Leikhópurinn Baun í bala frumsýndi fyrir nokkru nýja algrímusýningu í Tjarnarbíó sem Ágústa Skúladóttir leikstýrir ásamt Orra Hugin Ágústssyni. Verkið heitir Hríma og segir frá fullorðinni einsetukonu, Hrímu (Aldís Davíðsdóttir) sem býr á afskekktum stað í heldur ótótlegu húsnæði gerðu mestmegnis úr teppum og lökum. Þar hefur hún lokað sig inni með gömlum minningum – flestum sárum – og þorir ekki út úr húsi. Við fylgjumst með daglegum venjum hennar í kyrrð og ró um hríð uns inn til hennar ryðst yngri kona (Þórey Birgisdóttir), meidd á fæti eftir baráttu við ofviðri. Eftir nokkra andstöðu og átök milli heimakonu og boðflennu ákveður Hríma að hlúa frekar að stúlkunni en reka hana frá sér og milli þeirra þróast smám saman gott samband, gleði og loks trúnaður.
Öllu þessu er komið til skila án orða og þá er hverjum leyfilegt að túlka hluti, hreyfingar og viðbrögð á sinn hátt. Hvað táknar til dæmis fallega lopapeysan á herðatrénu nákvæmlega? Sennilega karlmann í betri stöðu og efnum en Hríma er. Hins vegar er enginn vafi á því hvað stafurinn táknar enda er framferði hans skýrt. Frábært var að sjá hvað allar hreyfingar voru nákvæmar og markvissar, látbragðið og líkamsmálið hreint og vel útfært.
Þetta er undurfalleg sýning, einna líkust hægum dansi með hraðari milliköflum, sem rígheldur athygli manns enda nóg að gera að skilja táknin og reyna að lesa úr öllum vísbendingum. Fullorðinn áhorfandi verður aftur barn með uppglennt augu, spennt fyrir hinu óljósa og margræða. Margt í daglegum venjum Hrímu er líka skondið og skemmtilegt, til dæmis hvernig hún býr sér til te, en táknrænt er að hún skuli sofa á kistunni sem geymir allt sem hún ætti að gleyma. Það verður henni léttir að losna við það.
Aldís er grímusnillingurinn eins og við minnumst úr fyrri sýningum, Hjartaspöðum og Hetju og hér bregst henni heldur ekki bogalistin, grímurnar eru svipmiklar og sérkennilega tjáningarríkar í vandaðri ljósabeitingunni. Hún á líka hugmyndina að verkinu sem hópurinn útfærir í sameiningu. Auður Ösp Guðmundsdóttir og Högni Sigurþórsson hanna útlit sýningarinnar og Ólafur Ágúst Stefánsson lýsingu sem átti stóran þátt í túlkun og hrynjandi. Tónlist og hljóðheim verksins skapar Sævar Helgi Jóhannsson og var merkilegt hvernig hann notar ákveðið lag í sýningunni. Þetta er „Ástarvísa hestamannsins“ („Stíg fákur létt á foldarvæng / er fögur sólin skín“) sem Sigurður Ólafsson söng inn á plötu fyrir löngu og varð gríðarlega vinsæl. Það læðist að manni sterkur grunur um að Hríma eigi ekki góðar minningar úr þeirri hestaferð.
Hríma er sýning fyrir unga sem aldna og býður upp á langar umræður á eftir um hina töfrandi list látbragðsleikhússins.
Silja Aðalsteinsdóttir