Núna þegar ég sé Sölumaður deyr í þriðja sinn – og í annað sinn á stóra sviði Borgarleikhússins – kemur það mér einkum á óvart hvað þetta fólk hans Arthurs Miller er lágkúrulegt. Áður var ég full af vorkunnsemi með „litla bátnum í leit að höfn“ en nú finnst mér ég sjá persónurnar í skærara ljósi. Þetta er pakk sem lýgur að sjálfu sér og öðrum, kemur illa fram hvert við annað, sparkar í þá sem vilja því vel og misnotar velvilja þeirra en smjaðrar fyrir þeim sem fyrirlíta það. Leikstjórinn, Kristín Jóhannesdóttir, vill ekki að við gleymum okkur í meðaumkun, hún vill að við áttum okkur almennilega á þessu fólki. Og þegar við bætist sterkur leikur er lítil hætta á að boðskapurinn misfarist.
Vissulega er þeim vorkunn, Loman-hjónunum, Willy (Jóhann Sigurðarson) og Lindu (Sigrún Edda Björnsdóttir). Þau hafa púlað langa ævi en standa uppi með ósköp lítið í höndunum þegar fyrirvinnunni er sagt upp fyrirvaralaust. Og börnin Biff og Happy (Hjörtur Jóhann Jónsson, Rakel Ýr Stefánsdóttir) sem þau hafa alið upp í því að það eina sem gildir sé að komast áfram í lífinu, gera það gott, hvernig svo sem farið er að því, eru bæði á vondum stað. Ástæðan er fyrst og fremst lífslygin sem hjónin halda dauðahaldi í fram á ystu nöf og vangeta þeirra til að hlusta nokkurn tíma á aðra.
Þetta verður nöturlega ljóst þegar eldra barnið, eftirlætið Biff, gerir ítrekaðar tilraunir til að segja pabba sínum hvað hann sé misheppnaður og hvernig standi á því. Willy getur ekki hlustað á þetta og þaðan af síður getur hann horfst í augu við að það er hans sök að drengurinn hefur aldrei getað nýtt sér þá eðliskosti sem hann þó hefur, ekki aðeins með því að hvetja hann til að nýta sér frekar glósur Bernards í næsta húsi (Aron Már Ólafsson) en læra sjálfur heldur líka með því að svíkja það sem báðum feðgum var þó heilagast: móðurina. Atriðið á hótelinu í Boston þegar Biff kemur að föður sínum með annarri konu (Þórunn Arna Kristjánsdóttir) var svo subbulega vel gert að mann langaði að æla. Þar fannst mér líka berangursleg sviðsmyndin njóta sín best, með öllu draslinu sem þvælist fyrir fótum persónanna og eyðilegu járnrúmunum.
Upprunalegt heiti þessa verks mun hafa verið „The Inside of his Head“ enda blandast þar atvik úr langri ævi Willys, ímynduð og raunveruleg, saman við atburði síðustu daganna í lífi hans. Löngu látinn bróðir hans, Ben (Stefán Jónsson) ásækir hann aftur og aftur. Hann er stóra fyrirmyndin í huga Willys, maður sem lét alla drauma rætast jafnvel áður en hann dreymdi þá. Leikmyndahönnuðurinn Brynja Björnsdóttir gerir ýmislegt til að skilja á milli fortíðar, nútíðar og ímyndunar, notar ljós (Pálmi Jónsson), jafnvel sjálfar ljósabrýrnar sem færast upp og niður og virðast stundum ætla að loka persónurnar inni.
