Það var mikil gleði í Ævintýraskóginum í Elliðaárdalnum síðdegis í gær þegar Leikhópurinn Lotta reis úr covid-rotinu og skemmti stórum hópi barna og fullorðinna með leik, söng og dansi undir fyrirsögninni Gilitrutt. Ekki er hægt að segja einfaldlega að verkið sé um þessa lífseigu skessu því að inn í söguna af henni blandar höfundurinn sögunni af geitunum þrem og ferðalagi þeirra yfir brúna til að komast í grænni haga hinum megin og ævintýrinu um Búkollu. Eða kannski ætti að segja að Gilitrutt blandaði sér í sögurnar um þau.
Þetta eru þrjú býsna óskyld og ólík ævintýri en þau eiga eitt sameiginlegt sem manni kæmi kannski ekki í hug svona undir eins – nefnilega tröll! Það er tröllkona sem vinnur ullina fyrir lötu bóndakonuna gegn því að hún nefni nafnið hennar. Það býr tröll undir brúnni sem geiturnar vilja komast yfir og það hótar að éta geitafjölskylduna, hvern meðlim hennar af öðrum þegar þau trítla, ganga eða þramma yfir brúna. Og það er tröllskessa sem rænir Búkollu og gerir sitt ýtrasta til að koma í veg fyrir að hún komist heim aftur.
Hjá Lottu er Gilitrutt tröllið í öllum þrem sögum og Sigsteinn Sigurbergsson fór létt með að túlka allar hliðar hennar – hrokafulla og stríðnislega framkomuna við bóndakonuna á Bakka (Sumarliði V. Ingimarsson), ósvífna glettnina í samskiptum við geitahjónin (Stefán Benedikt Vilhelmsson, Rósa Ásgeirsdóttir), ergelsið út í snjöll undanbrögð Búkollu (Stefán Benedikt) á flóttanum og uppgerðar fýluna og andstyggilegheitin út í Bárð litla bróður (Andrea Ösp Karlsdóttir) sem Gilitrutt þykir auðvitað ósköp vænt um innst inni. Gervið sem Kristína R. Berman bjó Sigsteini er líka afskaplega skemmtilegt – hann minnir einna mest á Ednu Everage sem Ástralinn Barry Humphries skapaði og gerði heimsfræga „dömu“!
Og kynuslinn er ekki bundinn við Gilitrutt eins og sjá má, hér eru kvenpersónur oftast leiknar af körlum og konur leika líka stundum karla. Sumarliði bjó til nýstárlega bóndakonu, býsna ólíka þeirri sem við erum vön. Stefán Benedikt fór létt með að leika Búkollu og Andrea var ekta litli bróðir, þráir svo átakanlega heitt að verða stór í augum stóru systur. Gervin voru líka fín þótt ekkert þeirra jafnaðist á við Gilitrutt og persónurnar voru skýrar, hver með sín sérstöku einkenni.
Hugmyndin og hnyttinn leiktextinn er eftir Önnu Bergljótu Thorarensen en lögin í sýningunni eru samin af þeim Baldri Ragnarssyni, Birni Thorarensen, Gunnari Ben og Helgu Ragnarsdóttur. Baldur semur líka alla söngtextana sem hitta oft naglann lóðbeint á höfuðið. En leikstjórinn er Ágústa Skúladóttir eins og vel má sjá á hugmyndaauðginni og spriklandi fjörinu sem er aðalsmerki sýningarinnar frá fyrstu til síðustu mínútu.
Ég spurði Gunnar Skúla sex ára hvað honum hefði fundist skemmtilegast og hann var ekki í vafa um að það hefði verið þegar geitapabbi stangaði Gilitrutt svo að hún datt í ána með stóreflis bommsarabommsi. En hrifnastur var hann af fuglinum fljúgandi (Sumarliði V.) sem einn komst yfir fljótið mikla og bálið stóra þegar Þóra litla á Bakka (Rósa Ásgeirsdóttir) var á heimleið með Búkollu.
Silja Aðalsteinsdóttir