Guðjón Ragnar Jónasson. Hin hliðin.
Sæmundur, 2018. 95 bls.
Ólafur Gunnarsson. Listamannalaun.
JPV útgáfa, 2018. 221 bls.
Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2019
„Af hverju heilsarðu ekki upp á pabba þinn?“ sagði vinkona mín hneyksluð. Hún var á leið út af kaffihúsinu á Laugavegi 22 og gekk framhjá borði þar sem ég sat með hópi af fólki. Þegar ég hváði benti hún á Dag Sigurðarson sem sat skammt frá. „Hann er ekki pabbi minn,“ sagði ég, „þetta er þó algengur misskilningur.“ „En hann sagðist vera pabbi þinn“, ítrekaði hún, „og vissi allt um þig!“ Þegar ég sagði fólki frá þessu síðar var almennt talið að þetta hefði verið dæmigert grallarabragð hjá Degi. Þarna var ég rétt um tvítugt og hafði takmarkaðan húmor fyrir þessum feðraruglingi, var farin að gefa út ljóð og læra bókmenntir og vildi hafa minn pabba í friði – alin upp við sögur af því að þegar það fréttist að mamma ætti von á barni með Degi hefði fjöldi manns fundið hin ólíklegustu tilefni til að hringja í afa og ömmu. Pabba fannst þetta hinsvegar fyndið, sagðist alvanur því að honum væru eignuð börn nafna síns.
Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las bækur þeirra Guðjóns Ragnars Jónassonar og Ólafs Gunnarssonar, Hin hliðin og Listamannalaun. Ég var meðal þeirra „menningarvita og fólks með listamannadrauma […] í bland við alldrukkna háskólanema“ sem sótti „hornið góða og kaffihúsið á neðstu hæðinni við Laugaveg“ (12) á tíunda áratugnum, eins og Guðjón segir í sögunni „Fjólublátt ljós við barinn“ úr Hinni hliðinni. Þessi skemmtistaður á Laugavegi 22 var mikið sóttur af hommum og á sér glæsta sögu í íslensku skemmtanalífi, þar er enn rekinn dansstaður fyrir samkynhneigða. Staðurinn er ákveðið leiðarþema í skrifum Guðjóns, enda „eiga margir sínar sögur“ þaðan. „Sumar kannski missannar flökkusögur en í mörgum þeirra kann að leynast sannleikskjarni sem skáldagyðjan mótar og formar eftir sínu höfði. Góð saga getur nefnilega alltaf verið sönn á sinn hátt“ („Hornið góða“, 11).
Bækur Guðjóns og Ólafs eru báðar á mörkum bókmenntagreina, skáldsagna, smásagna og æviskrifa. Hin hliðin ber undirtitilinn Hinsegin leiftur- og örsögur og Listamannalaun er nefnd Minningaskáldsaga. Hún ber hinsvegar ýmis merki smásagnasafns, er í raun samansett af minningarleiftrum og endalausum sögum. Báðar lýsa bækurnar fólki sem lifir á mörkum eða jöðrum samfélagsins, eða þó aðallega hins borgaralega viðmiðs. Hommarnir sem Guðjón fjallar um eru á þessum tíma – níunda og tíunda áratugnum – enn á mörkum þess að vera sýnilegir og viðurkenndir og bókin fjallar um þessi ár sem voru undanfari gerbreytinga í íslensku samfélagi. Á þessu ári fagnar gleðigangan, ‚pride‘, 20 ára afmæli og því er það sérlega markvert að út komi bók sem fjallar um þessi umbrotaár. Formið sem Guðjón velur hentar efninu einnig sérlega vel, minningar, vangaveltur og sögur – leiftur frá fyrri tíð. Guðjón lýsir bæði fyndnum atvikum sem sorglegum, en auk þess að vera tímabil aukinnar viðurkenningar á samkynhneigð er þetta líka sá tími þegar alnæmið felldi marga.
