Oft er talað um að erfitt sé fyrir skáld og rithöfunda að koma með verk númer tvö ef fyrsta verk þeirra hefur tekist sérstaklega vel. Nú er Auður Ava Ólafsdóttir auðvitað reyndur og margverðlaunaður höfundur en Svanir skilja ekki sem var frumsýnt í Kassanum í gær er bara annað leikrit hennar og það fyrra, Svartur hundur prestsins, varð mikið hitt. Maður vissi því ekki alveg hvort maður ætti að þora að hlakka til í gærkvöldi. Það reyndist alveg óhætt. Tveir leikarar voru sameiginlegir í sýningunum. Margrét Vilhjálmsdóttir og Baldur Trausti Hreinsson leika líka hjón í Svanir skilja ekki, ennþá dýpri og meira spennandi persónur en í fyrra verkinu. Þriðji leikarinn er svo Ólafía Hrönn Jónsdóttir sem aldrei bregst. Skemmtunin varð þétt eins og lagt er upp til.
Hjónin Albert og Auður (Baldur Trausti og Margrét) leita til ráðgjafa (Ólafía Hrönn) vegna þess að unglingssonur þeirra, Tómas, hefur orðið æ undarlegri og ófélagslyndari upp á síðkastið og nú er hann beinlínis horfinn. Stunginn af að heiman. Ráðgjafinn tekur þeim opnum örmum en kemur þeim sífellt á óvart með „ráðum“ sínum, hún hefur ekki minnsta áhuga á Tómasi og krumpum hans en þeim mun meiri á foreldrunum, hversdagslífi þeirra, atvinnu, einkalífi og þá einkum ástarlífi. Framan af væla hjónin eitthvað um að þau skilji nú ekki hvað það komi vandamálum Tómasar við í hvaða stellingum þau sofa á nóttunni, svo dæmi sé nefnt, en smám saman fara þau að lifa sig inn í „meðferðina“, vinna heimaverkefnin af samviskusemi og taka fullan þátt í leikjum – aðallega dansi – ráðgjafans á stofunni. Þessar stífu og vansælu manneskjur verða smám saman mýkri, eru farin að skapa dansverk og jafnvel yrkja ljóð hvort til annars að hvatningu ráðgjafans.
Svanir skilja ekki er ekki eins efnismikið verk og Svartur hundur prestsins, bæði færri persónur og einfaldari þræðir. En bæði verkin eru jafn-vel skrifuð, fyndin og afhjúpandi á einstaklega aðlaðandi og áheyrilegan hátt. Og efni Svananna er frumlegra því í lokin vindur höfundur óhemju skemmtilega upp á verkið þannig að við sjáum alla atburðarásina í nýju ljósi. Þá áttar maður sig líka á því ennþá betur hvað leikurinn er magnaður hjá þeim öllum þrem. Framan af heldur maður að þau séu öll dálítið afkáralegar persónur í absúrdleikriti en það er ekki tilfellið – þau eru alveg eins og þú og ég – hins vegar er lífið auðvitað absúrdleikrit.
Ólafía Hrönn er þannig sálfræðingur að ég var ákveðin í því í hléi að ég ætlaði að fara í meðferð hjá sála áður en ég geispaði golunni. Baldur Trausti er lifandi kominn hinn trausti meðalmaður sem má ekki vamm sitt vita. Það var engu líkt að horfa á hann undir lokin flytja frumsamda ljóðið sitt með öllum líkamanum! Margrét gefur svo sterka mynd af þjakaðri konu að það var beinlínis sársaukafullt að horfa á hana. Maður heldur fyrst að taugaveiklunareinkennin séu „hugsuð“ en ekki „lifuð“ eins og gert var svo eftirminnilega í Svörtum hundi en það kemur fljótlega í ljós að þau mega ekki raunverulegri vera. Þetta er svo vel gert hjá Margréti að undrum sætir.
Allur umbúnaður sýningarinnar er við hæfi, svið og búningar Evu Signýjar Berger og lýsing Magnúsar Arnars Sigurðarsonar. Sérstaklega verður að geta tónlistar Ragnhildar Gísladóttur sem setti sterkan svip á sýninguna og var beinn þátttakandi í henni í mörgum atriðum. Þetta var hæfilega poppuð áhrifstónlist sem reyndist dásamlega dansvæn þegar þess þurfti með. Það má óska leikstjóranum Charlotte Bøving, aðstoðarmanni hennar Benedikt Erlingssyni og danshöfundinum Melkorku Sigríði Magnúsdóttur til hamingju með samvinnuna. Þetta var rosalega gaman!