Lokaviðburður á Unglist var Ungleikur í Tjarnarbíó, fimm stutt leikverk skrifuð af fólki í kringum tvítugt, valin úr hópi ennþá fleiri verka af sérstakri valnefnd. Listrænn ráðunautur og verkefnisstjóri var Magnús Thorlacius sem líka var kynnir á sýningunni í gær. Verkin taka fyrir ótrúlega ólík málefni en ekkert þeirra fjallar sérstaklega um unglingsárin sem manni hefði þótt eðlilegt. Þessir höfundar – þrjár stúlkur og tveir piltar – horfa ekki til baka heldur fram á við og vítt um kring.

„Bar-Dagur“ eftir Theu Snæfríði Kristjánsdóttur er einleikur sem segir frá Degi (Krummi Kaldal), metnaðarfullum barþjóni sem lætur ástríðu fyrir starfinu og metnaðinn hlaupa með sig í gönur. Verkið er fyndið en boðskapurinn er skýr: ekki trúa því alltaf sem eyrun heyra. Krummi fór vel með hlutverkið, einkum eftir að hann færði sig fram fyrir barborðið. Thea Snæfríður leikstýrði verkinu sjálf eins og flestir höfundanna en Lea Alexandra Gunnarsdóttir sá um sviðshreyfingar og það munaði um þær.

„Píanistinn“ er eftir Þór Ástþórsson sem einnig leikstýrði. Píanistinn (Árelía Mist Sveinsdóttir) dettur niður dauð við hljóðfærið og ráðþrota par (Embla Mýrdal Jónsdóttir, Óðinn Gunnarsson) ræðir hvað hafi orðið henni að aldurtila. Þetta varð frekar tíðindalítið en ágætlega gert.

„Askur og Embla sitja uppi í tré“ eftir Tómas Arnar Þorláksson sem líka sá um leikstjórn var viðamesta verkið og fjölmennasta sýningin með fjórum leikurum. Hún var líka frumlegust og ansi hreint skemmtileg bæði að efni og útfærslu. Tómas Arnar blandar hér kerfisbundið saman upprunasögum Biblíunnar og Völuspár og lætur okkur skilja á einfaldan og afar fyndinn hátt hvað þær eru skyldar. Askur/Adam og Embla/Eva, virkilega vel leikin af Sölku Gústafsdóttur og Vilberg Andra Pálssyni, sprelluðu þarna nokkurn veginn nakin í garði sem ýmist var kenndur við Eden eða Miðgarð, þar sem eplin voru ýmist kennd við Evu eða Iðunni og Mímir Bjarki Pálmason lék listir sínar sem slangan/Loki af slægum þokka. Það var svo Rán Ragnarsdóttir sem túlkaði Baldur/Guð, henti veslingunum tveim út úr hlýjunni og sagði að héðan í frá yrðu þau dæmd til að leita að tilgangi lífsins! Augljóst var að ekkert þeirra trúði að það hefði nokkuð upp á sig.

 

 

 

 

 

 

 

Enda kom það berlega í ljós í næsta verki, „Sænginni yfir minni“ eftir Ástrós Hind Rúnarsdóttur þar sem ung hjón (Elva María Birgisdóttir, Stefán Kári Ottósson) vakna að morgni og konan sér ekki tilgang í neinu lengur. Maðurinn amlar á móti en má sín lítils, konan hefur hugsað of lengi. Þetta var vel skrifað verk og vel leikið undir stjórn höfundar, einkum náði Elva María djúpri sannfæringu í leik sínum þótt verkið væri stutt.

Lokaverkið var „Skot“ eftir Júlíu Gunnarsdóttur sem Hafsteinn Níelsson stýrði. Þar erum við komin aftur á barinn. Barþjónninn er Vilberg Andri sem áður lék Ask/Adam, hér sultuslakur að lesa Camus í vinnunni og náðist furðumikil kátína bara með ólíkum framburði á nafninu hans. Tveir lögregluþjónar (Hólmfríður Hafliðadóttir, Killian G.E. Briansson) eru komnir beint úr átökum dagsins við mótmælendur þar sem banaskoti hefur verið hleypt af byssu og þau ræða sín á milli það sem gerðist, hver gerði hvað og hverju(m) var um að kenna. Góð svipmynd af fólki í miklum vanda og vel leikin, persónurnar urðu allar furðu skýrar á ekki lengri stund.

Lágmarks vesen var gert með búninga, ljós og leikmuni, rétt nóg til að setja áhorfandann inn í aðstæður í hvelli. Allt var það skynsamlega hugsað. Það sem skiptir máli er hugmynd og texti og þar blómstruðu hinir ungu höfundar. Það mætti segja mér að við ættum eftir að heyra meira frá þeim og ég þakka innilega fyrir skemmtunina.

Silja Aðalsteinsdóttir