Sigurður Skúlason frumsýndi í fyrrakvöld í Þjóðleikhúskjallaranum einleik sinn og Benedikts Árnasonar leikstjóra, Hvílíkt snilldarverk er maðurinn, með bútum úr höfundarverki Shakespeares í þýðingu Helga Hálfdanarsonar. Þeir félagar hafa valið glæsilegar einræður og samtöl úr mörgum þekktustu verkum leikskáldsins og þó að flestar persónurnar væru karlkyns hikaði Sigurður ekki við að bregða sér í kvenhlutverk, því eins og hann minnti okkur á voru þau líka leikin af strákum á tímum Shakespeares.
Sigurður tók línuna í vali sínu úr Sem yður þóknast þar sem lýst er á hnitmiðaðan hátt ævi mannsins frá því að hann er organdi ungbarn gegnum bernsku, ungdómsár (þar eru bæði elskhuginn og hermaðurinn), fullorðinsár og elli og uns hann er aftur orðinn ungbarn, vitlaus, tannlaus og sjónlaus. Við fengum að hitta bæði Rómeó og Júlíu, konungana Ríkharð 2. og 3. auk tveggja Hinrika og Lés, Makbeð og frú, Óþelló, Kaupmanninn í Feneyjum, ýmsar gamanleikjapersónur og sjálfan Hamlet. Í rauninni var það draumur allra leikara sem þarna rættist fyrir framan galopin augu og eyru áhorfenda; Sigurður safnaði einfaldlega saman öllum hlutverkum sem góða leikara langar til að leika!
Það var gaman að horfa og hlusta á Sigurð njóta sín og rifja upp hvað þessi fjögurhundruð og fimmtíu ára gamli Breti var mikið séní og hvað Helgi var frábær þýðandi. Skemmtilegasta atriðið var úr Ríkharði 3. þegar Ríkharður biðlar til Önnu prinsessu við líkbörur tengdaföður hennar (sem Ríkharður hefur drepið og bónda hennar með). Þetta er auðvitað svo vel skrifað atriði að af ber og Sigurður skilaði því af innlifun!
Sigurður fléttaði kynningu á atriðum sínum inn í textann um leið og hann tengdi þau saman, og fór prýðilega á því. Þó að segja megi að þetta sé rányrkja á toppunum í höfundarverki Shakespeares þá er snjallara að líta svo á að þetta sé vönduð og vel heppnuð kynning á því og væri upplagt fyrir metnaðarmikla kennara að senda nemendur sína á sýninguna. Leyfa þeim að fá Shakespeare beint í æð.