Listamannalaun fjallar um annan hóp karlmanna sem rákust ekki vel í hóp. Ólafur lýsir kynnum sínum af listamönnunum Alfreð Flóka, Degi Sigurðarsyni og Steinari Sigurjónssyni, en þau kynni einkennast einnig af tengslum við stöðug skemmtanahöld – fjórmenningarnir drekka sleitulaust, í félagi við ýmsa aðra þekkta einstaklinga úr menningarlífinu. Jafnframt er bókin einskonar skáldasaga Ólafs, þar sem hann rekur upphaf rithöfundarferils síns. Tímabilið er þó aðeins annað, en segja má að sagan hefjist þegar Ólafur hittir Alfreð ríflega tíu árum eftir frægt viðtal sem birtist í Vikunni (1963) og „setti Ísland á annan endann“ (7). Það er Dagur Sigurðarson sem kynnir þá: „Þetta er Óli Gunn, sagði hann píreygur af kæti. – Gæinn er að skrifa lengstu skáldsögu sem samin hefur verið á Íslandi, hún á að vera í fimm bindum“ (10). Flóki deyr árið 1987 og þar endar sagan. Hún teygir sig því inn í það tímabil sem Hin hliðin lýsir. Listamannalaun eftir Ólaf Gunnarsson fjallar um list, eins og titillinn gefur til kynna – allir voru þessir menn áhrifamiklir og kraftmiklir listamenn sem vert er að minnast og rifja upp reglulega – og einnig um hin margvíslegu laun listarinnar, bæði þau sem yfirvöld úthluta og þau sem listamenn velja sér sjálfir, eða verða örlög þeirra. Úr verður eftirminnileg bók um snillingshugmyndir, ofdrykkju og glötuð tækifæri.
Í fyrrnefndri örsögu lýsir Guðjón því þegar fólk færði sig upp á efri hæð hússins á horninu en þar var „mjög líflegt diskó“. Dansinn hófst um miðnætti og staðurinn breyttist í „dulmagnað leikhús þar sem erfitt var að greina hver var hvað og allsendis ómögulegt að sjá mun á áhorfendum og leikendum. […] Hommarnir lögðu sem sagt til litina, lyktina og leiktjöldin en þeir voru langt frá því einráðir á gólfinu. Margir gestanna áttu það þó sammerkt að vera á einhvern undarlegan hátt á skjön við ríkjandi þjóðfélagsgerð. Mannlífið þarna var allt svo sérstakt og sumir gestanna lifðu úti á jaðri samfélagsins. Þegar kvöldaði kviknaði einhverskonar fjólublá ljóstýra við barinn og lýsti upp þennan ímyndaða heim“ (12–13).
Þessi lýsing á jafnvel við senurnar sem Ólafur teiknar upp í Listamannalaunum, en eins og fyrr segir tínir höfundur til helstu leiftur úr skúmaskotum minninga og setur þær á svið. Flóki á í flóknum samskiptum við fólk og Dagur er alltaf drukkinn. Ólafur er sá sem hringt er í til að útvega áfengi og fara í ‚bókasafns- gúmsí-lúms-túra‘, en svo nefndi Flóki ferðir á veitingahús með smurbrauði og tertum. Í einni slíkri dettur Ólafi „í hug að gera mér upp snillingstakta“ sem hann hermir eftir Jóni Gunnari Árnasyni. Hann neitar að borða á Brauðbæ því kokkurinn sé með bumbu. Þegar Flóki var úti á götu varð hann fyrst og fremst upptekinn af sjálfum sér, svo „að hann varð heyrnarlaus. Hann svaraði út í hött ef reynt var að halda uppi samræðum og kíkti útundan sér til hægri og vinstri svo lítið bar á til að vita hvort vegfarendur væru ekki með á hreinu hver var þar á ferð.“ Ólafur kíkir inn á Mokka og sér að þar er Dagur „að tala hátt með ógurlegum slætti“ (53). Þeir hörfa og fara inn á Prikið en þá tekur Flóki við snillingstakta-hlutverkinu og neitar að borða því kokkarnir séu með of háa hatta. „Komum á Mokka, segir Flóki. – Ég ræð við Deddý-boy“ (54). En Flóki er ódrukkinn og „hafði ekki roð við Degi“. Ólafur getur ekki hamið hláturinn og flýr út og loks sleppur Flóki „rennsveittur, hárið límt við vangana“ og enn flissar Ólafur – og keyrir hann bálreiðan heim.
