Valgarður Egilsson. Steinaldarveislan.

Saga 2014, 341 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2017

SteinaldarveislanÞað var á sögukvöldi sem góðir menn efndu til í Grófinni í Reykjavík fyrir mörgum árum að ég heyrði fyrst í Valgarði Egilssyni. Hann gekk um gólf með hljóðnemann og hallaði undir flatt. Þegar hann vildi hnykkja á mikilvægum atriðum í frásögninni sneri hann sér snögglega við og færði hljóðnemann um leið leifturhratt úr vinstri hendi yfir í þá hægri.

Seinna fékk ég Valgarð til að koma upp í Kennaraháskóla og segja nemendum sögur. Þetta féll í góðan jarðveg. Baldur Sigurðsson samstarfsmaður minn skilgreindi frásagnarstíl Valgarðs og sagði meðal annars að hann minnti á tónlistarflutning með stefjum og tilbrigðum við stef.

Það kom mér því ekkert á óvart að í Steinaldarveislunni, sem út kom árið 2014 hjá forlaginu Sögu, séu stef og tilbrigði við stef áberandi stílbragð. Það er músík og póesía í texta raunvísindamannsins Valgarðs. Kannski er þetta ein merkasta íslenska bókin frá árinu 2014, m.a. einmitt vegna þess að vísindamaðurinn og skáldið mætast í einu og sama verkinu.

Og áður en lengra er haldið slæ ég fram fullyrðingu: Þetta er síðasta sjálfsævisagan á Íslandi sem lýsir því hvernig var að alast upp í fornöld. En við það má svo bæta að höfundurinn var kominn á jarðýtu 14 ára: tækniöldin hafði ruðst inn í hina köldu paradís norðursins, Höfðahverfi í Grýtubakkahreppi.

Við skulum dansa

Sjálfsævisaga er þetta vissulega, sbr. kaflaheiti eins og Veröld æsku, Táningur í veraldarkönnun og Fullvaxta. En ef litið er á bókartitilinn, þá á hann ekkert skylt við sjálfsævisögu. Ævisagan er nokkurs konar bindiefni þessa verks sem spannar mun stærra svið og minnir okkur á að við erum, þrátt fyrir allt, ekki ýkja langt frá steinaldarmanninum í þroska; það er til dæmis grunnt á grimmdina í okkur (bls. 22). Í verkinu glymur reyndar þessi bjalla andvaraleysis og veisluglaums: „Við skulum dansa fram í dauðann,“ svo vitnað sé í eitt ljóða Jóhannesar úr Kötlum.

Valli litli vex upp á norðurhjaranum, fer síðan að heiman til náms og starfa og haslar sér völl í flóknum fræðum raunvísinda í Reykjavík þar sem hann krufði á einu ári á annað hundrað líka og kynnti sér sögu viðkomandi; þar var nú allt lygilegra en í nokkurri skáldsögu. Hann hélt svo til London og síðan aftur til Reykjavíkur. Hann var reyndar á Eskifirði að loknu læknaprófi þar sem dyrasími læknisíbúðarinnar bilaði; en þá læstust einnig dyrnar að íbúðinni sem var á efri hæð svo hvorki mátti komast þar út né inn. Þá kom sér vel að vera íþróttamaður; læknirinn mátti taka stökk án atrennu og grípa í brún svalapallsins, hefja sig síðan upp í rimlagrindina til þess að geta krækt fæti í pallbrúnina og sveiflað sér upp á pallinn.

Í lok verksins hverfur höfundurinn að nokkru leyti aftur á vit paradísar æskunnar svo hann geti fundið næði til að hugsa – finna samhengið í lífinu og veröldinni.

