstu dótturinnar, og Rakel Rut Kristjánsdóttir gat vel verið fimm ára í hlutverki Gretl, þeirrar yngstu, svo sannfærandi ung var hún. Inn á milli röðuðu sér Atli Svavarsson (Friedrich), Jasmín Eva Sigurðardóttir (Louisa), Jökull Jónsson (Kurt), Kristbjörg Katla Hinriksdóttir (Marta) og Tinna Tynes (Birgitta). Öll sungu þau og léku af léttleika og smitandi fjöri. Föðurinn, kaftein von Trapp, leikur og syngur Sölvi Martinsson Kollmar og var stífur og drumbslegur eins og hlutverkið krefst og söng vel.
Sagan hefst í klaustrinu þar sem María er ungnunna og kirkjusöngur nunnanna hljómaði fagurlega undir forsöng abbadísarinnar sem Oddný Þórarinsdóttir túlkaði af innileik og söng erfiðustu lögin í verkinu hreint ótrúlega vel með sinni styrku altrödd. Í húsi kafteinsins eru yfirþjónn og ráðskona sem Daði Víðisson og María Þrastardóttir léku og bættu heilmiklum húmor í alvarleikann ásamt Arnaldi Halldórssyni í hlutverki Max Dettweiler, skemmtanastjórans sem ræður fjölskylduna til að syngja á héraðshátíð og bjargar með því lífi hennar, eiginlega óvart.
Alls eru leikarar, söngvarar og dansarar í sýningunni tæplega hálft hundrað og Bjarti Erni Bachmann leikstjóra vandi á höndum að koma þeim fyrir á grunnu sviðinu. Það tókst merkilega vel, jafnvel í fjölmennustu atriðunum, og hann á hrós skilið fyrir öfluga stjórn á sínum stóra hópi. Það þarf góða rýmisgreind til að raða öllu upp þannig að vel fari en hafa um leið allt á hreyfingu! Hljómsveitarstjórinn Agnar Már Magnússon á líka skilið stóra rós og hljómsveitin hans, skipuð nemendum Menntaskólans í tónlist, var býsna góð. Agnar Már tónstýrði Söngvaseið í Borgarleikhúsinu fyrir 15 árum og hefur engu gleymt.
Að öllu samanlögðu er þessi sýning algert kraftaverk og ef vel væri ættu þau að fá gott svið lánað í sumar og sýna hana fram á haust!
Silja Aðalsteinsdóttir