Fleiri lýsingar draga upp hvernig þessir sjálfskipuðu snillingar íslenskrar menningar glutra niður tækifærum vegna ofdrykkju. Þar má glöggt sjá brestina í sjálfsmyndinni, þrátt fyrir öll oflætin virðist sjálfstraustið ekki hafa verið eins öflugt og ætla mætti. Hér verður ekki hjá því komist að velta fyrir sér stöðu útlagans sem finnur sér ekki stað, annaðhvort af eigin vilja eða öðrum sökum. Þetta kemur vel fram framarlega í bók Ólafs þegar Sigurður Pálsson kemur í heimsókn til Dags að bjóða honum að vera meðal „Listaskáldanna vondu“: „Það kom sér illa fyrir Dag að ég var í kaffi. Þeir Sigurður vildu fá hann fram á ganginn til að geta borið upp erindið. Dagur leit af þeim og síðan á mig og svo aftur til þeirra sem biðu. Því næst sagði hann og setti rjóðan: – Ég hef alltaf verið með aumingjunum og ég er að hugsa um að halda því áfram“ (13). Á áttunda áratugnum var farið að draga úr íhaldssemi íslensks samfélags, þó voru ennþá dregnar skýrar línur í menningarlandslagið. Flóki átti ekki upp á pallborðið því list hans féll ekki að þeirri tegund módernisma sem þá var að ryðja sér til rúms, með nokkrum látum. Eins og oft vill vera í litlum samfélögum var einfaldlega ekki pláss fyrir þá listamenn sem voru hvorki með né á móti, hvorki hefðbundnir á hefðbundinn hátt, né framsæknir á þann hátt sem markaður hafði verið. Stöðu Flóka er áhugavert að skoða í samhengi við móttökurnar á list Nínu Sæmundsson, en frægt er þegar höggmynd hennar, Hafmeyjan, sem stóð í Reykjavíkurtjörn, var sprengd árið 1960 (afsteypa af styttunni var aftur komið á sinn stað í Tjörninni árið 2014). List Nínu, líkt og Flóka, var fígúratíf þegar afstrakt list þótti það eina rétta. Við þetta má svo bæta að Nína var lesbísk, sem tengir yfir í Hina hliðina.
Ólafur er óvæginn í lýsingum á þessu öllu saman, hvort sem er á sjálfum sér og því hvernig hann gekkst upp í því að vera í samfélagi við þessa snillinga, sem hikuðu ekki við að hæla honum linnulaust – þó ekki án þess að gera hæfilegt grín að honum líka. Sjálfur tók hann samviskusamlega þátt í drykkjunni og fjármagnaði hana að miklu leyti með launum konu sinnar. Þegar þau hjónin flytja til Danmerkur koma þeir í heimsókn, Dagur og Steinar Sigurjónsson, og dvelja lengi. Hluti Steinars er öllu minni en þeirra Flóka og Dags, en sagan af draumi hans um að ferðast um Evrópu í hjólhýsi er afar eftirminnileg, svo og innkoma hans í barnaafmæli sonar Ólafs. Þar situr hann þungbúinn í síðum leðurfrakka og kroppar í sviðakjamma með hnífi sem hann dregur upp úr skjóðu. Þegar kona Ólafs setur rjómatertu fyrir framan hann fer allt til verri vegar: „Rjómatertan hlýtur að hafa vakið upp vondar minningar frá Akranesi eða Hellissandi, allt um það keyrði hann nú dálkinn í tertuna miðja og hrærði í henni“ (110). Faðir minn, Dagur, sem kannaðist við þessa pilta alla, lýsti Steinari svo að hann hefði verið verkalýðslegastur af þeim, og það kemur á ýmsan hátt fram í Listamannalaununum. Vissulega er ekki fjallað þar um stéttir og stéttaskiptingu, en þó má vel sjá ýmis merki þess að mannamunur var gerður á þessum skrautlega hópi listafólks sem Ólafur lýsir. Þetta sést meðal annars í umræðum um bókmenntir, listir og lestur, sem er ríkur hluti verksins. Skáldin – og listamenn í bland – ræða linnulaust um bókmenntir og önnur skáld, alþjóðleg jafnt sem íslensk, og gefur þetta afar áhugaverða innsýn í tíðarandann, auk þess að skapa Listamannalaununum sjálfum áhugaverðan ramma. Margir þeirra höfunda sem eru til nefndir og lesnir og dáðir voru sjálfir drykkfelldir og skrautlegir og þannig byggist upp tilfinning fyrir heimi skáldskaparins þar sem skilin á milli skálda og skáldskapar, listar og listamanna, renna saman og úr verður nýtt listaverk eða fjölskrúðugur skapnaður sem Flóki og félagar hefðu verið fullsæmdir af. Ein sagan lýsir þessu ágætlega, en þar er Vigdís forseti í heimsókn í Kaupmannahöfn. Flóki, Tryggvi Ólafsson og Jón Gunnar eru með samsýningu. „Hvað ert þú að gera hér með Súmurum? sagði Jón Gunnar stríðnislega við Flóka. – Þú sem ert af kynslóð Einars Jónssonar myndhöggvara.“ Flóki hefur ekkert svar við þessu. „Á miðju gólfi var stór gljáandi ölkútur og rétt í þessu gekk Thor Vilhjálmsson að með ölkollu, þrýsti á sveif og lét renna í kolluna. Ég heyrði að kona sagði við Thor: – Guð, er þetta ölkútur? Ég hélt þetta væri listaverk eftir Jón Gunnar.“
Sýning er í galleríi og hafði eigandinn gert sér vonir um að Vigdís mætti þar, hann „var mikill á velli og minnti á patróninn á Select“ og Ólafur man „eftir þeirri sögu Sigurðar Pálssonar að það væri heilög skylda hvers heiðvirðs listamanns að kyrkja patróninn á Select þar sem hann væri fulltrúi heimskapítalismans. Svipað gilti um kaffivélina á Mokka. Margur maðurinn hafði reynt að rífa hana af borðinu með það sama í huga“ (146). Á þennan hátt vefur Ólafur marga ólíka þræði og fjallar á fínlegan og fallegan hátt um tilveru sem oft virðist allt annað en álitleg. Undir öllu saman liggur svo spurningin um sjálf listamannalaunin: Hver eru laun listarinnar? er lykilspurning (afsakið) sem aldrei er svarað, en jafnframt því er bókin sjálf svar, allavega eitt svar af mörgum mögulegum. „Þú verður að lofa mér einu, elsku vinur, hafði Flóki eitt sinn sagt. Að skrifa aldrei um mig“ (218).
