Listaháskólinn hefur staðið fyrir mikilli leikhúsveislu undanfarið því útskriftarnemendur á sviðshöfundabraut hafa frumsýnt tíu verk víðsvegar í Reykjavík í maímánuði auk þess sem nýju leikararnir frumsýndu Mutter Courage eftir Bertolt Brecht norður á Akureyri í þýðingu Ólafs Stefánssonar og undir stjórn Mörtu Nordal. Þau frumsýndu svo aftur í Kassa Þjóðleikhússins í gærkvöldi.
Mér tókst ekki að sjá nema tvær sýningar nýrra sviðshöfunda, Kæra vin eftir Adolf Smára Unnarsson í Tjarnarbíó og Inni eftir Birni Jón Sigurðsson á leiksviði Listaháskólans í Laugarnesi. Þetta voru hvort tveggja skemmtilegar sýningar, settar saman úr mörgum stuttum atriðum, en ívið meira samhengi var milli atriða í verki Birnis Jóns. Mutter Courage er líka sett saman úr mörgum atriðum og verkið gerist á löngum tíma en þar er samhengið alveg skýrt og boðskapurinn líka: Stríð er viðbjóður og dregur fram það versta í hverjum manni en laun dyggðarinnar eru smánarlegur dauði.
Sagan fylgir farandsalanum Önnu Fierling, sem gengur undir gælunafninu Mutter Courage („Mamma hetja“: Ásthildur Úa Sigurðardóttir, Berglind Halla Elíasdóttir og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir) á árum þrjátíu ára stríðsins í Evrópu á 17. öld. Hún eltir sænska herinn með vagninn sinn og hefur með sér börnin sín þrjú, dótturina Katrínu (Rakel Ýr Stefánsdóttir) sem er mállaus (eftir áfall í stríðinu) og synina Eilíf (Gunnar Smári Jóhannesson) og Svissost (Hildur Vala Baldursdóttir). Liðsforinginn (Jónas Alfreð Birkisson) vill fá þessa stráka í herinn en það vill Anna ekki. Því þó að Anna lifi á stríðinu með því að pranga alls konar varningi inn á hermennina þá vill hún ekki að börnin hennar taki þátt í því. Það hljóta þau þó að gera og ekkert þeirra kemst lífs af úr þeim hildarleik. Báðir synirnir eru skotnir af eigin liðsmönnum fyrir meint afbrot. Dótturinni er nauðgað af drukknum hermanni þegar hún er í sendiför fyrir móður sína og í lokin er hún skotin fyrir að reyna að vekja borgarbúa og vara þá við yfirvofandi innrás. Eftir stendur Anna með vagninn sinn, svipt öllu. Meira að segja hefur herdeildarhóran Yvette (Steinunn Arinbjarnardóttir) afhjúpað biðil Önnu (Jónas Alfreð) sem kvennabósa af versta tagi þannig að ekki á hún hann lengur að í lokin.
Í uppsetningu Mörtu Nordal er aðalhlutverkinu skipt milli þriggja leikaraefna og það er, þykist ég vita, alveg í anda Brechts og framandgervingar hans. Með því er bent á að Mutter Courage er ekki aðeins ákveðin persóna heldur fyrirbæri, fulltrúi þeirra sem lifa á stríði, vilja græða á stríði; Anna er það sem kallað var „stríðsgróðamaður“ á Íslandi á árum seinni heimsstyrjaldar þó að sannarlega sé „gróðinn“ ekki mikill í hennar tilviki. Brecht vildi ekki að áhorfendur gleymdu sér í samkennd með Önnu, þeir áttu að horfa gagnrýnum augum á græðgi hennar og sjá villu hennar vegar. Með því að dreifa leiktexta Önnu á þrjár leikkonur verður auðveldara að hlýða þessu þó að vitanlega hafi maður samúð með sjálfsbjargarviðleitni þessarar örsnauðu, þrjósku og hugrökku konu. Stúlkurnar þrjár voru líka verulega magnaðar í túlkun sinni, hver um sig, og erfitt að gera upp á milli þeirra. Ásthildur var grimmust, Berglind lúmskust, Þórdís hafði bestu röddina í hlutverkið og var líka ástríðufyllst. Rakel Ýr gekk manni rakleitt að hjarta sem mállausa dóttirin og Steinunn var bæði skelegg og aumkunarverð í hlutverki Yvette. Persónurnar sem strákarnir tveir léku voru óttalega ómerkilegar en þeir fóru vel með sitt; einkum var Gunnar Smári góður sem herpresturinn undirföruli. Og Hildur Vala átti samúð mína í hlutverki Svissostsins sem galt fyrir heiðarleika sinn með lífinu.
Umgjörðin um sýninguna er afar skemmtileg. Auður Ösp gerir leikmynd í anda Brechts, allt sem þarf er inni á sviðinu – leikbúningar á slá til hliðar þannig að leikararnir þurfa ekki að fara út af til að skipta um föt þegar þeir skipta um hlutverk. Búningarnir hennar voru líka vel hugsaðir. Ljósahönnun Ólafs Ágústs Stefánssonar var virkur þátttakandi í sýningunni og tónlistin, sérstaklega samin fyrir þessa uppsetningu af Sævari Helga Jóhannssyni tónsmíðanema við LHÍ, var áheyrileg og spennandi. Sævar Helgi var líka á sviðinu og lék á hljóðfærið. Allt opið og gagnsætt – og rosalega skemmtilegt!
Það er mér óskiljanlegt hvers vegna þetta snilldarvel skrifaða og meinfyndna leikrit hefur ekki verið sett á svið hér á landi nema einu sinni, fyrir ríflega hálfri öld. Það á sannarlega erindi á öllum tímum, ekki síst núna þegar milljónir eru á hrakhólum undan stríðum og alltof margir mala gull á örvæntingu flóttafólks og annarra stríðshrjáðra. Ég óska Listaháskólanum til hamingju með þessa tímabæru, vekjandi og vel unnu sýningu og vona að sem allra flestir hafi tækifæri til að sjá hana.