Á fjölmennum leiksýningum eins og Oliver! grípur mann sú tilfinning að einmitt til slíks brúks hafi leikhús verið hugsað: til að fylla sviðið af fólki, lífi og fjöri. Þegar barnahópurinn þrammaði inn í borðsal fátækrahælisins í upphafi frumsýningar í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi og raðirnar ætluðu engan endi að taka þá fylltist ég öryggistilfinningu, þetta yrði áreiðanlega gaman.
Og það var gaman. Fjörið og æsingurinn gekk kannski einstaka sinnum nokkuð langt, mann langaði stundum til að fá smánæðisstund. En oftar en ekki var það einmitt það sem maður fékk: Oliver andvaka um nótt heima hjá útfararstjóranum, syngjandi aleinn um þrá sína eftir ást; Fagin á eintali við sjálfan sig meðan þjófagengið hans sefur; Oliver lasinn uppi í snjóhvítu rúmi heima hjá Brownlow gamla og ráðskonunni hans og finnst hann vera kominn til himnaríkis. En inni á milli er erillinn mikill og hávær enda um fimmtíu þátttakendur fyrir utan hljómsveitina í gryfjunni sem lék af list undir stjórn Jóhanns G. Jóhannssonar.
Saga Charles Dickens af litla drengnum sem fæðist á fátækrahæli og missir móður sína um leið hefur verið vinsæl síðan hún kom fyrst fyrir almenningssjónir árið 1838. Oliver er alinn upp á hælinu uns það kemur dag nokkurn í hans hlut að biðja um meiri graut fyrir hönd sársoltinna félaga sinna. Bón hans vekur þvílíka hneykslan meðal stríðalinna umsjónarmanna hælisins að drengurinn er boðinn upp og að lokum seldur útfararstjóra. Þaðan strýkur hann eftir átök við aðstoðarmann vinnuveitandans sem hafði svívirt minningu móður Olivers.
Oliver kemur til Lundúnaborgar, eigandi ekkert nema larfana utan á sér, og er auðveld bráð fyrir þjófaflokk gyðingsins Fagins sem hýrist í undirheimum stórborgarinnar. En drengurinn hefur ekki í sér náttúru til að stela og þegar hann er saklaus ásakaður um þjófnað sér ákærandi hans, herra Brownlow, aumur á honum og fer með hann heim með sér. Fagin og gengi hans með glæpóninn Bill Sikes í broddi fylkingar óttast að Oliver komi upp um aðsetur gengisins og þvingar Nancý kærustu Bills til að ræna honum. Nansý og Bill takast á um drenginn sem Nansý vill skila aftur til velunnara hans og svo fer að hún fórnar lífinu fyrir Oliver. Bill drepur sig á flótta undan lögreglunni, gengið leysist upp, Fagin kemst undan (ólíkt bókinni þar sem hann endar í gálganum) og Oliver fær varanlegt skjól hjá Brownlow sem reynist vera afi hans. Happy End!
Löng og flókin skáldsagan kemst furðuvel til skila í söngleiknum, þar er öllu sem máli skiptir til skila haldið. Auðvitað spyr maður sig af hverju í ósköpunum Agnes Brownlow hafi eignast drenginn sinn á hæli og enginn spurt eftir henni meir, en ættarsaga Olivers er ennþá flóknari í bókinni og illskiljanleg svo best er að hugsa sem minnst um hana.
Hlutverk eru hér geysimörg smá og í rauninni bara eitt verulega stórt. Barnahópurinn var eins og einn maður, lék og söng í fullkomnum takti svo unun var á að horfa. Þau sem fá svolítið stærri hlutverk voru fim og fín, einkum Tryggvi Björnsson sem var frábær Hrappur. Þórunn Lárusdóttir og Bergþór Pálsson sköpuðu eftirminnilegar smámyndir af andstyggilegum umsjónarmönnum hælisins. Subbulega liðið hjá útfararstjóranum varð bráðlifandi í höndum Friðriks Friðrikssonar, Esther Talíu Casey, Álfrúnar Örnólfsdóttur og Ívars Helgasonar. Senan þegar Oliver hangir á bakinu á Nóa Claypole (Ívari) kallaði fram andköf í salnum. Arnar Jónsson og Ragnheiður Steindórsdóttir voru manngæskan og blíðlyndið uppmáluð í hlutverkum Brownlow og Bedwin ráðskonu. Þórir Sæmundsson var háskalega þungbúinn Bill Sikes en Vigdísi Hrefnu Pálsdóttur tókst að gera Nansý vel rúnnaðan karakter. Þó vissi maður ekki hvort maður átti að fagna eða háskæla yfir inntaki aðalsöngtextans hennar um ást hennar á ofbeldismanninum – af því hann “þarfnast” hennar! Gyðingurinn Fagin er eftirsóttasta hlutverkið í þessum söngleik og hér lék það í höndum Eggerts Þorleifssonar. Allir þátttakendur syngja eins vel og þeir leika svo þar bar engan skugga á.
Á frumsýningu lék Ari Ólafsson sjálfan Oliver Twist. Hann hefur allt til að bera í hlutverkið, fallegar hreyfingar, skýra framsögn og ágæta söngrödd. Fyrst og fremst hefur hann þó þetta sem greinir Oliver frá öðrum börnum bæði í bók og söngleik: bjartan og fallegan svip sem lýsir af góðu innræti. Oliver er eiginlega kristgervingur í verki Dickens; sakleysið, blíðan og einlægnin holdi klædd þrátt fyrir ömurlegt atlæti, hörku og hungur frá fyrstu tíð, og þennan kjarna persónunnar sýndi Ari fullkomlega eðilega.
Ég heyrði af tilviljun þegar Selma Björnsdóttir var spurð að því í hlénu af litlu barni hvað hún léki í sýningunni. “Ég leik leikstjórann,” ansaði hún. Mér fannst hún leika leikstjórann prýðilega og trúi því að hún sé stolt og ánægð í dag. Sama má segja um liðið sem hún hefur í kringum sig, Jóhann tónlistarstjóra, Alettu Collins danshöfund, Maríu Ólafsdóttur búningahönnuð og ljósameistarana Lárus Björnsson og Ólaf Ágúst Stefánsson. Vytautas Narbutas á svo alveg sérstakar þakkir skyldar fyrir sitt frábæra leiksvið sem flutti mann rakleiðis til London. Alveg var ótrúlegt hvernig hann bjó til hæðir og fjarlægðir – til dæmis þegar við erum neðanjarðar í byrgi Fagins en sjáum uppi á jörðinni yfir Lundúnabrú í átt til hinnar miklu kirkju heilags Páls og svo kemur allt í einu stórt seglskip siglandi eftir Temsá milli okkar og kirkjunnar. Snilld!