Þögn er eitt af þemum Hinnar hliðarinnar, „Sýnileikinn var ekki mikill og einhverskonar dauð hönd bælingar lá yfir öllu“ (19), eins og segir í „Hommaorðræða æsku minnar“. Þar lýsir Guðjón því hvernig „allt er laut að samkynhneigð var gegnsýr[t] af hommafóbíu.“ Þarna eru að birtast viðtöl við homma og „varð víða uppi fótur og fit. Í minni sveit hafði herbergisfélagi einn úr héraðsskóla mestar áhyggjur af því að það myndi spyrjast út að hann hefði deilt herbergi með homma. Slíkur orðrómur var hættulegur og gat hæglega varpað rýrð á karlmennsku viðkomandi“ (19). Á sama tíma birtust greinar eftir fyrsta formann hinna nýstofnuðu Samtaka, „þar sem hann lýsti bágri stöðu homma og lesbía þessa lands, sumpart fannst manni eins og hann væri að kynna til sögunnar hin einu sönnu hjábörn þessarar veraldar“ (19–20). Alnæmið er líka komið til sögunnar sem virkaði ekki hvetjandi á homma í felum: „Ógn alnæmisins þjappaði samt hópnum saman en í þessum efnum er enn margt ósagt.“ Gegn þessari launung og þunga teflir Guðjón fimlega fram sögum af skemmtanalífi: „Í andrúmi tíunda áratugarins var skemmtistaðurinn góði því mikilvægt afdrep og vettvangur margs konar kynna“ (20).
Skemmtanalífið er þó ekki alltaf tekið út með sældinni, en diskóið var yfir og alltumkring. „Einn forframaður íslenskur hommi sagði að álög væru fólgin í því að vera kynvillingur, svo vitnað sé í hans eigin orð. Að þurfa að umbera Donnu Summer í hvert sinn sem brugðið var undir sig betri fætinum og skundað á hommabar var að hans mati ekkert gamanmál“ („Gömlu dívurnar“, 15). Hinn lúmski húmor sem einkennir sögurnar kemur líka vel fram í „Himnastiganum“, en þar birtast vel fordómar yfirvalda. Vísað var í erlenda skýrslu um æstar tilfinningar homma og lesbía og aukna eldhættu vegna þessa. Fyrirskipað var að „keyptir væru öflugir brunastigar, beint úr bandaríska biblíubeltinu, til að setja utan á húsið. Raunar voru stigarnir svo traustir og rammgerðir að þeir hefðu sem best getað borið gestina hálfa leið til himna. Kannski voru þeir hugsaðir sem forgjöf til hópsins á leið hans þangað upp eftir áralangt sódómískt líferni“ (16).
Hin hliðin fjallar líka um fortíðina, en Guðjón er naskur á að finna sögur um hina og aðra sem þóttu sérstakir í háttum. Þar eru bæði prestar, kaupmenn og bændur nefndir til. „Það var hérna á árunum eftir stríð og fram undir sjötíu að tveir menn bjuggu hlið við hlið á bæjum hér aðeins innar í sveitinni. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema hvað þeir þóttu ansi nánir, sagði amma gamla með sposkum svip.“ Þeim hélst illa á ráðskonum og „nágrannarnir voru ósparir á að nota kíkinn til að sjá hvers vegna hléin voru svona löng við heyvinnuna“ en „snertingar bak við heysáturnar“ þóttu „æði alúðlegar“ („Margar góðar sögur amma sagði mér“, 62–63). Margar þessar sögur eru utan af landi og birta vel bæði umræðuna, forvitnina og leyndina. Einnig bendir Guðjón á hinsegin dæmi úr Íslendingasögum sem lengi vel var vandlega sniðið hjá en „seinni tíma fræðimenn keppast nú við að rannsaka“ („Sannleikurinn um Guðmund ríka“, 29).
