Í Tjarnarbíó er nú sýnd ný ópera, Brím, eftir Friðrik Margrétar-Guðmundsson við texta eftir Adolf Smára Unnarsson sem einnig leikstýrir. Ég sá aðra sýningu á verkinu í gærkvöldi en það var frumsýnt 13. mars. Tónlistarstjóri er Sævar Helgi Jóhannsson sem einnig leikur á píanó í fjögurra manna hljómsveit á sviðinu. Leikmynd og búninga hannar Auður Ösp Guðmundsdóttir, Magnús Thorlacius er ljósahönnuður en um myndbönd og tæknilegar útfærslur sér Fjölnir Gíslason. Myndböndin eru tekin og sýnd samtímis sem er ansi flott en sá galli var á að hljóð og munnhreyfingar voru ekki alveg í takt framan af.
Verkið hefst á forsögu sem okkur er sögð af tveim sögumönnum (Ólafur Freyr Birkisson, Margrét Björk Daðadóttir) um leið og við sjáum og heyrum örlagavald verksins, Karl Brím, frægasta listamann þjóðarinnar (Áslákur Ingvarsson) syngja þunglyndislega aríu um listina og lífið að handan. Söng hans er varpað er á stóra hvíta fleka sem mynda leiksviðið. Í ljós kemur að Karl Brím lést um fertugt en skildi eftir sig dótturina Nínu, þá þriggja ára. Eftir þennan forleik flyst verkið til samtímans.
Nína Brím (Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir) er nú fullvaxin og á útskriftarsýningu hennar úr virtum listaskóla í Amsterdam býður Hrafnhildur, eigandi gallerís á Íslandi (Hanna Dóra Sturludóttir), henni einkasýningu strax um haustið. Nína er hamingjusöm og spennt en syngur líka um óttann um að standast ekki kröfurnar, ótta sem blandast söknuði eftir föðurnum sem hún missti í bernsku. En hún er ung og falleg kona, full af lífsþrá og við fáum skyndimyndir af heitu sumri í Amsterdam þar sem kærastinn (Þórhallur Auður Helgason) er ýmist í náðinni eða úti í kuldanum.
Á sama tíma syngur aðstoðarstúlka í galleríinu, Margrét (Björk Níelsdóttir) um drauminn um að fá að sýna vatnslitamyndirnar sínar í galleríinu. Hrafnhildur skoðar möppuna hennar og segir eitthvað elskulegt en bendir henni á að enginn þekki hana og hún muni ekki selja neitt, þess vegna borgi sig alls ekki fyrir galleríið að sýna verkin hennar. Margrét tekur þetta nærri sér og ekki batnar líðan hennar þegar hún sér Nínu Brím, þessa „forréttindatík“ sem þarf ekkert nema nafnið til að gallerí heimsins standi henni opin. Hún fylgist öfundsjúk með því þegar auðmaðurinn Benjamín (Unnsteinn Árnason) vill kaupa verk Nínu áður en sýningin opnar – hann er gráðugur í að eignast Brím-nafnið þó að hann óttist í aðra röndina að hann sé að láta plata sig. Er verkið hennar „kannski bara eitthvað frat“? Er Nína Brím alvöru listamaður eða nafnið tómt?
Þetta er merkilegt efni sem býður upp á innri og ytri átök í tónlist né texta. Textinn er á hressilegu nútímamáli með hiki og slettum þar sem það á við. Tónlistin dýpkar og stækkar samtölin, breiðir úr og ýtir undir dramatíkina enda bæði afar vel sungin og virkilega vel leikin. Hanna Dóra er einstaklega glæsileg söngkona og túlkaði þessa framsýnu markaðsmanneskju af list og sannfæringu. Dúettar hennar og Unnsteins um kaupin á listaverkinu voru lævíslegir og margfaldir – og mikið sem Unnsteinn var sannfærandi kófdrukkinn peningamaður, bæði rödd og hreyfingar! Dúettar þeirra Hönnu Dóru og Þórgunnar fengu sívaxandi þunga uns allt sprakk að lokum. En áhrifamesti dúettinn var milli ungu listakvennanna sem Björk og Þórgunnur léku og sungu af heillandi innlifun; þær hafa báðar einstaklega fallegar og líka skemmtilega ólíkar raddir, önnur bjartur sópran og hin dramatískur alt. Óvænt innkoma Ásláks Ingvarssonar var svo annar hátindur sýningarinnar, hann er einstakur söngvari og flytur texta eins vel og nokkur líbrettisti getur látið sig dreyma um.
Búningur og gervi Hönnu Dóru undirstrikaði veldi Hrafnhildar vel en búningar ungu kvennanna voru ekki eins vel heppnaðir. Stúlka sem starfar í stóru galleríi klæðir sig öðruvísi en Margrét er klædd í sýningunni og ung listaspíra á borð við Nínu Brím er mun töffaralegar búin, ímyndar maður sér, en í gamaldags kjól og hælaskóm. Búningar gesta á opnun voru vel heppnaðir og auðmaðurinn var alveg á réttum nótum.
Leikmyndin samanstendur af stórum hvítum flekum eins og hæfði sýningarsal og tóku vel við „live“ myndböndunum sem voru mikið notuð, raunar helst til mikið, að mér fannst, því að leikhúsið er ekki svo stórt að það þurfi að blása andlit söngvaranna upp eins og í bíó. Einkum fannst mér draga úr dramatíkinni undir lokin að láta atburði gerast að hálfu leyti baksviðs. En Brím er dúndurverk og fagnaðarefni hvað óperan er í mikilli sókn hér á landi. Þetta er önnur ópera sem þeir Friðrik og Adold Smári gera saman, allt öðruvísi en Ekkert er sorglegra en manneskjan (2020), og tilhlökkunarefni að sjá hvað þeir gera næst!
Silja Aðalsteinsdóttir