UmskiptingurÞjóðleikhúsið frumsýndi í gær í kjallara Kassans barnaleikritið Umskipting eftir Sigrúnu Eldjárn undir stjórn Söru Martí Guðmundsdóttur. Þar hafði Snorri Freyr Hilmarsson leikmyndahönnuður snúið öllu á langveginn þannig að sviðið varð ógnarlangur klettaveggur með fosssprænum úr ljósi og hentugum mosagrónum syllum sem mátti leggjast í og klifra eftir. Þetta var bæði fallegt og bauð upp á marga felustaði, hreyfingu og fjör.

Mannabörnin Sævar (Arnaldur Halldórsson) og Bella (Katla Líf Drífu-Louisdóttir) eru í berjamó fjarri sumarbústað fjölskyldunnar meðan foreldrar þeirra eru í fjallgöngu. Sævar skreppur frá til að taka nokkrar ljósmyndir en meðan hann er í burtu verður Bella bæði fúl og reið yfir að vera skilin eftir og felur sig fyrir honum. En það er ekki Sævar sem finnur hana heldur Viktoría tröllskessa (Arndís Hrönn Egilsdóttir) sem verður svo heilluð af hinu fríða mannsbarni að hún rænir henni en skilur eftir yngsta son sinn, Steina tröllabarn (Auðunn Sölvi Hugason) í staðinn. Sævari bregður eðlilega í brún þegar hann kemur aftur þó ekki sé laust við að hann sé hrifinn af Steina sem virðist mun kátari en fýlubrókin hún systir hans. En Steini vill finna mömmu sína (þó að hún hafi skilið hann eftir) og Sævar þarf að finna Bellu og saman leggja þeir í leiðangur.

Hingað til er þetta kunnuglegt tilbrigði við gamlar sögur en í leikritinu fá Sævar og Steini óvænta hjálp frá ofurfjölskyldu úr nútímanum, sjálfum Ofur-pabba (Hjalti Rúnar Jónsson) og börnum hans, Ofur-Sól (Tinna Margrét Hrafnkelsdóttir) og Ofur-Mána (Andri Páll Guðmundsson). Þau þurfa að komast yfir þrjá hluti, suma vandfundna, til að skipta aftur á börnunum en auðvitað vefst fátt fyrir þessum aðilum þegar þeir leggja allir saman.

Þetta er gríðarlega hress og skemmtileg sýning, vel samin, full af óvæntum uppákomum og fjörugri og söngvænni tónlist eftir Ragnhildi Gísladóttur. Búningar Snorra Freys voru sjón að sjá, einkum fatnaður tröllanna sem var alveg geggjaður og stakk dásamlega í stúf við búninga ofurhetjanna. Þarna mættust gamli og nýi tíminn á hreint ævintýralegan hátt! Jóhann Friðrik Ágústsson ljósahönnuður lét ljósin leika um klettaborgina og Rebecca Hidalgo sá um bráðskemmtilegar sviðshreyfingar.

 

Hraði og fjör einkenndu líka leikinn sem var þrunginn gleði. Þar var fremst meðal jafningja Arndís Hrönn sem naut sín í botn í hlutverki hinnar fegurðarsjúku og ljóðrænu Viktoríu tröllkonu. Sem einstæð móðir fagnar hún Ofur-pabba sérstaklega og vísast að saga þeirra haldi áfram eftir að sögunni af umskiptingnum lýkur. Auðunn Sölvi og Katla Líf sköpuðu skarpar andstæður mannabarna og trölla í sínum hlutverkum og gerðu bæði ljómandi vel, Auðunn er ótrúlega fimur en Kötlu þarf að hrósa sérstaklega fyrir sönginn. Einsöngur hennar um einmanaleikann var áhrifamikið atriði mitt í gáskanum.

Umskiptingur ber öll einkenni bestu verka Sigrúnar Eldjárn: í senn þjóðleg og nútímaleg saga, vel skrifaður og fyndinn texti, fjörug atburðarás og fallegur boðskapur. Þegar svo við bætist dillandi tónlist, listilega falleg umgjörð og leikandi léttur leikur þá er erfitt að biðja um meira. Innilegar hamingjuóskir!

Silja Aðalsteinsdóttir