Og þannig fetar Guðjón sig fram og til baka um heim homma, menn í felum og felunöfn – en á þessum tíma þótti sjálfsagt að kvenkenna homma. „Með kvenkyns dulnefni var hægt að ræða um kynvillta kunningja í „streit“ félagsskap“ („Hver er hún?“, 36). Og talandi um konur þá fjallar ein sagan um „Lífverði“, sem voru „albestu“ vinkonur „sem alltaf fylgdi með í pakkanum þegar farið var út á galeiðuna.“ Þær virkuðu í senn sem dulbúningur og vörn gegn óvelkomnum ágangi. Í þessari sögu nefnir Guðjón líka að á þessum tíma var bara gert „ráð fyrir tvenns konar kynhneigð, sem er mjög ólíkt veruleika ungmenna nútímans“ (44). Með setningum eins og þessum teiknast margræð mynd þar sem vísað er til ýmissa tíma. Bókin er ekki mikil um sig, innan við hundrað síður á lengd og sögurnar stuttar, en brotin raðast saman í mynd sem er mun víðfeðmari en bókin sjálf. Þarna eru ekki aðeins sagðar sögur (nafnlausra) einstaklinga heldur heillar kynslóðar, bæði þeirra sem töldust til samkynhneigðra og þeirra sem gerðu það ekki – en stunduðu sama skemmtistað.
Þegar líður á sögurnar er komið inn á breytingarnar sem orðið hafa á síðustu árum og meðal annars velgengni Gleðigöngunnar. Þar vitnar Guðjón í Jón Múla Árnason sem „sagði eitthvað á þessa leið: Bara ef við hefðum eftirlátið hommunum skipulagið á 1. maí!“ („Hommarnir og 1. maí“, 85). Þarna sameinast listin og hin hliðin í uppreisn og andófi. Skemmtanagleðin er annar samnefnari bókanna, eins og fyrr segir, en á henni eru þó margar hliðar. Skemmtistaðir og skemmtanir voru helstu möguleikar homma og lesbía til að sýna sig og sjá aðra, hittast og kynnast, á stöðum sem voru að einhverju leyti hlutlausir – ekki síst ef ‚lífvörður‘ var með í för. Drykkja hjálpaði sömuleiðis til við að losa um leyndina og slaka á hömlum. Hömlulaus drykkja listamannanna virkar hinsvegar sem örvæntingarfull leið til að bæði fanga og flýja listina og frægðina; drykkjan var lífsstíll listamanna og höfunda og leið til að ná athygli, en eins og áður segir er erfitt að líta framhjá því hvernig drykkjan verður einskonar feluleikur, blönduð ótta við að standast ekki (eigin) væntingar. Í báðum tilfellum var niðurstaðan of oft skaðleg, jafnvel banvæn.
Hin hliðin og Listamannalaun eru bækur sem virka á sinn hátt sem minnisvarðar um uppreisnir, sigra og ósigra, sýnileika og ósýnileika. Bæði verkin lýsa lífi sem lifað er (til fulls) á stað sem er bæði ofursýnilegur og dulinn. List þeirra sem Ólafur fjallar um (og annarra sem við sögu koma, meðal annars hans sjálfs) stendur enn fyrir sínu og mikilvægt að minna á þátt þeirra í menningarsögunni. Hin hliðin er nú orðin svo viðurkennd að það er full ástæða til að minna á að lengi vel var samkynhneigð eitthvað sem varð að fara leynt. Og eins og títt er um minnismerki er dauðinn allsstaðar nálægur, alnæmið leggur hommana að velli meðan áfengið fellir listamennina. En himnastigarnir eru líka margir og margvíslegir, upprisurnar út um allt og þrátt fyrir sora, sorg, villur og mistök þá búa báðar bækurnar yfir smitandi gleði – fjöri og ólgu. Þessi gleði er fögnuður þeirra sem fara sínu fram og finna sínar eigin leiðir í gegnum lífið, þótt þær leiði til tortímingar og hörmunga. Og þótt margir hafi farist, þá eru minningarnar enn til staðar, arfur til næstu kynslóða sem getur svo dundað sér við að rölta sínar eigin gleðigöngur.