Það er rosalega gaman að horfa og hlusta á strákana í leikhópnum Kriðpleir (eða á maður að segja Kriðplei í þágufalli?) en það er meiri vandi að taka á verkum þeirra og skrifa um þau; einhvern veginn renna þau milli fingra …
Kriðpleir frumsýndi nýtt verk, Ævisögu einhvers, í Tjarnarbíó í gærkvöldi. Það er dálítil tíska þessi misserin að leyfa áhorfendum að fylgjast með því þegar leikverk verða til og svo er um Ævisögu einhvers, alla vega að sumu leyti. Þeir piltar, Árni Vilhjálmsson, Friðgeir Einarsson og Ragnar Ísleifur Bragason (sem halda sínum réttu nöfnum í sýningunni), hyggjast taka viðtöl við hundrað manns og komast að einhvers konar „meðalævisögu“ Íslendinga með því að spyrja alla sömu spurninganna. Þessi viðtöl eru þeir að undirbúa með því að koma sér upp aðstöðu til að taka viðtölin, búnir að kaupa kex til að bjóða viðmælendum. (Af hverju ekki snittur? spyr Árni en Ragnar Ísleifur heldur stíft með kexinu.) En tíminn er ekki einhamur því þeir virðast vera búnir að taka einhver viðtöl – nú, eða öll, hvað vitum við? – eins og við fáum að heyra af bandi. Þar talar þessi „einhver“ (Ylfa Ösp Áskelsdóttir) og svarar – eða svarar ekki – spurningum þremenninganna. Spurningarnar eru skrítnar eins og búast mátti við og svörin sprenghlægileg.
Forvinnan virðist líka talsvert á veg komin þegar þeir bregða upp línuriti yfir meðalævi manns með hæðum og lægðum, misháum stökkum og misdjúpu falli inn á milli, og velta vöngum yfir hvað hafi nú gerst í lífi manneskjunnar sem skýri þessar mishæðir. Stórkostleg hugmynd. Ég fór undir eins að setja ævi mína inn í línurit. Ekki var síðri en þó kunnuglegri hugmyndin um lífið sem bútasaumsteppi. Samtöl þeirra um ævisögur frægra manna og eigin fjölskyldusögur eru alveg dásamleg, og skynjunaræfingarnar sem þeir gera til að setja sig inn í hversdagslegar athafnir fólks voru drephlægilegar. Höldum við virkilega á tusku í sex mánuði á meðalævi? Er það kunnuglegt vandamál hvað eigi að gera við heila gúmmíhanskann þegar gat kemur á hinn eða er það hámark smámunaseminnar?
Auk þessa meginþráðar (eða þannig) sjáum við svipmyndir úr einkalífi piltanna, einkum Friðgeirs sem er að flytja. Í amstrinu við það sýna persónurnar ólíkt eðli sitt sem er orðið vel mótað eftir fjórar fyrri sýningar hópsins. Þó að Friðgeir sé hógværastur og innhverfastur er hann samt miðja sýningarinnar, sá sem allt snýst um, sá sem félagarnir hinir keppast um, afbrýðisamir hvor út í annan. Þetta var líka svona í Crisis Meeting í fyrra og þó sat Friðgeir þegjandi úti í horni mestalla þá sýningu! Árni og Ragnar Ísleifur eru hvor með sínu móti þó að báðir vilji þeir eiga Friðgeir og ráða yfir honum og báðir eru ótrúlega fyndnir í tilraunum sínum til að ná völdum í hópnum (með því að ná valdi yfir Friðgeiri). Þarna má sjá í skoplegu en skýru ljósi mörg munstur í mannlegum samskiptum sem hægt væri að skrifa um langar ritgerðir.
Í verkinu eru fjögur sönglög, glettilega skemmtileg, einkum lagið um það sem við höldum að fólk haldi um okkur. „Þú ferð að ímynda þér hvað aðrir ímynda sér“ er góð setning og umhugsunarverð. Það er Árni sem syngur en félagar hans stíga dans á sinn hátt og taka undir á bak við. Sviðsbúnaður er naumur og allur miðaður við þarfir þeirra sem ætla að fara að taka viðtöl. Meðal annars var myndavél notuð á hugmyndaríkan hátt. Það er Sigrún Hlín Sigurðardóttir sem sér um leikmynd og búninga en Ólafur Ágúst Stefánsson lýsir sýninguna. Bjarni Jónsson semur verkið með þeim félögum og leikstýrir þeim. Það hefur verið skemmtileg vinna, trúi ég. Og ég er ekki frá því að maður komist að ýmsu (ó)merkilegu um sjálfan sig og mannfólkið almennt á þessari sýningu.