Hellisbúinn, Pabbinn, Afinn og nú Alvörumenn, allt eru þetta uppistandssýningar með áherslu á hlutverk og stöðu karlmannsins í nútímasamfélagi. Af þeim er sú síðastnefnda stærst í merkingunni fjölmennust og sviðsett af mestum metnaði í stærsta salnum, en hún er samt beint framhald af Hellisbúanum sem var fyrsta viðureignin við þetta efni á íslensku og að mínum smekk sú sem heppnaðist best.
Alvörumenn eftir Glynn Nicholas og Scott Rankin er sýnd í Austurbæ og ef marka má aðsókn og viðtökur í gærkvöldi á hún eftir að gera það gott. Enda er vel hugsað fyrir öllu. Leikstjórinn Gunnar Helgason er þrautreyndur í sjóum af ýmsu tagi og hann kallar til leiks trausta og afar frambærilega leikara. Kjartan Guðjónsson er Finnur Snær, hjúskaparfíkillinn sem á fimm börn með sex konum (að eigin sögn) og hefur nú þegar nokkrar fjölskyldur á framfæri sínu; rosalega nervus, fljótfær, og reiðistjórnunarnámskeiðin virðast ekki hafa skilað honum miklum árangri. Kjartan segir línurnar sínar af öryggi og náði hámarkshlátri út úr þeim. Jóhann G. Jóhannsson var Smári – Smári hennar Fríðu væri sagt á Dalvík því Smári er alveg undir hælnum á konu sinni, óöruggur og víkjandi. Jóhannes Haukur Jóhannesson er Hákon, sá ókvænti og fjallmyndarlegi sem býr í penthási í hundraðogeinum, fjarskalega sjálfsöruggur og leikur á konur eins og fiðlusnillingur á fiðlu sína.
Yfir þessum þrem samverkamönnum í „fyrirtækinu“ ríkir Guðmundur forstjóri og eigandi þess sem Egill Ólafsson leikur af myndugleika, og þráðurinn í verkinu spinnst af því að Guðmundur fer með þeim öllum – makalausum – til Kanaríeyja í vinnuferð. Hann ætlar að endurskipuleggja fyrirtækið og þeir eiga að breinstorma um framtíðina. Í rauninni hefur Guðmundur allt annað í huga en ekki skal það látið uppi hér.
Á Kanarí gera alvörumennirnir það sem makalausir karlmenn gera samkvæmt klisjunni, horfa á stelpur, drekka sig blindfulla (í fyndnu en alltof löngu atriði), horfa á stelpur, fara í golf, tala um konur, villast í gönguferð, horfa á stelpur, hálfdrepa sig af tómum klaufaskap í sjóferð (eins og mér skilst að leikarahópurinn hafi leikið eftir á dögunum ásamt öðrum höfundi verksins) og bonda þessi býsn.
Í rauninni er þetta prýðilegt efni í gott leikrit um brýnt efni en ekki er mikið gert til að nálgast kjarna þess. Í verkinu eru fá samtöl, það er byggt upp af eintölum og eintölin hafa það aðalhlutverk að koma áhorfendum til að hlæja. Þetta er fyrst og fremst uppistand, ekki alvöruverk um karlmenn. Margir brandararnir voru bæði gamalkunnir og lágkúrulegir og í rauninni stórkostlegt að þessir góðu leikarar skyldu bera þá fram af slíkri list að salurinn hló að þeim – einu sinni enn.
Höfundum Alvörumanna hefur verið ljóst hvað það var billegt að byggja heilt verk á kynlífsskrýtlum og til að bæta úr því láta þeir Guðmund opinbera afar sorglegan atburð í eigin lífi, örlagastundina sem skipti lífi hans í tvennt, óafturkallanlega. Satt að segja fannst mér þetta atriði endanlega fara með verkið. Allt í einu var klippt á hláturinn og ætlast til að áhorfendur færu að skæla. Þetta var svo ósmekklegt að jaðraði við tilfinningaklám. Og framhaldið, ræður þremenninganna um eigið líf og tilveru, var ekki miklu skárra.
Sviðsbúnaður var alveg í lágmarki en þess í stað beitt vönduðum og vel heppnuðum látbragðsleik. Þeir félagar náðu fram ófáum hlátrasköllum með því að hossast í ósýnilegum strætó, setjast á ósýnilega stóla (og snúa sér janfvel í hálfhringi á þeim), leika golf (þar var Jóhann G. meistarinn), reykja loftvindla, róa ósýnilegum árum og – það sem var kannski allrabest – vera alveg að drukkna. Svei mér ef ég hélt ekki niðri í mér andanum líka meðan þeir Jóhann og Kjartan voru í kafi!
Fimmti maðurinn á sviðinu og sá sem ekki skiptir minnstu máli er Pálmi Sigurhjartarson píanóleikari sem leikur undir söng fjórmenninganna og framleiðir áhrifstónlist. Allt það vann hann af stakri prýði. Þýðing Bjarkar Jakobsdóttur var munntöm og skemmtileg en mikið var ég fegin í lokin þegar leikararnir fengu loksins að segja helvítis í staðinn fyrir hið margtuggna fokk sem fram að því hafði verið eina blótsyrðið – og hastarlega ofnotað. Hvað varð eiginlega um andskotann í þessu tungumáli okkar? Söngtextana þýddi Sævar Sigurgeirsson og olli mér sárum vonbrigðum. Kannski eru textarnir vondir á enskunni en fyrr má aldeilis fyrr vera. Á íslenskunni voru þeir sumir algert klastur, ég nefni bara sönginn um pabba.
Sem sagt: mjög faglega unnin og fyndin uppistandssýning en ekki búast við meira.