Það kemur fram í viðtali við Richard LaGravanese, annan höfund Bastarða sem nú eru sýndir í Borgarleikhúsinu, að innblásturinn hafi þeir Gísli Örn Garðarsson fengið úr skáldsögu Dostojevskís, Karamazov-bræðrunum. Þaðan spretta persónur verksins og litríkur textinn er undir áhrifum þaðan. Vissulega eru Bastarðar einfalt verk miðað við geysilanga og flókna skáldsöguna en írónían er lúmskari og undirtextinn verður áleitinn þegar á líður þó að yfirborðið virðist kannski eins og amerísk sápa framan af.
Magnús (Jóhann Sigurðarson) er mikill karl, auðugur að landi og fé og þrunginn lífsþrótti þótt kominn sé nokkuð til ára sinna. Hann á fjögur börn, að líkindum með fjórum konum, og fyrirlítur þau öll nema yngsta drenginn, Alex (Sigurður Þór Óskarsson) sem hann vill arfleiða að eigum sínum. Hin hyggst hann kaupa af höndum sér í eitt skipti fyrir öll og kallar þau heim á eyjuna sína undir því yfirskini að hann liggi fyrir dauðanum. Raunin er þó allt önnur, hann ætlar að kvænast hinni íðilfögru Margréti (Nína Dögg Filippusdóttir) sem áður var unnusta Mikaels sonar hans (Stefán Hallur Stefánsson).
Þeir koma strax eldri synirnir, Mikael og Jóhann (Hilmir Snær Guðnason), og kona Jóhanns, Natalía (Elva Ósk Ólafsdóttir). Jóhann er svo spenntur fyrir yfirvofandi láti föður síns að hann hefur með sér sérhannaða líkkistu handa honum – og munar litlu að hann lendi ofan í henni sjálfur, svo mikið gengur á. Það verður þeim gríðarlegt áfall að karlinn skuli hreint ekki vera í dauðateygjunum. Fyrir er á eyjunni auk Alex systirin Marta (Þórunn Erna Clausen), þræll föðurins, og eiginmaður hennar, skordýrafræðingurinn Ríkharður (Víkingur Kristjánsson); einnig listmálarinn Hans (Jóhannes Níels Sigurðsson) sem er að mála portrett af Magnúsi.
Eins og fyrirsjáanlegt er af þessari stuttorðu efnislýsingu er hér lagt upp til heiftarlegs fjölskylduuppgjörs enda vantar ekkert upp á það. Í tvær klukkustundir tekst þetta fólk á og opinberar sinn innri mann, þroskast jafnvel og þróast í framvindunni. Og af því að leikararnir gefa sig af lífi og sál verður nautn að fylgjast með þeim í þessum átökum. Jóhann Sigurðarson er óhemju kraftmikill í hlutverki Magnúsar, eitraður og valdasjúkur ofstopamaður. Nína Dögg er tálkvendið holdi klædd – og raunar háskalega kynþokkafull í fötunum hennar Mariu Gyllenhoff sem sér um búninga. Þórunn Erna var alger andstæða hennar í túlkun sinni á Mörtu og var klædd samkvæmt því. Þriðja kvengerðin var svo elskulega og trygglynda eiginkonan, svo fullkomin andstaða alls sem fjölskyldan stóð fyrir og sem Elva Ósk tók fallega utan um.
Stefán Hallur lék draumóramanninn Mikael af innlifun og tók ákaflega nærri sér þegar draumarnir reyndust órar. Hilmir Snær naut þess að leika orðheppna veslinginn Jóhann sem reynist svo dásamlega margfaldur í roðinu. Sigurður Þór hafði kannski vandasamasta hlutverkið þegar upp var staðið og lék það aðdáunarlega vel. Tengdasoninn túlkaði Víkingur af barnslegri einlægni og átti samúð allra þó að erfitt hafi verið, bæði fyrir persónur og áhorfendur, að stilla sig um að hlæja að honum. Leikstjórnin var í höndum Gísla Arnar sem hefur unnið verk sitt af alúð og atorku.
Leikmynd Barkar Jónssonar er mikil smíð og óvenjuleg: Allstórt rjóður í skógi og trjáhús í limi trjánna fyrir ofan. Áhorfendur sitja bæði í sal og uppi á sviði, handan rjóðursins, þannig að leikararnir þurfa að ná eyrum fólks í tveim áttum. Það fór ekki hjá því að maður missti af setningum þegar leikararnir sneru sér í hina áttina, einkum þegar þeir stóðu líka alveg hinum megin á sviðinu. Þetta kom yfirleitt ekki að sök, helst að maður missti af stöku setningu hjá Hilmi og Stefáni Halli. En bilið milli sætaraða uppi á sviðinu reyndist ekki boðlegt karlmönnum með langa leggi.
Tónskáldin Lars Danielsson og Cæcilie Norby lyfta undir persónur og atburðarás með tónlistinni sem myndar mikilfenglegan ramma utan um sýninguna, alveg í stíl við sviðið. Lýsinguna sjá Carina Persson og Þórður Orri Pétursson um og bjuggu til fantaflottar myndir úr skuggum og vatni hvað eftir annað. En óþægilega bjart ljós frá veggnum á móti skar stundum í augun.
Andskoti smart sýning.