Leiksvið normallífsins

Fyrsti kaflinn segir frá því fólki sem mótaði unga manninn og þá er gjarnan litið til horfinna kynslóða. Það fólk, þó horfið væri, lifði í frásögnum þeirra sem Valgarður þekkti og umgekkst og var með orðum hans á leiksviði normallífsins alla ævi, í lífríku alvöruverki (bls. 123). Lýsingarorðið lífrík notar hann víðar, ekki síst um konur. – Börnin hlustuðu sperrtum eyrum á frásagnir af gengnum ættmennum og skildu nú ekki allt: hvernig gat það t.d. verið að hann Vilhjálmur biskupsbróðir gæti átt tvo feður en aðeins einn afa? Jú, séra Halldór, sem varð tengdafaðir Sigríðar í Laufási, var víst hinn sanni faðir drengsins hennar (þetta vissu allir).

Valgarður gerir mikið úr mótunarog uppeldisþætti þessa fólks og ekki einungis fólksins heldur náttúrunnar sjálfrar sem oft var grimm og hrifsaði marga brott, bæði á sjó og landi, sbr. snjóflóðin og skipsskaðana, til dæmis þegar verið var við hákarlaveiðar sem Valgarður kynntist af afspurn og lifði sig inn í. Einhverjir þoldu ekki þunga heimsins og létu sig hverfa eins og gengur. En svo var náttúran gleðigjafi og nærði bæði anda og líkama, ekki síst í sunnanþeynum á vorin og „laufvindunum“ á haustin. (Þess má geta að Valgarður hefur skrifað bókina Waiting for the South Wind (2001) sem að sumu leyti er um sama efni og Steinaldarveislan).

Valgarður bendir á að jafnvel félagsfræðingar nútímans sem vildu fanga þessa veröld mundu eiga erfitt með það, meðal annars vegna þess að þeir gætu ekki spurt réttu spurninganna, skildu jafnvel ekki það mál sem talað var, það verklag sem beitt var og þær hindranir sem við mönnum blöstu. Sjálfur man Valgarður til dæmis þegar þorpið tæmdist næstum af karlmönnum sem héldu á vertíð í Grindavík strax upp úr áramótum, vetur eftir vetur, og voru fram á lokadag. Eða þegar fólkið hlustaði eftir aflatölum í útvarpinu eins og um spennandi knattspyrnuleik væri að ræða. – En sjálfur var hann bóndi, eða leit á sig sem slíkan. Níu ára „vökumaður“ var þrunginn ábyrgð.

Alheimurinn og fruman

Valgarður teflir gjarnan fram andstæðum í frásögninni: Reykjavík – sveitin (fín föt, gotterí – slitin og moldug föt, þorskhausar [og þar af leiðandi óskemmdar tennur!]); þá og nú; landið og sjórinn, útsýn – innsýn; alheimurinn og fruman: drengurinn sem lá í brekkunni við Grýtuhóla og horfði gegnum heiðhvolfið til stjarnanna, hann átti eftir að rýna í stækkunargler árum saman og rannsaka þá minnstu einingu allra eininga: frumuna – og fegurðin er líka þar.

Það hlaut eiginlega að verða hans ævistarf að rannsaka frumuna því að þar gat hann farið að rekja þróun efnisins og lífsins. Það er merkilegt stef í bókinni hvernig fóstrið sýnir á fyrstu stigum þróun lífs og jafnframt bláþráð lífsins – bláþráður lífsins fer eins og rauður þráður um verkið. Vísindamaðurinn hefur áhyggjur: fruman getur skemmst, það þarf svo lítið til; fóstrið getur laskast. Og lífinu á jörðinni er ógnað, það hangir á bláþræði; ef hann slitnar verður þetta ekki lengra.

Hann rannsakaði orkubúskap frumunnar, og sá orkubúskapur hugnaðist honum betur en sá orkubúskapur sem ógnar náttúru og lífríki. (Innskot: ég held að lýsingarorðið lífrík sé valið með hliðsjón af nafnorðinu lífríki, þessu lifandi fjöreggi okkar.)

