Ég hafði aldrei heyrt um Sviðslistakórinn Viðlag fyrr en í gær þegar ég sá sýningu hans Við erum hér í Tjarnarbíó – ef ég hefði heyrt um hann fyrr hefði ég sótt um inngöngu. Þetta er alveg áreiðanlega hressasti hópurinn á svæðinu um þessar mundir, minnir oft á leikhópinn Hugleik á hans fjölmennustu og fjörugustu sýningum. Textinn, bæði talaður og sunginn, er saminn í hópefli og hann er iðulega fyndinn, markviss og innihaldsríkur. Leikstjóri er Agnes Wild og handritshöfundar með henni (og leikarar í sýningunni) eru Bjarni Snæbjörnsson, Inga Auðbjörg K. Straumland, Karl Pálsson og Steinunn Björg Ólafsdóttir. Guðný Ósk Karlsdóttir sá um dans- og sviðshreyfingar sem voru á köflum verulega flóknar og flottar. Verkið er kynnt sem „glymskrattasöngleikur“ – sem þýðir að notuð eru þekkt lög úr eldri söngleikjum en með nýjum textum – og tónlistarstjórn, kórstjórn og raunar allt viðkomandi tónlistinni er í hæfum höndum Axels Inga Árnasonar sem er við hljóðfærið á sviðinu allan tímann.
Brúðkaupsdagur Bjartmars (Þórðarsonar) og Arnars (Haukssonar) er runninn upp og við fylgjumst í byrjun með undirbúningi athafnarinnar síðustu klukkustundina. Stressið er alltumlykjandi en einkum er Bjartmar á nálum; svo er að sjá sem veislustjórinn (Halldóra Þöll Þorsteins) hafi rústað öllu sem hann lagaði sjálfur kvöldið áður. Og planarinn (Katrín Ýr Erlingsdóttir) er líka stressuð, heilinn á milljón en alveg bensínlaus, eins og kaldrifjaður kórinn syngur. Æsingurinn stillist þegar Arnar brúðgumi segir frá fyrstu kynnum þeirra Bjartmars í fallegum ástarsöng undir lagi úr Litlu hryllingsbúðinni. Svo er hann rekinn út til að skipta um föt en þjónaliðið fær sviðið til að ræða sín mál. Yfirþjónninn (Karl Pálsson) brýnir fyrir þjónum sínum að þeir verði að vera kurteisir þótt þeir mæti dónaskap frá viðskiptavinum í frábærum söng, „Vertu næs“ undir lagi úr The Book of Mormon. Svo hefst athöfnin, allir gestir gráta undir laginu „Don´t cry for me Argentina“ (!) og athafnastjórinn (Jökull Ernir Jónsson) giftir gumana undir lagi Heródesar í Jesus Christ Superstar. Þetta voru hvort tveggja vel heppnuð atriði. Og á eftir syngur faðir Arnars (Bjarni Snæbjörnsson) syninum lof undir laginu „In Summer“ úr Frosti og tekst að vera bæði innilegur og andstyggilegur.
En það er þó í brúðkaupsveislunni eftir hlé sem söngleikurinn tekur virkilega flugið í röð óborganlega fyndinna atriða. „Stopp nú tangó“ úr Chicago var ílangt en textinn var virkilega vel saminn og flutningur góður. Sunginn orðaslagur fráskildu hjónanna (Kristbjörg Ásta Viðarsdóttir, Hafsteinn Níelsson), „Loksins laus“, undir lagi úr Tick, Tick, Boom! var dillandi skemmtilegur, textinn verulega fínn og skilaði sér (sem betur fór) einstaklega vel í söngnum. Í beinu framhaldi af honum kom hápunktur sýningarinnar þegar allur kórinn söng og dansaði (að gefnu tilefni!) „Baðrómans“ undir lagi úr Moulin Rouge. Enn voru eftir ágæt lög og vel sungin af Guðrúnu Ágústu Gunnarsdóttur og Örnu Rún Ómarsdóttur áður en lokasöngurinn fékk að hljóma, samnefndur sýningunni: „Við erum hér“, sunginn af öllum hópnum:
Jafnvel þó að heimur hafni þér
örugga átt höfn í hjarta mér.
Því þó að bregðist bræðrabönd
við erum hér.
Það þarf víst ekkert að hvetja fólk til að sjá þessa sýningu, miðarnir hafa runnið út, svo ég segi bara: Góða skemmtun og takk fyrir mig!
Silja Aðalsteinsdóttir