Kristín fær lánaða persónu úr seinni hluta leikritsins, þjóninn Stanley (Valur Freyr Einarsson) til að koma skilaboðum til áhorfenda strax í upphafi: Maðurinn er alltaf að leika hlutverk, hann er það sem hann er ekki og er ekki það sem hann er (vitnað eftir minni). Valur Freyr gerði sér góðan mat úr þessu litla atriði, var djöfullega slægur og tvíræður í fasi og á svip, eins og hann vildi vara okkur við því að taka mark á því sem eftir færi. Stefán Jónsson virtist líka tvöfaldur í roðinu sem Ben, ég átti von á því allan tímann að það kæmist upp að demantanáman væri tómur uppspuni enda var hann klæddur eins og galdrakarl. Þórunn Arna var líka ískrandi fölsk í sínu hlutverki sem hin konan, það var hrein unun að sjá hana leika hlutverk svona ólíkt öllu sem ég hef séð hana gera áður. Aron Már gaf sannfærandi mynd af stráknum í næsta húsi sem tilbiður hinn flotta Biff en fer svo langt fram úr honum án þess að hafa orð á því. Og Þorsteinn Bachmann var hlýr og slakur sem góði granninn Charlie, venjulegi maðurinn sem hefur engan áhuga á að verða merkilegur. En Esther Talíu var enginn greiði gerður með útfærslunni á atriðinu þar sem Willy hittir yfirmanninn Howard, bæði var búningurinn heftandi og svo var stóllinn óþarflega frekt tákn.
Kristín leikstjóri skiptir um kyn á tveim persónum, Howard og Happy. Löngunin til að jafna hlutföllin milli kynjanna er skiljanleg en breytir engu um það að verkið er orðið rúmlega sjötugt og ber aldurinn með sér. Rakel Ýr leikur hér sitt fyrsta hlutverk á stóru sviði en hún er mér minnisstæð úr úrskriftarsýningunni Mutter Courage hjá LHÍ í hittifyrra. Hún leikur Happy bæði sem unglingsstelpu og unga konu og naut sín betur í fortíðinni. Allir aðalleikararnir nota hendurnar mikið, baða þeim út, slá sér á lær o.s.frv. og var stundum ofgert, einkum hjá Rakel. Þetta mætti athuga.
Jóhann og Sigrún Edda héldu upp á fjörutíu ára leikafmæli sitt á frumsýningunni. Ég sagðist muna eftir Rakel Ýr í Mutter Courage enda bara tvö ár síðan, það er kannski skrítnara að ég man vel eftir þeim tveim í öllum sýningum Nemendaleikhússins 1980–´81, Peysufatadeginum 1937, Morðinu á Marat og þeirri dýrlegu Íslandsklukku. Þvílíkir snillingar sem þau eru bæði og ótrúleg gæfa að hafa notið hæfileika þeirra svona lengi og oft. Hér beita þau kunnáttu sinni á erfiðar persónur. Loman hjónin hafa verið gift lengi en þau hafa ekki lært að tala saman og því fer fjarri að þau skilji hvort annað. Þau eru óhamingjusöm og finnst það ekki vera þeim sjálfum að kenna, þau snúa blinda auganu hvort að öðru en gera óraunhæfar kröfur til barna sinna og eru beinlínis vond við þau. Allar þessar misvísandi tilfinningar voru vel tjáðar á sviðinu.
Hjörtur Jóhann leikur einu persónu verksins sem tekur út þroska í verkinu. Það er ekki alveg ljóst hvað verður til þess að Biff opnast skilningur á sjálfan sig, foreldra sína og fortíðina. Kannski verður honum bara æ erfiðara og leiðara að ljúga; það var erfitt að fylgjast með átökum þeirra Happy um það hvað á að segja við pabba gamla, hvernig á að slá ryki í augun á honum einu sinni enn. Hjörtur Jóhann skapaði persónuna af áreynslulausri innlifun og maður vonar í lokin að Biff geti gert eitthvað gott úr lífi sínu. Hann veit alltént hvað hann á ekki að gera.
Leikmynd Brynju Björnsdóttur túlkar vel óreiðuna í huga Willys Loman og var oft sláandi flott, ekki síst táknrænn sólmyrkvinn í baksýn. Búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur voru flestir vel heppnaðir, þó ekki rauði glamúr-búningurinn á Happy lokakvöldið; hún átti ekki nógu gott með að hreyfa sig í honum og það er óþægilegt að fara að taka eftir slíku þegar maður á að vera allur á valdi dramans. Tónlist Gyðu Valtýsdóttur ýtti vel undir átökin þegar það átti við, spennandi og áheyrileg.
Þýðing Kristjáns Þórðar Hrafnssonar fannst mér renna mjög vel og hljóma eðlilega. Sölumaður deyr er gott leikverk þó að það beri aldri og uppruna skýr merki og sýning Kristínar Jóhannesdóttur og Borgarleikhússins er unnin af alúð og listfengi.
Silja Aðalsteinsdóttir