Eitt er alveg víst: Félagarnir snjöllu í Monty Python hafa haft óstjórnlega gaman af að setja saman upprunalega verkið sem núna heitir Spamalot og var frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins í gærkvöldi undir stjórn Hilmis Snæs Guðnasonar. Þetta er grín á sögur sem þeir hafa lesið í skóla og utan skóla þegar þeir voru krakkar í Bretlandi og það hefur verið óviðjafnanlegt að fá að afhelga allt þetta dót. Efnið segir venjulegum Íslendingi sjálfsagt ekki eins mikið þótt auðvitað könnumst við öll við Artúr konung og riddara hringborðsins. Við þekkjum líka öll söngleiki og partur af gysinu í Spamalot er að gera grín að því sviðsleikjaformi.
Kvikmyndin Monty Python and the Holy Grail, sem söngleikurinn er byggður á, er frá árinu 1975 og þó að söngleikurinn sé nýr (frá 2005) hefur hann að mörgu leyti gamalt yfirbragð. Þar er ég sérstaklega að hugsa um kvenhlutverkin. Það er ansi skrýtið að horfa á fullklædda karlmenn spranga um sviðið í margvíslegum erindagerðum, syngjandi, dansandi, leikandi – kónga, prinsa, galdramenn, varðmenn, riddara, þjóna – en konurnar grátlega einhæfar á móti, dansandi berleggjaðar í mislitum glitrandi sundbolum. Það er bara eitt raunverulegt kvenhlutverk, vatnadísin Gunnvör sem Selma Björnsdóttir leikur og syngur af styrk og list. Uppáhaldsatriðið mitt er þegar hún kom fram nokkuð löngu eftir hlé og kvartaði í grátlega fyndnum texta undan því að hafa gleymst í verkinu. Ég get svo sannarlega tekið undir það.
En nú, þegar ég er búin að blása, get ég vel sagt að þetta var að mörgu leyti skemmtileg og vel gerð sýning. Hún segir (lauslega) frá því þegar goðsagnahetjan Artúr konungur (Örn Árnason) fer um sveitir Bretlands til að safna að sér riddurum og hyggst síðan sinna því mikilvæga verkefni að finna hinn helga gral, bikarinn sem Jesús drakk úr með lærisveinum sínum við síðustu kvöldmáltíðina. Hann nýtur á ferðalaginu fylgdar síns trúa þjóns, blóraböggulsins Blóra (Ævar Þór Benediktsson, alveg dásamlegur) sem hann metur þó eins og ekki neitt. Riddararnir sem safnast að honum eru skrautlegt lið, Galahad (Jóhannes Haukur Jóhannesson), Lancelot (Friðrik Friðriksson), kvennagullið fræga sem reynist alveg óvænt vera samkynhneigður, Bedivere (Þorleifur Einarsson) og (líka alveg óvænt) Hrói höttur (Maríus Sverrisson)! Allir þessir drengir syngja og leika vel og eiga í engum vandræðum með að kalla fram hlátur með spaugi sínu og sprikli. Oddur Júlíusson var mjög fyndinn pestargemlingur sem vildi ekki vera dauður. Stefán Karl Stefánsson var í ótal hlutverkum en bestur sem Herbert prins (unnusti Lancelots) og prýði var að venju að Eggert Þorleifssyni í ýmsum hlutverkum, bæði kvenkyns og karlkyns.
Músíkin er eftir John Du Prez og Eric Idle og var vel flutt undir stjórn Þorvalds Bjarna Þorvaldssonar en er ekki minnisstæð fyrir utan eitt lag sem hefur orðið sígilt og heitir hjá þýðandanum, Braga Valdimar Skúlasyni, „Líttu alltaf á lífsins björtustu hlið“. Textar Braga heyrðist mér vera alveg skínandi góðir en ég náði þeim ekki alltaf í samsöng. Miðað við að hér er sungið með dæmigerðum Monty Python-hraða var undirleikurinn of hátt stilltur til þess að textarnir nytu sín. Tveir þeirra eru á Þjóðleikhúsnetinu og sjálfsagt að lesa þá fyrirfram. Búningar Maríu Th. Ólafsdóttur voru hver öðrum skrautlegri og svið Snorra Freys Hilmarssonar minnti skemmtilega á leikritauppsetningar í skólum með sinn skóg og kastala.