Ævar Þór Benediktsson og MurMur frumsýndu í gærkvöldi í Tjarnarbíó einleikinn Kafteinn Frábær eftir breska leikskáldið Alistair McDowall. Ævar Þór þýðir verkið sjálfur, leikstjóri er Hilmir Jensson, flókin og í hæsta máta merkingarbær ljósahönnunin er eftir Ólaf Ágúst Stefánsson en skikkju ofurhetjunnar sem kom til ýmissa nota hannaði Ásdís Guðný Guðmundsdóttir. Tónlistin er eftir Svavar Knút sem einnig skapaði hljóðheiminn og orti og söng elskulega kvæðið um að læra að fljúga.

Kafteinn Frábær er í senn persónusköpun og ævisaga mannsins Magnúsar og segir frá samskiptum hans við annað fólk, hjónabandi hans og ást hans á dótturinni Emilíu. Þetta er ákaflega bældur maður. Hann skortir alveg sjálfsálit og sjálfstraust – dóttirin orðar það þannig að honum þyki ekkert vænt um sjálfan sig og það er býsna vel sagt hjá henni. Emilía er hins vegar kotroskin lítil stúlka, strax og hún fær málið, afskaplega forvitin og spurul. Eiginkonan er framan af bæði skilningsrík og glaðsinna en fer fljótlega að leiðast sambúðin og þá frýs brosið. Magnús vinnur í búsáhaldaverslun og ekki heldur þar verður hlédrægni hans og sérkennileg framkoma til þess að auka honum vinsældir. Síðasta samtal hans og yfirmannsins var stórhlægilegt í vandræðaskap sínum.

Allar þessar persónur og miklu fleiri lék Ævar – auk þess sem Magnús var tvöföld persóna, bæði Magnús hversdagsmaður og Kafteinn Frábær, ofurhetjan sem hann býr til einu sinni þegar dóttirin biður hann að segja sér sögu upp úr sér í stað þess að lesa sögu úr bók. Þá verður Kafteinninn til, rétt eins og Lína langsokkur við svipaðar aðstæður í lífi Astrid Lindgren, og eins og má ímynda sér getur hann bjargað öllu – eða hér um bil. Ævar sýndi sanna snilli við sköpun þessara persóna, breytti á eldingarhraða um svipmót, rödd, hæð og þyngd, líkamsstöðu og hreyfingar. Falleg vinna hjá þeim félögum, Ævari og Hilmi.

Þó að Magnús sé ekki kátur karakter er textinn skemmtilegur og oft fyndinn enda Ævar Þór líka orðsins listamaður. Þetta er enn einn eftirminnilegur einleikur í Tjarnarbíó sem fólk ætti ekki að láta framhjá sér fara.

Silja Aðalsteinsdóttir