Ærnar skilja fjármál

Lífríkinu var reyndar ógnað þar nyrðra. Úr fjarlægð minnist vísindamaðurinn þess að jafnvel í gróðurreit og kálgarði móðurinnar úðaði litli snáðinn stórhættulegu eitri, DDT og sublimati (kvikasilfurklóríði). Flugurnar í kirkjugluggunum í Grenivík fengu sömu afgreiðslu. Og drengurinn teygði sig í flugu og flugu og stakk upp í sig undir svæfandi predikun sóknarprests, ekki þó þess prests sem sagði móðurinni að barn hennar, sem dáið hafði óskírt, kæmist ekki í himnaríki.

Hundarnir voru hreinsaðir í sérstökum kofum og fannst niðurlægjandi. Valgarður leggur til að orðið hundahreinsun verði tekið upp í umræðu um pólitíkusa og peningamenn.

Þegar lifað er svona í náttúrunni, stundum í lífshættu en stundum í leiðslu yfir dýrð sköpunarverksins, þá verður maður hluti af þessu öllu saman. Þá kristallast það allt í einum litlum dreng sem heitir Valli. Hann þekkir allar jurtir, hann þekkir söng fuglanna, hann greinir mismunandi árnið og són fossa eftir því hver áin eða fossinn er og eftir því hvernig vindurinn blæs eða hvar staðið er. Hann þekkir svip hverrar kindar og nafn og sér betur en búfræðingurinn kosti þess að féð sé háfætt norður þar (vestfirska féð var háfætt). Hann var dýrasálfræðingur og skynjaði hvernig dýrin hugsuðu. „Ærnar skilja fjármál.“ Hann fann jurt í Heiðarlág sem hann vissi strax að væri einstæð meðal jurta hér á landi (skeggburkni) enda fékk hann það staðfest hjá náttúrufræðikennaranum í Menntaskólanum á Akureyri, Steindóri Steindórssyni frá Hlöðum, sem sagði að þessi jurt hefði lifað ísöldina af. Þetta bjargaði einkunninni á stúdentsprófinu því að Valgarður mætti illa í tíma; hann þoldi ekki bása skólastofunnar.

Lítið um hrós

Það var tími til að hugsa í Höfðahverfi þó mikið væri unnið og lítið borið úr býtum, sbr. það að ein jólin voru engar jólagjafir gefnar barnahópnum – án skýringa; það var ekki alltaf verið að tala um hlutina. Þagnir föðurins eru áhrifamikið stef í þessari bók.

Það skapast spenna. Sonurinn virðist gera uppreisn þegar þegja á framtíðardrauminn, sjálfa skólagönguna, í hel. Það var þagað um þennan brennandi draum í tvö ár. – Oft hefur myndast spenna milli feðga, sbr. Skallagrím og Egil. (Þess má geta innan sviga að langafi Valgarðs var sagður líkastur Agli Skallagrímssyni þálifandi Íslendinga.) Egill í Hléskógum kallaði son sinn vonarpening í síma við skólastjóra nokkurn, en það orðalag er haft um þann sem brugðið getur til beggja vona um.

Þetta var engin paradís – en samt gott líf og heilbrigt. Það var mikið sungið; móðirin hafði englarödd, og mikið var lesið og rætt og þjarkað um fornsögurnar. Talað um Finnboga ramma sem heimamann þó í tíma munaði svo sem 1000 árum. Örnefni eins og Hrapaðargjá og Útburðarskál settu hroll að ungum manni. Hvað merkir annars Grenivík? Grenjandi ym í sjó eða vatnsfalli? Og það var teiknað: Valgarður hugsar veröldina í myndum, alveg eins og hann segir dýrin gera.

Og litli snáðinn þurfti snemma að hugsa eins og fullorðinn maður, gjarnan berfættur á sumrin, moldugur og afar feiminn. Honum var aldrei hrósað. Einhver gestkomandi talaði um að hann hefði fallegt hár; hann lifði lengi á því. Annar sagði – það var sjálfur fræðslustjórinn á yfirreið – að þessi piltur yrði að fá að læra.

