Unnur Ösp Stefánsdóttir leikstjóri og hennar einvalalið frumsýndu söngleikinn Mamma mia á stóra sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi við nánast stöðug fagnaðarlæti. Hver manneskja í salnum nauðaþekkti auðvitað þetta verk, ef ekki af sviði þá úr bíó, auk þess sem lögin hafa hljómað áratugum saman í eyrum okkar. Þó verður maður aldrei leiður á þeim. Og sýningin var þrungin þeirri sönnu lífsgleði sem söngleikjum þarf að fylgja.
Söguna samdi Catherine Johnson utan um lög og texta þeirra Abba-liða, Bennys Andersson og Björns Ulvaeus, og hún er ekki flókin en svo skemmtilega djörf að eiginlega er merkilegt hvað söngleikurinn hefur farið víða um okkar mis-umburðarlynda heim. Donna (Jóhanna Vigdís Arnardóttir) rekur hótel á grískri eyju. Fyrir tuttugu og einu ári elskaði hún Sam (Helgi Björnsson) en hann var trúlofaður annarri heima hjá sér og eftir að hann fór sló hún sér í skyndi upp með tveim öðrum gæjum í huggunarskyni, Bill (Halldór Gylfason) og Harry (Valur Freyr Einarsson). Úr þessum ástum varð eitt barn, dóttirin Sofie (Þórunn Arna Kristjánsdóttir) sem Donna hefur alið upp ein – því aldrei sagði hún neinum af þessum mögulegu feðrum frá barninu. Nú ætlar Sofie að giftast Sky (Eysteinn Sigurðsson) og vill nota tækifærið til að komast að því hver faðir hennar er. Hún býður öllum þrem gömlu kærustunum hennar mömmu sinnar í brúðkaupið, þeir þiggja allir boðið svo úr verður talsverð ringulreið á eynni. Auk fjölda eyjarskeggja koma í veisluna tvær vinkonur og gamlar söngsystur Donnu, þær Tanja (Brynhildur Guðjónsdóttir) og Rosie (Maríanna Clara Lúthersdóttir) og auka heldur á glundroðann. Vinkonur Sofie koma líka í brúðkaupið, Lísa (Vala Kristín Eiríksdóttir) og Ali (Þuríður Blær Jóhannsdóttir) og vinir Sky eru á sínum stað, Peppi (Arnar Dan Kristjánsson) og Eddi (Ernesto Camilo Aldazabal Valdes). Ungmennin mynduðu kátan hóp ásamt dönsurum og gáfu mynd af draumaveröld þar sem lífsþorstinn ríkir einn.
Það skal sagt strax að sýningin er alveg með ólíkindum fagleg og flott. Þarna eru söng- og dansatriði, gríðarlega hröð og vandasöm, sem flutt eru hnökralaust. Dansar Lee Proud eru fyndnir og fjörugir og lítil takmörk fyrir því sem hann treystir leikurum og dönsurum til að gera. Litríkt og þénugt svið Ilmar Stefánsdóttur snýst hring eftir hring og sýnir furðumarga parta eyjarinnar auk hótelsins, og búningar Filippíu I. Elísdóttur eru fleiri og fjölbreyttari en tölu verði komið á. Hljómsveit Jóns Ólafssonar situr uppi í þakskála hótelsins og kann sitt fag, mér fannst hún kannski aðeins of hávær á köflum af því að helst vildi maður ná öllum söngtextunum hans Þórarins Eldjárn, þeir eru liprir í söng og segja samt allt sem þarf að koma til skila.
Augnablik er eins og mig hafi dreymt,
andartak, og allt er grafið og gleymt.
Mamma mía, enn og aftur þú,
æ, æ, ýmislegt að varast.
Mamma mía, veit hver kjaftur nú,
æ, æ, að ég er að farast.
Það er til fyrirmyndar að prenta alla söngvana í leikskrá svo við getum æft okkur heima.
Ekki er hægt að ímynda sér ákjósanlegri Donnu en Jóhönnu Vigdísi. Hún er afar falleg kona og röddin alveg einstök. Hún á líka auðvelt með að vera einlæg í leik og hér hefur hún leyfi til að vera eins hjartanleg og örvæntingarfull og hana lystir. Atriði þeirra mæðgnanna voru yndisleg, ekki síst atriðið með eina laginu sem var samið sérstaklega fyrir sýninguna, „Gengur mér úr greipum“. Þórunn Arna er vel valin í hlutverk Sofie, hún er svo ung og sæt og hefur einstaklega fallegt bros, en hún leikur betur en hún syngur og Jóhanna Vigdís þyrfti að kenna henni að slaka á í herðunum.
Helgi, Halldór og Valur Freyr smellpössuðu líka í sín hlutverk. Söngatriði Donnu með Harry var afskaplega vel heppnað. Bæði er textinn skemmtilegur („Enn ég man svo vel / okkar sumar“) og svo söng Valur Freyr virkilega vel og með hæfilegum húmor manns sem finnst hann allt í einu hafa eignast nýtt líf og nýtur þess. En það voru söngatriði Donnu og Sams sem mestan spenning vöktu í salnum enda brást Helgi Björnsson ekki aðdáendum sínum. Söngur Donnu til Sams, („Allt fær sá sem vann“) var nístandi sár og sömuleiðis samsöngur þeirra, „S.O.S“. Átök þeirra í því lagi voru mjög sannfærandi og sendu gæsahúðina niður allan hrygg.
Söngvar þeirra gömlu söngsystranna voru líka vel heppnaðir, bæði gömlu númerin þeirra og „Chiquitita“, bráðfyndinn söngur aðkomukvennanna til að fá Donnu til að tala um raunir sínar. Þær eru heldur ekki feimnar við að orða hlutina: „Þú sem varst svo örugg og sterk / minnir nú á vængbrotna kríu!“ Söngur Rosie til Bills, „Taktu séns á mér“ var gróteskur og bráðfyndinn. Maríanna dró lauflétt fram skondið rímið í byrjuninni: „Ef þér hugur snýst / get ég alveg … nýst“! Einn helsti grínhápunktur sýningarinnar var „Veit hún mamma það?“ þegar Tanja reynir að flæma unga elskhugann Peppi frá sér að morgni brúðkaupsdagsins, skelþunn eftir gæsunina. Svona innan sviga er freistandi að nefna að aldrei held ég að nokkur leikkona í heimi hafi farið stærri heljarstökk milli hlutverka en Brynhildur gerir þessar vikurnar þar sem hún leikur annars vegar lögspekinginn Njál á Bergþórshvoli og hins vegar marggiftu kerluna Tönju. En gerir báðum jafnmögnuð skil.
Eins og frægt er orðið hafa þegar um fjörutíu þúsund manns keypt miða á Mamma mia. Þeir geta alveg rólegir leyft sér að hlakka til. Ég sendi mínar innilegustu hamingjuóskir.