Mojito eftir Jón Atla Jónasson var frumsýnt í gærkvöldi í nýuppgerðu og fínu Tjarnarbíói en þangað komst ég ekki. Þess í stað sá ég forsýningu kvöldið áður sem var eins og aðalæfingar eiga að vera til að frumsýningin verði góð, ansi misheppnuð! Greinilegt var að ýmsir gestanna vissu ekki hvort þeir voru komnir á staðinn til að drekka mojito og spjalla saman eða horfa á leiksýningu og afleiðingin varð sú að leikararnir þurftu að bregða sér úr gervinu þegar þeir voru komnir af stað, kalla áhorfendur sína inn í salinn og byrja upp á nýtt þegar allir voru sestir prúðir í sæti sín. Þetta gekk allt miklu betur á frumsýningunni í gær, er mér sagt.
Við erum stödd á bar þar sem tveir vinir eru að tala saman og Stebbi (Stefán Hallur Stefánsson) fer að segja Tóta (Þórir Sæmundsson) frá þriðjudagskvöldinu sem Tóti missti af. Þá hafði allt gengið hist á austurlensku veitingahúsi og orðið svona rosalega mikið fjör. En þó að Tóti hafi ekki verið á staðnum þá hefur hann frétt af uppákomunni og frásögnin sem hann heyrði samrýmist illa lýsingu Stebba. Upp kemur klassísk deila um hvað gerðist í raun og veru og afhjúpast þá ýmsar sjálfsblekkingar og lygar.
Hugmyndin að verkinu er góð – þó kannski sé hún ekkert átakanlega frumleg. Persóna Stefáns Halls er í aðalhlutverki og hann býr til eftirminnilega mynd af nafna sínum. Þessa óáreiðanlegu týpu skapar Stefán Hallur á sviði án þess að hafa nokkurn skapaðan hlut fyrir því, að því er virðist. Hlutverk Tóta er flóknara vegna þess að hann er hálfan tímann að leika annan mann, veitingamanninn Farúk sem Stebbi átti í deilum við þetta þriðjudagskvöld, en Þórir ræður prýðilega við það og nýtur sín vel með Stefáni á sviðinu. Reyndar var kannski það besta við sýninguna hvað þeir kumpánar höfðu gaman af því að vera þarna saman.
En verkið er ósköp rýrt og eiginlega bara aðför að leikriti. Stutt og þó teygt með of löngum útúrdúrum, eins og Jón Atli hafi ekki gefið sér tíma til að vinna almennilega úr hugmyndinni. Hann stýrir því sjálfur þannig að ekki hefur hann fengið nauðsynlegt aðhald frá öðrum leikstjóra. Það kann ekki góðri lukku að stýra.