Hann kemur óskaddaður út úr þessu og svo hraustur og vel að íþróttum búinn að hann verður Íslandsmeistari í sundi örfáum misserum eftir að hann gat farið að synda í eiginlegri laug. Faðirinn minntist ekki einu orði á þetta afrek.

Samræmingin hamlar sköpun

Valgarður segir frá því hvernig það var fyrir leitandi og óráðinn pjakk að fóta sig í þrúgandi skólaumhverfi. Hann gagnrýnir samræminguna; hún hamlar sköpun og skáldlegri iðju. Það glittir þarna sem víðar í gamla Stephan G. sem sagði um barnaskólann: „Hér er máttur og megin/ úr menningu dregin.“

Ungi maðurinn átti erfitt með að beygja sig undir agann og hann óskar þess að ungt fólk nú fái öðruvísi skólun en hann fékk; teikningar hans voru t.d. að engu metnar til einkunnar á fullnaðarprófi, líkt og þær væru ekki til. Sumt hefur breyst til batnaðar vonandi; annað ekki, sbr. þessa miklu setu á bekk; við sjáum líka árangurinn: ólæsi.

Og spurning hvort náttúrufræðin sé enn kennd án þess að horft sé út um glugga þar sem jarðlög Vaðlaheiðar blasa við; eða ekki farið í grasagarðinn sem þó er rétt sunnan skólalóðar.

Valgarður reyndi sjálfur nýjar kennsluaðferðir við Hákóla Íslands þar sem honum var síðan hafnað sem föstum kennara – dulin vísbending um að aðferðir hans hafi ekki fallið ráðamönnum í geð. Hann virðist ekki hafa kunnað að koma sér fyrir í neinu hræðslubanda lagi. Og hugmyndin um „hundrað bestu háskólana“ finnst honum sérkennileg. Hann fékk að reyna að vísindarannsóknir, jafnt heima sem erlendis, eru ekki ávísun á fastar tekjur. Frelsi til rannsókna er takmarkað af þessum ástæðum: orkubúskapur frumunnar var t.d. ekki „inni“ þegar Valgarður vildi rannsaka hann. Það gerðist ekki fyrr en hann hafði þurft að söðla um og snúa sér að öðrum rannsóknum.

Kerfið sem hann lifði í og var háður fjárhagslega var honum andsnúið. Hann beitir kaldhæðni af list þegar hann fer yfir þessa rannsóknasögu. En hann getur glaðst við að það sem hann varði sínum manndómsárum til að rannsaka, það hefur orðið að viðamiklu rannsóknarefni nú á síðustu árum. „Veröldin er interessant.“ Og margir vísindamenn sem nú hafa gert garðinn frægan voru undir handleiðslu Valgarðs á rannsóknastofum hér heima.

Veröldin er interessant, en það er vá fyrir dyrum, og Valgarður ræðir þetta út frá sjónarmiði vísindamannsins og skáldsins og hefur áhyggjur af tómlæti, ekki bara pólitíkusa, skólamanna og hagfræðinga, heldur líka almennings. Sumir fara bara að flissa þegar alvöru ber á góma. Hann talar einnig um „oftrú almennings á vísindum“ og segir hana hættulega (bls. 292).

Afjarma

Valgarður er fræðari. Við getum notað þessa bók til að fræða börnin okkar. Börn skilja þurran húmor og kaldhæðni. Kennarinn gæti nýtt bókina í nestistímum, t.d. kaflann um Langskóla Íslands og þá framtíðarsýn Valgarðs að stofnuð verði foreldrafélög við háskólana.

Þetta er texti sögumanns, hann hentar upplestri, því að það er í honum seiðandi hljómur. Kennarinn getur líka úthlutað ritgerðarefnum og verkefnum til umfjöllunar og umræðu. Bókin spannar mörg fræðasvið: landbúnaðarfræði, þjóðháttafæði, uppeldisfræði, líffræði, fagurfræði, skáldskap. Ekki síst heimspeki.

