Brúðuheimar og Bernd Ogrodnik frumsýndu í gær í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu og í samvinnu við Listahátíð leikgerð hans af Gamla manninum og hafinu, frægri nóvellu Ernests Hemingway sem hefur komið út á íslensku í þýðingu Björns O. Björnssonar. Hvergi er getið á upplýsingablaði með sýningunni hvort það er hans þýðing sem notuð er eða hvort gerð hefur verið ný þýðing fyrir þessa sýningu. En textinn er undurfallegur, ljóðrænn en þó kjarnyrtur, og Egill Ólafsson fór geysivel með hann. Röddin var svo seiðandi og ekta rödd gamals manns að hún minnti mest á ógleymanlega rödd Þorsteins Ö. Stephensen. Einstaklega vel valinn sögumaður og vel leikstýrt af Þórhalli Sigurðssyni.
Sögunni hefur verið líkt við Aðventu Gunnars Gunnarssonar og jafnvel giskað á að Hemingway hafi lesið enska þýðingu Aðventu og fengið hugljómun. Það er þó engin kristileg sjálfsfórn í Gamla manninum og hafinu. Santiago, öldungur Hemingways, er á veiðum fyrir sjálfan sig, þetta er hans lífsviðurværi, og sigur hans á sjálfum sér og náttúrunni er ekki líkt því eins sætur og Benedikts í Aðventu. En hið sammannlega er hið sama í báðum verkum, djúp virðingin fyrir náttúrunni og öllum skepnum hennar og tregðan til að sætta sig við að vera orðinn gamall. Hvorugur ætlar að gefast upp fyrr en hann dettur niður dauður.
Santiago gamli hefur róið bát sínum út á haf í 84 daga án þess að verða var. Hann er orðinn svo mikil fiskifæla að drengurinn Manolin (sem Valgeir Skagfjörð léði skemmtilega drengjarödd) fær ekki lengur að fara út með honum, hann er kominn á annan veiðisælli bát en hirðir um þann gamla í landi af natni, passar að hann borði eitthvað og sýnir honum sonarlega gæsku. Sagan lýsir svo næstu veiðiferð Santiagos þegar hann veiðir risafisk. En þó að honum takist eftir tveggja sólarhringa puð að drepa fiskinn er ómögulegt fyrir einn mann að koma svo stórum fiski upp í bátinn svo að gamli maðurinn verður að taka hann í slef – og missir hann í kjaftinn á hákörlunum á leiðinni í land. Sigur og ósigur í áhrifaríkri blöndu þó að vel hefði mátt gera svolítið meira úr bardaga Santiagos við hákarlana. Honum tekst jú að drepa nokkra áður en hann gefst upp.
Þetta er efnisins vegna kannski ekki sýning fyrir yngstu áhorfendur Brúðuheima en stálpuð börn ná vel efni og boðskap verksins. Auk þess er algert yndi fyrir alla aldurshópa að horfa á litríka sviðsmyndina sem Frosti Friðriksson og Högni Sigurþórsson hönnuðu með Bernd, með litla þorpinu við sjóinn, kofanum hans Santiagos og hafinu víða. Á haffletinum rær Santiago bát sínum – og komst Bernd ekki af með færri en þrjár stærðir af manni og bát til að gefa í skyn ólíkar fjarlægðir. Fyrir ofan hann fljúga fuglarnir sem Santiago spjallar við og í undirdjúpunum synda fiskarnir. Þeir sýna beitu Santiagos lengi vel lítinn áhuga uns sá stóri kemur og bítur á. Öll var sviðsmyndin listilega lýst af Lárusi Björnssyni sem sýndi okkur vel hvernig tíminn líður en tónlistin fannst mér of sundurleit. Hefði ekki verið við hæfi að hafa eingöngu kúbverska tónlist af ýmsu tagi og sleppa rómantísku evrópsku verkunum?
Bernd er ekki einhamur – það er stundum eins og hann hafi að minnsta kosti fjórar hendur, svo mikið var að gerast á sviðinu í einu. Hann er vel sýnilegur í þessari sýningu, ekkert að fela sig eða klæðast neins konar leikbúningi. Þannig fær sýningin skemmtilega framandlegan brag í anda Brechts.