Við fórum loksins að sjá Petru, sýningu hópsins Dansaðu fyrir mig, í Tjarnarbíó í gærkvöldi. Sá sem hefur séð fyrri sýningu hópsins, sem heitir einmitt Dansaðu fyrir mig, veit að það þarf að koma í leikhúsið með ákveðið hugarfar. Ekki búast við neinu sem flokkast undir venjulegt eða hefðbundið. Hópurinn vinnur á einhverjum mörkum veruleika og leikhúss sem erfitt er að skilgreina – og kannski ástæðulaust að reyna það. Njóta bara.
Petra hófst á því (alla vega í gærkvöldi) að annar meginaðstandandi hópsins, Brogan Davison, tilkynnti að félagi sinn og eiginmaður, Pétur Ármannsson, glími nú við svo mikið þunglyndi að hann fari ekki á fætur en sitji við gluggann alla daga í náttfötunum. Síðan dró hún upp bréf frá honum þar sem hann lýsir líðan sinni og tilkynnir að hann sé hættur þessu ómerkilega leikhússstandi. (Saga sem er afsönnuð skemmtilega í lok sýningarinnar).
Nú eru góð ráð dýr en sem betur fer hafa tveir ágætir menn fengist til að hlaupa undir bagga með Brogan, leikarinn Kolbeinn Arnbjörnsson og guðfræðingurinn og tónlistarmaðurinn Hjalti Jón Sverrisson. Kolbeinn hefur verið að sýna verkið Frama í Tjarnarbíó og gat notað tækifærið og sýnt okkur brot úr því þegar göt urðu í sýningu kvöldsins! Hjalti gaf okkur skyndi-innsýn í bandarískan körfubolta og spilaði ljúflega undir á gítar þegar Brogan sagði frá. Hann aðstoðaði Kolbein líka í sprelli hans um álfatrú.
Hér var sem sé mikið samklipp atriða af ýmsu tagi en samhangandi þráð myndaði samt persónan sem titillinn vísar til, Petra Sveinsdóttir, steinasafnarinn merki á Stöðvarfirði. Upp á tjald var inn á milli varpað myndum af henni, viðtöl við hana heyrðust af bandi, sýnt var brot úr kvikmyndinni Kaldaljósi þar sem hún lék smáhlutverk, örstutt brot sem sagði þó furðumargt um hana sem manneskju.
Fyrir okkur sem höfum heimsótt safnið hennar var virkilega gaman að rifja það upp. Petra er langamma Péturs Ármannssonar og honum eðlilega bæði ljúft og skylt að halda minningu hennar á lofti. Meðal myndefnis voru heimakvikmyndir af fjölskyldunni þegar Pétur var lítill drengur, afskaplega hlýlegar og elskulegar. Gaman er líka að því að þessi steinasafnari skuli heita Petra því það er auðvitað steinn á latínu!
Sýningin er bæði á ensku og íslensku og heyra mátti í salnum að einhverjum kom á óvart þegar Brogan hóf mál sitt á ensku. En þetta er ein sérstaða hópsins og kemur af sjálfu sér vegna þess að aðalaðstandendur eru hvor af sínu þjóðerninu. En Brogan talar prýðilega íslensku þannig að þau gætu sem best valið hvort tungumálið sem er og farið þá eftir aðstæðum hverju sinni.