Og íslenskukennarinn fær upp í hendurnar efni í marga tíma, ókeypis, sbr. dæmin um blágrýtisnorðlenskuna: Ég hebði komið en veður leybði ekki; Jón í Höbða tabði stutt; það er mennnntahebð í Höbðahverfi. Skállllkurinn strauk jállllkinum um kjállllkann.

Einnig um merkingu máls. Hvað merkir það t.d. þegar gagnrýnandinn segir: „Listamaðurinn nýtir rýmið á afskaplega áhugaverðan hátt“? (Þetta þarf að segja alveg svipbrigðalaust.) Innantóm orð?

Og hér er dæmi um að framburður tveggja setninga getur verið sá sami þótt stafsetning og merking sé ólík; Valli litli heyrði Ingibjörgu Þorbergs syngja: „Lísa stóð um langar nætur.“ Hann sá Lísu fyrir sér þar sem hún beið standandi eftir elskhuganum nótt eftir nótt. En þetta merkti víst annað: „Lýsast óðum langar nætur.“ Það var vor í lofti.

Og svo eru það lýsingarorðin sem enda á -a: Um leið og kennarinn fer yfir skilgreininguna: óbeygjanleg, stigbreytast ekki o.s.frv. getur hann fylgt henni eftir með dæmum úr landbúnaði: seigmjólka, troðjúgra; og ærnar voru afjarma seint á haustin þegar drengurinn hleypti þeim út til beitar.

Vísindamaðurinn Valgarður er maður orðsins þó hann hafi ekki tekið upp skáldanafnið Leirdal. Hann býr til orð sem eru stundum eins og mikilvæg stef í verkinu. Þannig eru lýsingarorðin nautnslævður og nautnskertur látin ná yfir neysluhyggjumanninn sem hefur úthýst fagurfræðinni og nautninni; slíkum manni er ekkert heilagt lengur: fuglarnir syngja ekki fyrir svoleiðis fólk. – Og sjálfviti var nýyrði ársins í fyrra; sjálfviti er með orðum Valgarðs sá sem veit sjálfur betur, alltaf og ævinlega (Besserwisser).

„Farsælt mundi það …“

Steinaldarveislan er karlmannlegt verk og laust við væmni en safaríkt og skáldlegt. Egill Skallagrímsson og Stephan G. Stephansson áttu skáldskapinn, íþrótt vammi firrða, að leita til þegar áföll dundu yfir. Það gerði Valgarður einnig.

Á blaðsíðu 335 í Steinaldarveislu Valgarðs standa þessi orð og mér finnst þau snerta kjarna þessa mikla verks: „Farsælt mundi það ef fólk fyndi til þess snemma í lífi sínu að eitthvað væri dýrmætt, jafnvel heilagt, þess virði að dást að, respektera það. Sú kennd er meðfædd en hana má rækta frekar – og hana er auðvelt að traðka niður. Sá sem ekki á þá kennd, hann er öreigi.“

Og loks til gamans dálítil leiðrétting: Það er falleg saga á bls. 152 af skagfirska hestinum Grána og tilraun hans til að strjúka eftir að hann hafði verið seldur til Eyjafjarðar; hesturinn hafði semsagt alist upp í Skagafirði og var með orðum Valgarðs seldur austur í Eyjafjörð; þetta er fullkomlega rökrétt, enda fara Eyfirðingar sannarlega vestur í Skagafjörð. En Skagfirðingar eru ekki eins og fólk er flest: þeir fara norður í Eyjafjörð þó haldið sé beint í austur, jafnvel suðaustur. Þetta verður leiðrétt þegar bókin kemur út í kilju sem ég vona að hún geri því að hún á erindi við okkur, ekki síst unga fólkið í skólunum sem kann að meta gagnrýna vísindalega hugsun og skáldlega frásögn.

Baldur Hafstað